Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
„Auglýsingin sem birt var í Fréttablaðinu sama dag getur þannig ekki talist fullnægjandi auglýsing að þessu leyti. Sú auglýsing var villandi og ekki til þess fallin að vekja athygli á breytingunum og framsetning hennar vekur spurningar.“
Þetta kemur fram í bréfi sem lögmannsstofan Logos sendi fyrir hönd Búseta til Reykjavíkurborgar vegna vöruhússins við Álfabakka 2 í Suður-Mjódd í vikunni.
„Þær breytingar sem um ræðir voru auglýstar með öðrum tillögum að breyttu deiliskipulagi og hverfisskipulagi í Reykjavík undir millifyrirsögninni „Bryggjuhverfi dælustöð“. Þar er aðallega vikið að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis en aftast í þeirri umfjöllun, án aðgreiningar eða fyrirsagnar, er í beinu framhaldi í textanum vikið að breytingum á Álfabakka. Kynning á deiliskipulagsbreytingunum árið 2022 var því ekki í samræmi við lög, sem takmarkaði enn frekar möguleika íbúa á svæðinu og hagsmunaaðila til að gera athugasemdir við skipulagsferlið,“ segir í bréfi Logos.
Í bréfinu kemur jafnframt fram að í desember 2020 hafi umboðsmaður Alþingis gert frumkvæðisathugun á því hvernig staðið var að kynningu á deiliskipulagsbreytingu við Álfabakka 2. Í bréfi til Skipulagsstofnunar kynnir hann þá athugun sína og bendir á að kynning á leyfi til framkvæmda og byggingar sem veitt sé á grundvelli skipulags þurfi að taka mið af því að þeir sem málið kunni að varða geti í heild áttað sig á því hvað felst í umræddri framkvæmd eða byggingu.
Athugasemdir Búseta
Auglýsingin var ekki gerð með áberandi hætti eins og skipulagslög og reglugerð gera ráð fyrir
Ekki var gætt að réttindum borgaranna sem eiga að hafa raunhæfa aðkomu að málum
Verulegir annmarkar á skipulagsferlinu