Algengt er orðið að fyrirtæki skreyti sig með ýmiskonar skýrslum um starfsemi sína sem tengjast ekki fjárhagslegum málum en eru gjarnan á sviði umhverfismála eða annars sem almennt er talið jákvætt. Ekki er ljóst hverju þetta skilar í raun en enginn vafi er á að kostnaðurinn er mikill. Hætt er við ef of langt er gengið í þessum efnum að það komi niður á framleiðni í atvinnulífinu og lífskjörum í landinu.
Margt af þessu er ættað frá Evrópusambandinu og í ViðskiptaMogganum í vikunni var sagt frá nýjum reglum ESB um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja sem verði innleiddar hér á næsta ári. Þar er einnig minnt á hversu íþyngjandi slíkt regluverk getur verið, ekki síst þegar íslensk stjórnvöld bæta við umfangsmiklar reglur ESB með svokallaðri gullhúðun og draga þannig enn frekar úr samkeppnishæfni Íslands.
Í greiningu Viðskiptaráðs frá því í fyrra segir að frá árinu 2016 hafi íslenskt atvinnulíf borið viðbótarkostnað upp á tæpa tíu milljarða króna vegna gullhúðunar sem tengist ófjárhagslegri upplýsingagjöf.
Sú ríkisstjórn sem senn kveður hafði skilning á að of langt hefði verið gengið í gullhúðun og stefndi að því að draga úr henni. Ætli ný ríkisstjórn verði sama sinnis?