Samið Halldór Halldórsson og Elías Jónatansson skrifa undir í Súðavík.
Samið Halldór Halldórsson og Elías Jónatansson skrifa undir í Súðavík. — Ljósmynd/OV
20 kílómetra langur jarðstrengur verður lagður frá Skutulsfirði yfir í Álftafjörð og mun leysa af hólmi núverandi loftlínu til Súðavíkur. Strengurinn mun liggja frá aðveitustöð Orkubús Vestfjarða á Ísafirði í nýja aðveitustöð sem áformað er að byggja í Súðavík og verður á 33 kílóvatta spennustigi

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

20 kílómetra langur jarðstrengur verður lagður frá Skutulsfirði yfir í Álftafjörð og mun leysa af hólmi núverandi loftlínu til Súðavíkur.

Strengurinn mun liggja frá aðveitustöð Orkubús Vestfjarða á Ísafirði í nýja aðveitustöð sem áformað er að byggja í Súðavík og verður á 33 kílóvatta spennustigi.

Elías Jónatansson, forstjóri Orkubús Vestfjarða, og Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins (Ískalk), undirrituðu samning á miðvikudag um tengingu nýrrar kalkþörungaverksmiðju við Langeyri í Súðavík. Væntingar standa til þess að verksmiðjan geti tekið til starfa um mitt ár 2027 og verði 20-25 manna vinnustaður. „Með samningi OV og Ískalks er komin vissa fyrir því að afhending rafmagns geti átt sér stað og að ekki sé lengur verið að velta fyrir sér að nota gas við þurrkun kalkþörunga,“ segir Halldór og bendir á að rafmagnsinnviði þurfi að bæta.

„Um leið og þessi samningur styrkir afhendingu rafmagns til Súðavíkur svo um munar er enn mikil vinna eftir við að bæta rafmagnsinnviði Vestfjarða og nauðsynlegt er að framleiða meira rafmagn í sjálfum landshlutanum. Þessi samningur undirstrikar að það sem er gott fyrir fyrirtækin er gott fyrir samfélagið vegna þess að hér haldast í hendur afhendingarmöguleikar fyrir verksmiðju Ískalks sem mun skapa störf í Súðavík og aukið raforkuöryggi fyrir samfélagið,“ segir Halldór.

Elías fullyrðir að samningurinn við Ískalk flýti öruggari tengingu til Súðavíkur um áratug hið minnsta.

„Jarðstrengurinn mun auka afhendingaröryggi rafmagns í Súðavík verulega, en Súðavíkurlína er einn veikasti hlekkurinn í dreifikerfi Orkubús Vestfjarða. Samningurinn flýtir áformum Orkubúsins um öruggari tengingu til Súðavíkur um a.m.k. 10 ár. Hið sama má segja um framkvæmdir við nýja aðveitustöð í Súðavík, sem færist um leið af snjóflóðahættusvæði á öruggan stað,“ segir Elías en við sama tækifæri veittu OV og Ískalk björgunarsveitinni Kofra í Súðavík 250 þúsund króna styrk vegna kaupa á nýjum björgunarbáti frá Vestmannaeyjum.