Helgi Oddur Konráðsson fæddist á Akureyri 11. október 1939. Hann lést á Akureyri 7. desember 2024.

Foreldrar hans voru Konráð Sigurbjörn Kristjánsson, járnsmiður og kaupmaður á Akureyri, f. 2. feb. 1906, d. 24. mars 1986, og Lára Sigfúsdóttir, f. 23. júní 1910, d. 24. júní 2007.

Bræður Helga voru Bjarni Steinar, f. 1934, d. 2016, og Konráð Sigurbjörn, f. 1952, d. 2013.

Eiginkona Helga er Birna Ketilsdóttir frá Ytra-Fjalli í Aðaldal, f. 11. feb. 1938. Foreldrar hennar voru Ketill Indriðason, f. 12. feb. 1896, d. 22. sept. 1971, og Jóhanna Hólmfríður Björnsdóttir, f. 20. jan. 1899, d. 18. des. 1998.

Börn Helga og Birnu eru: 1) Ketill, f. 27. sept. 1963, giftur Anítu Helgason. Börn Ketils og Ingibjargar Vagnsdóttur eru a) Kristín, f. 21. apríl 1986, maki Bjarni Siguróli Jakobsson. Sonur þeirra er Ketill Þórberg. Sonur Bjarna er Árni Sólberg. b) Birna f. 2. júní 1987, maki Daníel Hjörvar. Börn þeirra eru Inga og Helgi. Dóttir Daníels er Aþena Sif. c) Ívar, f. 18. október 1993, giftur Örnu Engilbertsdóttur. 2) Helga Lára, f. 25. nóv. 1964, gift Bjartmari Péturssyni. Dóttir þeirra er Jóhanna Birna. Börn Bjartmars eru Sigríður Anna, Friðmar, Eyþór og Örvar. 3) Birna, f. 19. apríl 1974, maki Börkur Jónsson. Dóttir þeirra er Una, f. 4. jan. 2016.

Helgi ólst upp á Akureyri í Skipagötu 8. Hann lærði múrverk í Iðnskólanum á Akureyri og tók sveinspróf þaðan 1959. Hann fór til Goslar í Þýskalandi og vann þar um tíma við múrverk. Árið 1963 fékk hann meistararéttindi í múrsmíði. Hann var umboðsmaður fyrir Epinert-gólfefni frá Þýskalandi og brautryðjandi í að leggja það á fiskvinnslu- og iðnaðargólf á Íslandi.

Helgi var mikill djassunnandi. Hann spilaði á trompet sér og öðrum til ánægju og átti tónlist hug hans fram á síðasta dag.

Útför Helga fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 20. desember 2024, klukkan 13.

Elsku afi.

Ég var búin að ákveða að taka Ketil minn með mér norður í desember, þegar símtalið kom um að nú væri lítið eftir svo við flugum með fyrstu vél til Akureyrar. Þar sem ég sat með litla strákinn minn í fanginu fór ég að hugsa um allt það sem ég ætla að segja honum og systkinabörnum hans um Helga langafa sinn.

Þú sagðir aldrei nei við því að fara í sund. Ætli þú hafir ekki farið með okkur Birnu systur daglega þegar við vorum litlar stelpur og þú í Bolungarvík. Eins eigum við systkinin ótal minningar af því að hafa farið með þér á menntaskólaárunum. Þá var byrjað á því að synda, svo var farið í gufuna og þar kenndir þú okkur að gera öndunar- og styrktaræfingar, og iðulega enduðu þessar ferðir á að gera upphífingar. Ég man eftir að hafa hugsað í eitt skiptið að ég gæti þetta ekki núna, en þetta væri örugglega ekkert mál þegar ég yrði gömul eins og þú. Það hefur þó ekki tekist enn.

Austurbyggðin er örstutt frá Menntaskólanum á Akureyri og þegar ég var nýflutt, 16 ára gömul, komst ég fljótt upp á lagið með að kíkja í heitt súkkulaði til ykkar ömmu. Í minningunni þegar mann bar að garði varstu oft í innkeyrslunni að bóna bílinn eða við borðstofuborðið að fægja silfrið og þinn ástkæra trompet, en þú fórst alveg einstaklega vel með allt sem þú áttir. Það var ekki fyrr en við systkinin urðum fullorðin að við áttuðum okkur á vinnunni sem lá að baki því hvað allt entist vel og lengi hjá ykkur ömmu. Sem börn héldum við til dæmis að greni yxi eins og það lítur út fyrir framan húsið. Það var ekki fyrr en ég fékk þann heiður að fara í stiga og aðstoða þig við að klippa efsta hlutann með handklippum, eftir að þú hafðir rifbrotnað við sama verk, að maður öðlaðist betri skilning á þeirri eljusemi og alúð sem lá að baki hverju verki sem þú tókst þér fyrir hendur.

