Jón Nordal fæddist á Baldursgötu 33 í Reykjavík 6. mars 1926. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Seltjörn á Seltjarnarnesi 5. desember 2024.
Foreldrar Jóns voru þau Ólöf Nordal cand.phil., húsmóðir, f. 20. desember 1896, d. 18. mars 1973, og Sigurður Nordal prófessor, f. 14. september 1886, d. 21. september 1974. Systkin Jóns voru Bera, f. 15. mars 1923, d. 10. október 1927, og Jóhannes seðlabankastjóri, f. 11. maí 1924, d. 5. mars 2023.
Jón kvæntist hinn 6. mars 1956 Solveigu Jónsdóttur, f. 31. október 1932, d. 3. apríl 2012. Foreldrar hennar voru Þórunn Ástríður Björnsdóttir húsmóðir, f. 25. mars 1895, d. 9. maí 1966, og Jón Helgason prófessor í Kaupmannahöfn, f. 30. júní 1899, d. 19. janúar 1986.
Jón og Solveig eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Hjálmur viðskiptafræðingur, f. 5. desember 1959, maki Sigríður Sólveig Ólafsdóttir tannlæknir, f. 5. maí 1967. Dóttir þeirra er Ólöf, f. 2007. Synir Hjálms af fyrra hjónabandi eru Þorkell, f. 1992, unnusta Tytti Arola, og Jón, f. 1995, unnusta Noella Usborne. Dóttir Sigríðar er Sylvía Kristín Stefánsdóttir, f. 1993, maki Davíð Orri Guðmundsson. Dætur þeirra eru Iðunn og Ída. 2) Ólöf myndlistarmaður, f. 1. september 1961, maki Gunnar Karlsson listmálari, f. 28. apríl 1959. Synir þeirra eru Bergur, f. 1995, og Hjalti, f. 1999. Dóttir Gunnars er Hulda, f. 1985, sonur hennar er Leon. 3) Sigurður hagfræðingur og sviðsstjóri, f. 10. júlí 1966, maki Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir sérfræðingur, f. 8. febrúar 1965. Börn þeirra eru Jón, f. 1997, maki Anna María Björnsdóttir, Stefán, f. 2001, unnusta Sölva Magdalena Ramsey, og Solveig, f. 2001, unnusti Viktor Guðmundsson.
Jón sýndi ungur tónlistarhæfileika og lauk burtfararprófi í píanóleik 1948 frá Tónlistarskólanum í Reykjavík og tónsmíðum ári síðar. Hann stundaði framhaldsnám í píanóleik og tónsmíðum í Zürich í Sviss 1949-1951, auk námsdvalar í París, Róm og Darmstadt 1956 –1957.
Jón hélt tónleika hér á landi og erlendis sem píanóleikari og kenndi auk þess píanóleik og tónfræði. Hann varð skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík árið 1959 og gegndi því starfi til ársins 1992.
Jón sat í ýmsum nefndum og stjórnum á sviði tónlistarmála, m.a. samstarfsnefndum tónlistarháskóla á Norðurlöndum, í stjórn STEFs í nærri tvo áratugi og í stjórn Tónskáldasjóðs Ríkisútvarpsins í nær hálfa öld. Þá var hann einn stofnenda og fyrsti formaður Musica Nova, félagsskapar um flutning nútímatónlistar.
Jón Nordal er líklega kunnastur fyrir tónsmíðar sínar sem reglulega eru fluttar hér á landi og erlendis. Eftir hann liggur mikið og fjölbreytt höfundarverk. Jóni hlotnuðust fjölmargar viðurkenningar fyrir störf sín í þágu íslensks tónlistarlífs og sem tónskáld, m.a. stórriddarakross hinnar íslensku fálkaorðu, riddarakross Dannebrogsorðunnar og aðild að Konunglegu sænsku tónlistarakademíunni.
Útför Jóns Nordals fer fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í dag, 20. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.
Minningar raðast eins og myndir á þili. Mjúkar og margtóna.
Jól í Skerjafirðinum og mannhæðarháir snjóskaflar fylla Skeljatangann en ég gef í botn og bruna í gegnum skaflinn til að heimsækja kærastann í fyrsta sinn á æskuheimili hans. Hann laumar mér inn í gegnum þvottahúsið og þegar komið er inn á rökkvaðan ganginn finn ég strax þennan einstaka anda og ró sem fyllir heimili Jóns og Solveigar. Þau taka innilega á móti mér þegar ég birtist upp úr þurru í eldhúsinu og það er umvefjandi hljómur í þögninni á meðan gamla standklukkan slær sinn takt inni í stofu.
Jón var elskulegur tengdafaðir allt frá okkur fyrsta fundi þennan snjóþunga jóladag. Hann bjó yfir þeirri náðargjöf að láta öllum líða vel í návist sinni. Samverustundir okkar Sigurðar með Jóni og Solveigu áttu eftir að verða margar og góðar, enda voru tengdaforeldrar mínir skemmtilegt fólk og gefandi.
