Jóna Berg Andrésdóttir sýnir olíu- og vatnslitamyndir á sýningunni Uppspretta sem var opnuð nýverið í Borgarbókasafninu Spönginni. Um sýninguna segir í tilkynningu: „Hugmyndir sínar sækir Jóna í land og náttúru sem hún þekkir vel eftir búsetu í Eyjum og margar ferðir um landið, en uppsprettan kemur líka úr dýraríkinu og mannlífinu, ekki síst úr hennar nánasta ranni.“
Jóna er sögð hafa fengist við listmálun frá unga aldri og eiga að baki fjölbreytt nám í listum. Hún stundar nú listmálun í Borgum hjá Pétri Halldórssyni leiðbeinanda. Sýningin stendur til 6. janúar og má skoða á opnunartíma safnsins.