Ólöf Jóna Sigurgeirsdóttir fæddist 16. september 1944 í Vestmannaeyjum. Hún varð bráðkvödd 10. desember 2024 á Grund.

Hún var dóttir Sigurgeirs Ólafssonar (látinn) og Elísu G. Jónsdóttur (látin). Hún átti eina alsystur, Ruth Höllu Sigurgeirsdóttur (látin) og sex hálfsystkini; Guðrúnu Iðunni Jónsdóttur (látin), Eirík Heiðar Sigurgeirsson (látinn), Guðfinnu Guðný Sigurgeirsdóttur, Sæfinnu Ástu Vídó Sigurgeirsdóttur (látin), Emmu Hinriku Vídó Sigurgeirsdóttur og Þór Vídó Sigurgeirsson.

Ólöf ólst upp í Berjanesi, Vestmannaeyjum, hjá afa sínum og ömmu; Jóni Einarssyni (látinn) og Ólöfu Friðfinnsdóttur (látin). Ólöf sagði oft sitt mesta happ í lífinu að vera hjá þeim í Eyjum fram að táningsaldri því þannig varð hún Vestmanneyingur.

Ólöf giftist Jóni Sigurðssyni og áttu þau þrjú börn; Ólaf Jón, Ásgeir og Elísu Guðlaugu. Barnabörnin urðu fimm. Ólafur Jón (maki: Aðalheiður Rúnarsdóttir) og Gerður Petrea Guðlaugsdóttir eignuðust Guðjón Bjarka og Jón Axel (maki: Erna Margrét Grímsdóttir) og Elísa Guðlaug og Valtýr Þórisson eignuðust Ásgeir Inga (maki: Rakel Mist Einarsdóttir), Vigni Daða (maki: Viktoría Kjartansdóttir) og Ingunni Jónu. Langömmubörnin eru þrjú; Sóllilja Björk, Birkir Axel og Elísa Arna.

Alla sína tíð var Ólöf dugnaðarforkur. Hún vann í fiskvinnslu í Vestmannaeyjum sem unglingur og þegar hún flutti upp á meginlandið vann hún í Kjötbúðinni Borg og hjá Morgunblaðinu. Ólöf gerði hlé á vinnuferli sínum þegar börnin komu til sögunnar og lagði alla áherslu á að búa fjölskyldu sinni gott og kærleiksríkt heimili. Þegar börnin voru orðin stálpuð setti Ólöf á laggirnar heimaiðnað hvar hún framleiddi sauðkindina Sóley og Palla pólarbjörn, vinsæla minjagripi fyrir ferðafólk.

Þegar mest lét voru tveir starfsmenn með Ólöfu, þær Kristrún og Sigga Snorra. Eftir nokkur ár vildi Ólöf láta til sín taka á öðrum vettvangi og hóf hún störf hjá IBM á Íslandi sem síðar varð Nýherji. Þar var hún í móttöku og greiddi götu viðskiptavina fyrirtækisins.

Ólöf og Jón bjuggu alla sína tíð í Reykjavík fyrir utan tveggja ára veru í Genf þegar Jón vann hjá Sameinuðu þjóðunum. Þau áttu bústaðinn Berjanes í Skorradal.

Áratuga gamli saumaklúbburinn, með traustu vinkonunum í rúmlega hálfa öld, var alltaf í hjarta hennar. Í Oddfellow lagði hún mikla vinnu í fjáraflanir.

Árið 2021 greindist Ólöf með alzheimer.

Útför Ólafar fer fram frá Lindakirkju í dag, 20. desember 2024, kl. 15.

Mamma mín er farin og eftir er tómarúm sem aldrei verður fyllt. Alla mína tíð hefur einn fasti verið í lífinu, mamma var alltaf til staðar. Við systkinin nutum þess að hún tók á móti okkur þegar við komum heim úr skóla eða margvíslegum ævintýraferðum. Mamma hafði alltaf nægan tíma, þolinmæðin var ótakmörkuð, hún hafði svör við öllu og gat leyst alla hnúta. Mömmur halda heiminum saman og mamma mín var í framlínunni í því verkefni.

Nokkur ár eru liðin síðan mamma greindist með alzheimer. Þetta var reiðarslag fyrir okkur öll og dökkir kólgubakkar hrönnuðust upp á sjóndeildarhringnum. Alla hennar tíð var mamma praktísk og ákveðin og í þeim anda syrgði hún í nokkra daga, en eftir það heyrði ég aldrei styggðaryrði frá henni varðandi þennan skelfilega sjúkdóm. Hún leit á þetta sem verkefni og tók á því þannig.

En fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Nær daglegar heimsóknir okkar systkinanna til mömmu undanfarin ár gáfu ótal tækifæri til þess að spjalla við hana og spyrja um alls konar hluti sem engin ástæða var til að grennslast fyrir um þegar nægur tími er til stefnu. Iðulega fór ég til hennar beint eftir vinnu, en síðustu mánuðina heimsótti ég hana þegar kvöldaði. Þá var meiri ró á deildinni og því betri aðstæður til þess að spjalla. Þessar stundir verða nú ómetanlegar í minningunni og milda þær örlítið þennan sára og skelfilega missi.