Fram á síðasta dag hélt Jón í forvitnina og áhugann á nýjungum í bókmenntum og listum, líkt og hann hélt sínu dökka hári og glettnislegum glampa í brúnum augum. Oft vorum við sessunautar Solveigar og Jóns á tónleikum og það gaf tónleikunum enn dýpri merkingu þegar við settumst saman á eftir í stofunni á Skeljatanganum og ræddum það sem fram hafði farið. Jón og Solveig lyftu öllu með nærveru sinni svo það kom meiri dýpt í samtalið um bækurnar, þéttari hljómur á tónleikunum og sterkari upplifun á ferðalaginu.
Það voru forréttindi að fá að ferðast um lífsins veg í návist Jóns. Hann var skemmtilegur ferðafélagi sem hafði áhuga á öllum litbrigðunum í umhverfinu. Hann hafði yndi af því að ganga um landið og helst upp í mót. Eftirminnileg er ganga okkar saman á Keili þar sem við yngra fólkið máttum hafa okkur öll við að fylgja sporléttum Jóni áttræðum. Á ferðum okkar um Ísland var varla til sá staður sem Jón þekkti ekki enda hafði hann dvalið á æskuárum í sveit víðsvegar um landið. Bæir eins og Skógarkot á Þingvöllum urðu ljóslifandi þó nú séu þar bara gamlar tóftir. Saman fetuðum við óljósan slóða gegnum ilmandi kjarrið í þjóðgarðinum til að finna ummerki um Skógarkot. Duttum svo í lukkupottinn því Rómaborg, sem Jón og önnur börn á bænum byggðu úr hraunmolum fyrir tæpri öld, leyndist þar líka. Minningin er ljóslifandi af Jóni að feta þessa slóða æsku sinnar, hið forna heimsveldi í íslenskri náttúru. Þannig var Jón líka margbrotinn, heimsborgari með sterk tengsl við menningararfinn og djúpar rætur í íslenskri sögu en um leið brautryðjandi og frumlegur listamaður sem hafði víðtæk áhrif á sinn samtíma.
Í gegnum tónsmíðar sínar náði Jón að sameina og snerta okkur með tónlistarperlum en einnig að hreyfa við okkur á óvæntan hátt með framúrstefnulegum tónverkum. Þessi fjársjóður mun lifa áfram og auðga líf okkar sem á hlýða. Það líf er mikils virði sem skilur eftir sig slíkar gjafir og góðar minningar hjá þeim sem eftir lifa. Myndirnar á þilinu geyma dýrmætar samvistir og þakklæti fyrir alla þá daga sem ég fékk með kærum tengdapabba mínum sem nú hefur kvatt jarðlífið en verður þó alltaf með okkur.
Áslaug Dóra Eyjólfsdóttir.
Það er fagurt útsýnið úr stofuglugganum yfir Skerjafjörðinn. Spegilsléttur sjórinn glitrar í síðdegissólinni og mávager ærslast í fjörunni. „Er ekki klóakið þarna?“ spyr ég, alinn upp í Kópavoginum. „Er það nú póesí,“ segir Jón verðandi tengdafaðir minn og ekki alveg laust við að það örli á hneykslunartón í röddinni. „Þeir finna þarna æti,“ bætir hann við. Þannig hófst og endaði okkar fyrsta smáspjall. Ekki grunaði mig þá að úr yrði innilegur vinskapur og að við myndum eiga ótal ánægjuleg samtöl næstu áratugina.
Jón kunni að umgangast alls konar fólk enda hafði hann í æsku verið sendur í sveit út um allt land. Á einum bænum hafði honum verið skammtað eitthvert sull sem hann gat ekki borðað og þegar bóndinn tók eftir að borgarbarnið fúlsaði við matnum spurði hann hvort það væri rétt sem hann hefði heyrt að í Reykjavík væri til fólk sem borðaði sér til ánægju og uppskar almennan hlátur heimilismanna.
Sjálfur var ég matvandur í æsku og það kom mér því á óvart að Jón gerði sér væntingar um að ég gæti mögulega orðið góður skötufélagi. Og það varð úr að við gerðum það að hefð að fara árlega í Þorláksmessuskötu á Hótel Borg. Kæstasta og vestfirskasta skatan var okkar réttur. Við sporðrenndum skötunni sem Jón kryddaði með sögum úr fortíð og samtíð, því hann var jafnvígur á hvort tveggja. Jón var skemmtilegur borðfélagi og árin liðu fljótt. Í minningunni er þetta eins og að hafa horft á kynslóðirnar líða hjá. Fyrstu árin voru aðeins þeir alhörðustu mættir til að eta og drekka sér til ánægju. Margir hverjir voru kunningjar Jóns frá barnæsku eða frændur og samtímamenn, bæði góðborgarar og þorparar. Jón heilsaði öllum, gantaðist og rabbaði. Með árunum fækkaði jafnöldrum Jóns, og nýjar kynslóðir komu, en það kom ekki að sök, Jón hafði innbyggða þörf fyrir að halda uppi fjörinu. Nú komu karlarnir jafnvel með mökum og þegar komið var að minni kynslóð, sem bætti um betur og tók börnin með, þá máttum við þola alls kyns tilraunir og nýjungar til að lífga upp á sköturéttinn. Innréttingum var breytt hvað eftir annað en við Jón sátum sem fastast við okkar borð og héldum okkar striki. Nú hafði skatan náð slíkum vinsældum í þjóðfélaginu að það var ekki bara skötuilmurinn sem fyllti salinn heldur var kominn svo mikill kliður að ég átti orðið erfitt með að heyra orðaskil. Jón var hins vegar kominn með heyrnartæki sem þurrkuðu út skvaldrið svo hann heyrði hvert einasta orð. Kynslóðamunurinn varð fyrir vikið enn óljósari þar sem ég var líka farinn að grána en Jón alltaf eins og unglingur með sitt dökka hár. Það kom þó að því að við vorum orðnir eins og tvær gamlar mublur úti í horni og greinilegt að tími var kominn til að skipta út. Takk fyrir öll ævintýrin, minn kæri Jón.
