Á Siglufirði Rósa ólst upp á Sauðárkróki en flutti til Siglufjarðar átján ára gömul og hefur búið þar síðan.
Á Siglufirði Rósa ólst upp á Sauðárkróki en flutti til Siglufjarðar átján ára gömul og hefur búið þar síðan.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rósa Aðalheiður Magnúsdóttir fæddist 20. desember 1924 á Sauðárkróki og ólst þar upp fyrstu æviárin. Árið 1936 þá missir hún móður sína, Steinunni Ingibjörgu, en Rósa var þá einungis 11 ára gömul. Hún býr næstu árin hjá föður sínum og systkinum á…

Rósa Aðalheiður Magnúsdóttir fæddist 20. desember 1924 á Sauðárkróki og ólst þar upp fyrstu æviárin.

Árið 1936 þá missir hún móður sína, Steinunni Ingibjörgu, en Rósa var þá einungis 11 ára gömul. Hún býr næstu árin hjá föður sínum og systkinum á Sauðárkróki en er send í sveit á sumrin og er næstu árin í vist, annars vegar á Brautarholti í Skagafirði og svo á heimilum á Siglufirði.

Eftir grunnskólanám á Sauðárkróki fer Rósa í vist á Grund í Eyjafjarðarsveit en ári síðar, þegar hún er 18 ára, flytur hún til Siglufjarðar til að hefja vinnu á saumastofu Guðrúnar. Rósa hefur búið á Siglufirði allar götur síðan. Næstu árin vann Rósa á saumastofu á veturna en flest sumur í síld hjá Jóhanni Skagfjörð.

Fljótlega eftir komuna til Siglufjarðar kynntist Rósa Hauki Jónassyni bólstrara sem síðar varð eiginmaður hennar. Þau hófu búskap á heimili foreldra Hauks að Túngötu 20b. Haukur og Rósa stofnuðu Bólsturgerðina á Siglufirði 8.6. 1948, fyrst til húsa að Eyrargötu 24 en árið 1958 byggðu Rósa og Haukur nýtt hús að Túngötu 16 þar sem heimili þeirra var á efri hæð en á neðri hæð ráku þau í sameiningu bólsturgerð og húsgagnaverslun í 52 ár eða til ársins 2000.

Eftir að rekstri var hætt fluttu Rósa og Haukur að Hvanneyrarbraut 42 þar sem Rósa býr enn.

Helstu áhugamál Rósu hafa alla tíð verið fjölskyldan og samveran með henni. Rósa og Haukur byggðu sér sumarhús í landi Illugastaða í Fljótum árið 1962 og dvöldu þar öll sumur upp frá því. Í Fljótum voru helstu áhugamálin garðrækt og fiskveiðar, bæði neta- og stangveiði, í Miklavatni og Fljótaá.

Á veturna voru Rósa og Haukur mikið á gönguskíðum og ferðuðust talsvert til fjarlægari landa.

Rósa er vel ern, býr ein og sér um sig sjálf. Afmælisdeginum ætlar hún að verja í faðmi fjölskyldunnar á Siglufirði.

Fjölskylda

Eiginmaður Rósu var Haukur Jónasson, f. 17.7. 1926, d. 23.2. 2016, bólstrari og verslunarmaður. Haukur var fæddur og uppalinn á Siglufirði og bjó þar alla tíð. Haukur og Rósa gengu í hjónaband 31.12. 1949 og höfðu því verið gift í 66 ár þegar Haukur lést árið 2016.

Foreldrar Hauks voru Jónas Guðmundsson trésmiður, f. 25.5. 1885, d. 31.8. 1960 og Guðrún Ingibjörg Sigurjónsdóttir húsmóðir, f. 27.6. 1889, d. 19.4. 1983.

Sonur Rósu og Hauks var Jónas Magnús Hauksson, f. 20.7. 1944, d. 20.7. 1944.

Kjörsonur Rósu og Hauks var Sigurður Ómar Hauksson, f. 28.12. 1950, d. 14.11. 2022, skrifstofumaður á Siglufirði. Maki: Kristín Jónasdóttir, f: 1.5. 1950, d. 1.10. 2016.

Barnabörnin eru fjögur, Haukur f: 15.10. 1971, Rósa Dögg, f. 18.4. 1974, Jónas Logi, f. 17.11. 1975, og Eva Björk, f. 10.11. 1979. Barnabarnabörnin eru alls tíu og barnabarnabarnabörnin eru orðin þrjú.

Systkini Rósu voru Valdimar Líndal Magnússon, bifreiðastjóri á Sauðárkróki, f. 25.10. 1922, d. 2.4. 1988; Gunnhildur Abelína Magnúsdóttir, símastúlka á Sauðárkróki, f. 27.4. 1926, d. 28.4. 2012; Hulda Ingibjörg Magnúsdóttir, húsfreyja á Svalbarðseyri, f. 9.5. 1928, d. 11.11. 2017. Hálfsystir, samfeðra, var Guðrún Magnúsdóttir, f. 10.1. 1942, d. 11.2. 2022.

Foreldrar Rósu voru hjónin Magnús Konráðsson, verkamaður á Sauðárkróki, f. 8.9. 1897 í Skagafirði, d. 25.3. 1982, og Steinunn Ingibjörg Ólafsdóttir, húsmóðir, f. 30.7. 1904, d. 29.9. 1936. Magnús og Steinunn Ingibjörg gengu í hjónaband 10.9. 1922.