Óskar Bergsson
oskar@mbl.is
Umboðsmaður Alþingis gerði frumkvæðisathugun í desember 2020 á því hvernig staðið var að kynningu á deiliskipulagsbreytingu við Álfabakka 2. Í bréfi til Skipulagsstofnunar kynnti hann þá athugun sína og benti á að málsmeðferð og kynning, við leyfi til framkvæmda og bygginga sem veitt séu á grundvelli skipulags, þurfi að taka mið af því að þeir sem málið kunni að varða geti í heild áttað sig á því hvað felst í umræddri framkvæmd eða byggingu. Þetta kemur fram í bréfi lögmannsstofunnar Logos til Reykjavíkurborgar, sem fer með mál Búseta vegna Álfabakka 2.
Auglýst undir Bryggjuhverfi
Í rökstuðningi lögmannsstofunnar kemur m.a. fram að breytingarnar hafi vissulega verið auglýstar 21. júlí 2022 Lögbirtingablaði. Það hafi hins vegar ekki verið gert með áberandi hætti eins og skipulagslög og reglugerð geri ráð fyrir.
„Sú auglýsing sem birt var í Fréttablaðinu sama dag getur þannig ekki talist fullnægjandi auglýsing að þessu leyti. Sú auglýsing var villandi og ekki til þess fallin að vekja athygli á breytingunum og framsetning hennar vekur spurningar. Þær breytingar sem um ræðir voru auglýstar með öðrum tillögum að breyttu deiliskipulagi og hverfisskipulagi í Reykjavík undir millifyrirsögninni „Bryggjuhverfi dælustöð“. Þar er aðallega vikið að breytingu á deiliskipulagi Bryggjuhverfis en aftast í þeirri umfjöllun, án aðgreiningar eða fyrirsagnar, er í beinu framhaldi í textanum vikið að breytingum á Álfabakka þar sem segir að lóðirnar við Álfabakka 2A, 2B, 2C og 2D væru sameinaðar í eina lóð og byggingarreitur lengdur til norðurs. Kynning á deiliskipulagsbreytingunum árið 2022 var því ekki í samræmi við lög, sem takmarkaði enn frekar möguleika íbúa á svæðinu og hagsmunaaðila að gera athugasemdir við skipulagsferlið,“ segir í bréfi Logos.
Fyrir þá sem málið varðar
Í bréfi Logos kemur jafnframt fram að Búseti telur að verulegir annmarkar hafi verið á skipulagsferlinu á sínum tíma og ógagnsæi varðandi umfang og áhrif þeirra breytinga sem um ræðir. Þar með hafi ekki verið gætt að réttindum borgaranna í slíku ferli sem á að tryggja þeim raunhæfa aðkomu að málum og um leið ekki gætt að mikilvægum almannahagsmunum.
„Með hliðsjón af því sem að framan er rakið telur Búseti tilefni til að óska eftir upplýsingum um stöðu málsins hjá Reykjavíkurborg og í hvaða farveg það hefur verið sett og til hvaða aðgerða eða úrræða borgin hyggst grípa vegna málsins,“ segir jafnframt í bréfi Logos til borgarinnar um leið og áréttuð er krafa Búseta frá 12. nóvember sl. um að byggingarfulltrúi stöðvi tafarlaust framkvæmdir við Álfabakka 2.
Fannst eftir margar tilraunir
Bjarni Þór Þórólfsson framkvæmdastjóri Búseta benti á í frétt Morgunblaðsins í gær hvernig staðið var að auglýsingu á breytingu deiliskipulagsins við Álfabakka 2.
„Við grennsluðumst fyrir um það hvar auglýsingin var birt og fengum það svar að þær hefðu verið birtar í Lögbirtingablaði og Fréttablaðinu í júlí 2022. Við leituðum í Fréttablaðinu en fundum ekki fyrr en eftir margar tilraunir undir fyrirsögninni Bryggjuhverfi dælustöð og þar fyrir neðan var auglýsingin um breytingu á Álfabakka 2 á meðan aðrar auglýsingar höfðu sinn titil og fyrirsögn.“
Bjarni segir að ef þetta hafi verið mistök þá spyrji hann sig að því hvers vegna þetta hafi þá ekki verið leiðrétt.
„Segjum að þetta hafi verið mistök í uppsetningu eða í prentun, af hverju var þetta þá ekki leiðrétt daginn eftir?“
Fyrrverandi borgarstjóri svarar ekki
Morgublaðinu höfðu ekki borist svör frá umboðsmanni Alþingis og Skipulagsstofnun um afdrif frumkvæðisathugunar umboðsmanns þegar blaðið fór í prentun.
Í umfjöllun Morgunblaðsins um málið sem staðið hefur yfir í eina viku hefur Dagur B. Eggertsson fyrrverandi borgarstjóri ekki svarað síma eða skilaboðum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.