List Karítas Gunnarsdóttir með verkfæri í hendi og viðskiptavin á bekknum.
List Karítas Gunnarsdóttir með verkfæri í hendi og viðskiptavin á bekknum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Tattú er mjög vinsælt í dag. Nánast allir sem ég þekki eru með flúr; sumir kannski bara einn staf eða smámynd. Aðrir vilja stærri myndir sem þekja jafnvel heilu líkamspartana. Þetta er mjög skemmtileg þróun,“ segir Karítas Gunnarsdóttir. Á dögunum opnaði hún með Dísu Thors, vinkonu sinni, húðflúrsstofuna Feyrún Tattoo við Skipholt 17 í Reykjavík.

Feyrún er samsett nýyrði af enska orðinu fey sem vísar til álfa, huldufólks og íslenska rúnaletursins. „Faerún er líka heimsálfa í hlutverkaspilinu Dungeons & Dragons sem við Dísa höfum dálæti á. Okkur þótti þetta því mjög viðeigandi nafn,“ segir Karítas, sem á stofunni býður upp á flúr í ýmsum myndum. Slíkt er vinsælt, ekki síst meðal erlendra ferðamanna.

„Ég man ekki eftir mér öðruvísi en að teikna. Slíkt hefur alltaf fylgt mér og mér finnst einstaklega gaman að teikna ketti. Þeir spretta stundum nánast ósjálfrátt fram á blöðunum hjá mér. Og stundum enda þeir sem tattú,“ segir Karítas, sem lærði húðflúrun hjá sér reyndara fólki. Teikningin er þó undirstaða og þar á Karítas að baki langt nám, meðal annars í Leeds Art University á Englandi.

Lundi og lúpína

Rúnir, blóm, textabrot og nöfn eru vinsælt flúr. Einnig smámyndir ýmiss konar. „Það er svo skemmtilegt að útlendingar sem ferðast vítt og breitt um heiminn koma hér stundum við, enda eru þeir þá að safna flúri frá einstaka löndum sem þeir heimsækja. Túristar frá Bandaríkjunum og Kanada eru þar áberandi. Lundinn og lúpínan eru mjög vinsælar óskir á sumrin og snjókorn og norðurljós á veturna. Íslenskar rúnir ásamt vegvísi og ægishjálmi eru þá mjög vinsælar og fastur liður allt árið,“ segir Karítas og að síðustu:

„Skemmtileg viðbót við eldgosatattúin síðan eldvirkni hófst á Reykjanesskaga er glóandi hraun á handlegg; það skorar hjá sumum og tilvalið þykir að fá sér slíkt. Skemmtilegast þykir mér þó að teikna eitthvað í mínum stíl, úr mínum huga, og færa yfir á húðina. Þannig nýt ég mín best; þegar sköpunargleðin fær að njóta sín. Þá verða einhverjir töfrar.“