Pétur Blöndal
p.blondal@gmail.com
Það bar helst til tíðinda að veðurfræðingurinn Birta Líf birtist á skjánum í jólapeysu með hreindýramynd. Ekki þarf meira til að valda usla meðal hagyrðinga. Hjörtur Benediktsson orti:
Í kortunum er kalsa tíð
kalt er og skortur á hlýju
Birta hún spáir hálku og hríð
í hreindýrapeysunni nýju.
Þórður Mar Þorsteinsson prjónaði við það:
Norðanáttin stendur stíf,
stefnir á oss grandi.
Birtist þá ekki Birta Líf,
og bjargar þessu landi.
Árni Bergmann sendir tilvistarvísu „sem vel mætti prjóna aftan við“:
Framtíðin er firrt og galin
furðu margt sem vekur kvíða.
En bjartsýnin liggur í leyni falin
og leitar stunda milli stríða.
Án hennar yrði mér ekki vært …
Brakandi ný limra frá Eyjólfi Ó. Eyjólfssyni:
Mjólk setur Magnús í teið
mokandi sykri með skeið
svo borðar hann kleinu
með bragðgóðu teinu
og blaðrar heil ósköp um leið.
Davíð Hjálmar Haraldsson segir létt yfir lögreglunni sem lengi hafi búið við skort á rekstrarfé og tækjabúnaði. „Í gærkveldi gafst loks færi á að nota rafbyssu á fórnarlamb hérlendis. Að sögn bárust hamingjuóskir frá nágrannalöndunum.“ Svo klykkir hann út með:
Þeir fagna og syngja þótt frost sé og dimma.
Á fóni er alkunnur hergöngumars.
Þeir gráta og hlæja og gefin er fimma
við gutlandi blávatn og nautgripafars.
Pétur Stefánsson er í jólahugleiðingum:
Núna hefur nokkuð fennt,
nú skín lítið sólin,
en börnin eru býsna spennt
því bráðum koma jólin.
Skyrgámur mun vera kominn til byggða. Sigtryggur Jónsson yrkir:
Skyrgámur læðist í skugga um stétt,
skyr er jú það sem hann etur.
Finn’ ann í búri þann blessaða rétt,
þá borðar hann meðan hann getur.