Arinbjörn Rögnvaldsson
arir@mbl.is
Héraðsdómur Reykjavíkur fellst ekki á að ríkissjóði beri að endurgreiða Kviku banka ríflega 81 milljón króna vegna kaupréttarsamninga sem bankinn gerði við lykilstjórnendur á árunum 2014 til 2018.
Tildrög málsins voru þau að Kvika krafðist ógildingar á úrskurði yfirskattanefndar, sem staðfesti ákvörðun Ríkisskattstjóra um að skattlagning hagnaðar á áskriftarréttindum að hlutabréfum samkvæmt samningi við lykilstjórnendur teldist til launa en ekki fjármagnstekna.
Héraðsdómur hafði komist að sömu niðurstöðu í sams konar máli, sem einnig var kveðin upp í gær, þar sem íslenska ríkið var sýknað af rúmlega 32 milljóna endurgreiðslukröfu eins fyrrverandi lykilstjórnenda Kviku.
Í báðum málunum féllst dómurinn ekki á þann málatilbúnað að áskriftarréttindi lykilstjórnenda hefðu verið eitthvað annað en venjulegir kaupréttarsamningar, þrátt fyrir að réttindin hafi verið seld á markaðsverði og umræddir aðilar ekki fengið sérstök kjör frá bankanum.
Héraðsdómur tók undir sjónarmið skattayfirvalda um að hagnaðinn af áskrift að hlutabréfum samkvæmt kaupréttarsamningi ætti að skattleggja sem laun en ekki sem fjármagnstekjur, eins og bankinn gerði þegar hagnaðurinn var leystur út.
Að mati dómsins tengist hagnaðurinn störfum lykilstjórnenda og því hafi endurákvörðun Ríkisskattstjóra verið í samræmi við lög.
Dómurinn vísaði til þess að kaupréttirnir hefðu aðeins staðið lykilstjórnendum til boða en ekki öðrum starfsmönnum. Að stjórnendurnir hafi greitt fyrir umrædda samninga breyti engu um að um skattskyldan hagnað hafi verið um ræða, að mati dómsins.