Í þessum samtölum komu oft fram stærri og smærri atriði sem ég vissi ekki um, en ekki var síðra að heyra mömmu segja sögurnar sem alltaf eru rifjaðar upp þegar fjölskyldan hefur hist. Stundum brást minnið, en þá var einfalt að færa samtalið til Vestmannaeyja sem voru alltaf ljóslifandi í huga hennar. Mamma hafði gaman af því að segja frá hinu og þessu eins og t.d. þegar hún sá pabba í fyrsta skipti. Hún tók eftir því að strákur á hennar aldri, með Vídalínspostillu undir öðrum handleggnum, stóð við gluggann á Kjötbúðinni Borg við Laugaveg, hvar mamma vann í afgreiðslu, og fylgdist með henni. Eftir að hafa staðið úti í kuldanum í nokkur skipti mannaði hann sig upp í að stíga yfir þröskuldinn og spyrja hana hvort hann mætti bjóða henni út. Eftir stutta umhugsun gaf hún leyfi sitt og þar byrjaði samband mömmu og pabba. Ómetanlegt er að hafa heyrt þessa frásögn, og fleiri til, með hennar orðum og framsetningu.

Annað var það sem aldrei klikkaði sem var að setja handlegginn yfir axlir hennar og minna hana á að hún ætti 58 ára gamalt barn. Fyrst brá henni örlítið, en eftir nokkur skipti leit hún upp til mín og var fljót að minna mig á að hún gæti samt tuktað mig til, ef þess þyrfti.

Ég er afar þakklátur fyrir þessar stundir með mömmu minni. Þær hefðu sannarlega mátt vera fleiri, en það var ekki í spilunum. Minningar, gamlar og nýjar, eiga nú rætur í varanlegri grunni og mamma verður alltaf hjá okkur í öllum sögunum.

Starfsfólkinu á Vegamótum V-3 á Grund verður seint fullþakkað fyrir að búa mömmu öruggt skjól þessa síðustu mánuði hvar hún fann fyrir áhuga, nærgætni og hlýju í öllum samskiptum.

Ólafur Jón Jónsson.

Sumt fólk hefur eitthvað

sérstakt við sig

sem virkar þannig

að það heillar þig.

Slíkt fólk, þú tekur eftir því

hvar sem það fer.

(JGJ)

Þetta var mamma mín, hún hafði sannarlega eitthvað sérstakt við sig. Hún þurfti ekki að sækja athygli, hún meira að segja forðaðist hana. Mamma var bara þannig að þeir sem urðu svo heppnir að leiðir þeirra lægju með hennar, upplifðu að þarna var einstök kona á ferð. Hún var með svo fallega útgeislun, bros sem bræddi alla, nærveru og hlýju sem lét okkur hinum líða eins og við værum alveg sérstök.

Blíðasta faðmlagið kom frá mömmu. Það kom nefnilega frá hjartanu. Innilegt faðmlag, stútfullt af skilyrðislausum kærleik og góðvild. Það vorum ekki bara við börnin og barnabörn sem fengum að upplifa það heldur fjölskyldan öll, vinir okkar barnanna, hennar vinir og annað samferðafólk. Undanfarna daga hef ég fengið að heyra svo ótalmargar sögur um hvernig elsku mamma mín snerti líf annarra með kærleik og þær frásagnir fara beint inn í hjartað mitt á allra besta staðinn.

En mamma var líka algjör töffari. Það var hennar lífsins lukka að alast upp í Vestmannaeyjum hjá ömmu sinni og afa í Berjanesi. Þar fékk hún að upplifa stórbrotna náttúruna og frelsið á þann hispurslausa hátt sem eyjan bauð upp á en á sama tíma lærði hún góð gildi, réttsýni og það að vera góð manneskja. Það veganesti tók hún með sér út í lífið og var alltaf þakklát fyrir.

Fjölskyldan skipti mömmu öllu máli og hún gerði hvað hún gat til að sýna það. Heimili þeirra pabba var alltaf opið og oft mannmargt. Að hlusta á barnabörnin tala um ömmu af svo miklum kærleik og innileika er ómetanlegt og er ég henni þakklát fyrir allar gjafir sem hún gaf þeim: faðmlögin og ástina, spil og spjall, heitt kakó og vanillukex, bókalestur og bras, klór á bak og kossa-ritualið svo eitthvað sé nefnt. Grautardagarnir víðfrægu voru henni hugleiknir því henni fannst svo mikilvægt að stórfjölskyldan viðhéldi þeirri góðu og fallegu tengingu sem var til staðar.