Þegar maður sat við eldhúsborðið var ríkisútvarpið nánast alltaf í gangi. Samfélagsmálin voru rædd af miklum eldmóði og ríkri réttlætiskennd. Þú varst mikill náttúruverndarsinni og barst hag verkafólks fyrir brjósti. Ég lofa þér að „Nallinn“ verður spilaður á mínu heimili fyrsta maí á hverju ári og þín minnst með hlýju.

Allar frásagnir af þínum uppáhaldsdjasstónlistarmönnum voru sveipaðar ævintýraljóma. Tónninn í röddinni breyttist og nöfnin Chet Baker, Dizzy Gillespie og Miles Davis hljómuðu eins og á söguhetjum; ekki skemmdu svo útblásnu kinnarnar fyrir í augum barnsins. Margar bestu minningar okkar systkinanna af þér eru þegar tónlistin þeirra var sett á og þú spilaðir með á trompetinn. Þegar við hlustum á þessa meistara með börnunum okkar í framtíðinni munu þau fá að heyra allt um það, hvernig það lifnaði yfir Helga langafa þegar tónlistin þeirra hljómaði í tækjunum.

Svona munum við þig afi, og svona munu langafabörnin þín minnast þín.

Vertu kært kvaddur.

Kristín, Birna og
Ívar Ketilsbörn.

Tímarnir skiptast og giftan í öldum gengur

gleði og sorgir í lífi manna og þjóða.

(Ketill Indriðason)

Með Helga Konráðssyni slitnaði enn einn strengurinn við gömlu Akureyri, sem er allt annar bær en nú blasir við með háhýsum og samhæfðum húsaröðum.

Hann ólst upp í Skipagötu 8. Nú er erfitt að ímynda sér að í þá daga stóðu húsin rétt ofan við fjöruborðið og fjaran og bryggjan, sem þar voru, leikvöllur Helga og félaga hans. Endalaust mátti finna þar margvísleg viðfangsefni fyrir unga og athafnasama drengi. En bárurnar, sem virðast svo sakleysislegar þegar þær læðast upp í sandinn, geta orðið skeinuhættar ungum ofurhugum og það fékk Helgi að reyna, því tvisvar lenti hann í sjónum en var bjargað. Í seinna skiptið á síðustu stundu. Sem betur fór átti hann lengra líf fyrir höndum. Þökk sé þeim snarráða manni sem greip hann þegar Helgi var að sökkva í þriðja sinn. Nú er fjaran og bryggjusvæðið komið undir steinsteypu, þar eru nú hús og plön og hávær umferðaræð.

Sautján ára gamall var hann farinn að vinna í múrverki og það varð hans ævistarf. Eftirsóttur til þeirra hluta. Þar fór allt saman, dugnaður og kappsemi með einstakri vandvirkni og útsjónarsemi. Hann var sannkallaður fagurkeri sem hafði mjög næmt auga fyrir því sem betur mátti fara og skilaði hverju verki lýtalaust. Fór vel með allt sem hann hafði undir höndum, hvort sem það voru verkfærin, bílarnir hans eða snyrtingin á grenilimgerðinu framan við húsið. Þar notaði hann bæði tommustokk og klippur enda vakti það aðdáun margra vegfarenda. Hann var mjög músíkalskur, átti trompet og lék listavel á hann, jafnt sálmalög sem amerískan djass og blús. Þar missti tónlistin af góðum liðsmanni. Stöku sinnum gaf hann sér tíma til að fara til stangveiða í Laxá í Aðaldal með Álfi og Ívari mágum sínum. Það og félagsskapurinn voru honum dýrmætar stundir frá krefjandi erfiðisvinnu. Nú er hann allur en lítill langafadrengur hlaut nafn hans fáum dögum eftir fráfall hans. Ekki verður litla Helga óskað betri vöggugjafar en mannkosta langafa síns.

Ég og fjölskylda mín kveðjum mág minn og þökkum góðu stundirnar á langri ævi.

Ása Ketilsdóttir.