Aldrei ætlaðist mamma samt til neins á móti. Við mæðgur áttum ótal oft okkar innilegu samtöl, sérstaklega í seinni tíð. Þá viðraði hún alls konar tilfinningar sem bærðust með henni. En þegar henni sjálfri fannst nóg um þá kom alltaf þessi setning: „Jæja, við skulum ekki tala meira um mig. Hvernig hefur þú það? Hvernig líður þér? Hvað segja krakkarnir?“

Elsku hjartans mamma mín. Ég er alheiminum svo endalaust þakklát fyrir að hafa fengið að vera samferða þér í gegnum lífið. Ég er þér svo endalaust þakklát fyrir allt sem þú hefur gefið mér, fyrir að vera alltaf svo kærleiksrík og góð mamma og fyrir að sýna mér skilyrðislausa ást og hlýju.

Núna hefur báturinn þinn siglt úr höfn, líður út um eyjasund og þú ert komin í partíið hinumegin við sjóndeildarhringinn. Þar tekur pabbi á móti þér með faðminn opinn, amma, systur þínar, bróðir og allt það góða fólk sem farið er.

Þangað til við sjáumst aftur elsku mamma þá kveð ég þig með þínum eigin orðum:

Bless elskan mín og guð geymi þig.

Elísa Guðlaug Jónsdóttir.

Það er enginn eins og amma Ollý. Amma sem tók alltaf á móti manni með sinn hlýja faðm, sama hvernig viðraði. Amma sem við skuldum endalaust klór enda sat maður tímunum saman og þorði ekki að hreyfa sig til að vekja ekki athygli á því að amma væri búin að klóra manni yfir allri bíómyndinni. Amma sem alltaf var hægt að leita til sama hvað gekk á. Amma sem passaði upp á að enginn labbaði út nema saddur.

Amma Ollý kenndi okkur alveg ótrúlega margt. Það er þó eitt sem stendur upp úr; mikilvægi þess að kunna að njóta og að vera í núinu. Það jafnaðist ekkert á við það að vera dögunum saman í Skorradal með henni, hlusta á fuglasöng og tálga spýtu. Í Skorradal var aldrei neitt stress, tíminn stóð einhvern veginn í stað. Amma var svo ótrúlega nösk á að láta öllum líða vel í kringum hana, enda drottning notalegheitanna. Hún var ótrúlegur húmoristi og það var alltaf stutt í hlátur þegar maður var í kringum ömmu. Hún hikaði ekki við að segja kaldhæðnislegan brandara við hvers kyns aðstæður.

Við munum alltaf vera svo þakklát fyrir ófáu stundirnar sem við áttum með þér elsku amma. Við erum svo ótrúlega heppin að hafa átt þig sem ömmu. Í hvert skipti sem við hittum þig færðir þú okkur svo mikla gleði, kærleik, ró, hlátur og notalegheit. Þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar.

Það klikkaði ekki að þegar við kvöddum ömmu fengum við frá henni hundrað litla kossa á kinnina og svo þrjá stóra í lokin. Því segjum við í síðasta skiptið:

Mu-mu-mu-mu-mu-mu- muah muah muah

Góða ferð elsku amma, við elskum þig.

Þín barnabörn,

Ásgeir Ingi, Vignir Daði og Ingunn Jóna Valtýsdóttir.

Í dag kveðjum við ástkæra og yndislega manneskju, Ólöfu Jónu Sigurgeirsdóttur, Ollý, sem kom eins og stormsveipur inn í líf mitt og okkar þegar Jóni bróður hafði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að sjarmera þessa fallegu Eyjapæju, sem geislaði svo af lífsgleði. Þetta var í byrjun sjöunda áratugarins og lífið blasti við okkur öllum. Þegar mamma síðan veiktist og var frá heilt sumar hikaði Ollý ekki, tók við búi og körlum, eða hrútum öllu heldur, sumarlangt við Hvítá, stýrði öllu heimilishaldi af slíkri festu, mildi og reisn að okkur hrútunum fannst á stundum nóg um. Svo liðu árin við ána, í Skorradalnum og í bænum á öllum hátíðarstundum hjá Jóni og Ollý í Fossvoginum og síðar Rituhólum þar sem Ollý var svo einstakur gest- og gleðigjafi. Nú síðast lágu leiðir saman í nokkur skipti þegar komið var nærri leiðarlokum hennar og enn brosti og hló mín með sínu ótrúlega jafnaðargeði og elsku til þeirra sem næst henni stóðu.

Ég felli saknaðartár yfir því að kveðja ógleymanlega og yndislega manneskju, sem tiplaði inn í líf mitt og okkar snemma á sinni lífsleið, skildi eftir sig spor sem aldrei gleymast. Og einnig gleðitár yfir því að hafa verið í gegnum lífið í nálægð við svo hjartahlýja, glaðlynda, listfenga, ákveðna, milda, miskunnsama og í raun afar heilsteypta konu sem gerði lífið fjölskrúðugra og betra hjá öllum sem í nálægð voru.

Við Guðrún sendum Óla Jóni, Elísu, Ásgeiri, barnabörnum, barnabarnabörnum og öðrum syrgjendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Ingólfur Hannesson.