Gunnar Karlsson.
Þegar Jón föðurbróðir minn kveður, þá lokast dyr inn í annan heim. Heim sem þeir pabbi áttu orðalaust saman, heim Ólafar ömmu og Sigurðar afa og allra kynslóðanna á undan – eins og Jóhannesar langafa sem bjó með þeim á Baldursgötunni. Langafi var fæddur um miðja nítjándu öld, var vesturfarinn sem sneri heim aftur og tók þátt í ævintýri nýrrar aldar þegar hann stofnaði íshús í bænum.
Þeir bræður tengdu tímana saman en voru fyrst og fremst menn framtíðarinnar og áttu sameiginlegt að vera forvitnir, kvikir í huga og fylgnir sér. Fóru báðir sínar eigin leiðir og horfðu alltaf fram á við, dvöldu ekki við það liðna. Þegar ég fór með pabba í heimsókn til Jóns var rætt um nýjustu bækurnar sem þeir væru að lesa og það sem væri efst á baugi, en þeir kunnu líka listina að sitja saman í þögninni. Og svo kvöddu þeir nánast jafnaldra, rétt áður en 99 ára markinu var náð.
Jón frændi var mikill gæfumaður með Solveigu sér við hlið. Hún skóp honum rými og næði til að semja stórbrotin tónverk sín í þeim önnum sem fylgdu starfi skólastjóra Tónlistarskólans um áratuga skeið. Ég dáðist að frænda mínum í því hlutverki. Það var ekki einfalt verk að byggja skólann upp, skref fyrir skref. En þótt stakkurinn væri þröngur í Skipholtinu var vítt til veggja fyrir innan og eiginlega ótrúlegt að hugsa til baka hve allt var þar stórt í sniðum. Einstök akademía þar sem ungmenni þroskuðust í andanum í daglegum samskiptum og samtali við helstu meistara þjóðarinnar. Í skólanum var lagður grunnur að því öfluga tónlistarlífi sem við höfum notið um árabil og var mikið lán að Jón hafi valist þar svo ungur og stórhuga til forystu.
Jón snerti fólk með músíkinni. Og hvílík gjöf sem verkin eru, hvert og eitt. Það var líka auðfundið hve mikla unun hann hafði af bókmenntum. Hann tónsetti við texta frá öllum öldum og var fundvís á gersemar, eins og sást strax þegar hann aðeins fjórtán ára valdi erindin úr Hulduljóðum Jónasar og gaf okkur lagið Smávinir fagrir sem við elskum öll. Síðan kom hvert verkið af öðru. Óttusöngvar að vori eru í sérstöku uppáhaldi sem tengja Sólarljóð, latneskan messutexta og nútímaskáldskap, og svo lagið fallega við þjóðvísuna Stundaðu á það stúlkan mín sem hann samdi fyrir Ólöfu dóttur sína.
Jón frændi var stór hluti af lífinu. Við þessi miklu kaflaskil koma upp í hugann allar minningarnar frá fallega heimilinu þeirra Solveigar þar sem hið gamla og nýja tvinnaðist áreynslulaust saman við hið fagra og óvænta. Minningar sem sveipaðar eru mjúkri birtu eftirmiðdagssólarinnar og mikilli hlýju.
Guðrún Nordal.
Fyrir nokkrum árum var ég að ljúka undirbúningi fyrir ferðalag og þá hringdi bjallan og Jón frændi var óvænt kominn. „Sigurður minn, ég vildi koma og kveðja þig,“ sagði hann brosandi og tók af sér vínrauða trefilinn. Eftir skemmtilegt spjall gekk hann að píanóinu og spilaði 'Hvert örstutt spor' sem gerði þessa kveðjustund ógleymanlega.
Nú er komið að mér að kveðja. Jón frændi var yndislegur maður sem ég hændist að í barnæsku enda leið mér sérlega vel í návist hans. Hann mun alltaf lifa í hjarta mér.
Ég sendi ástarkveðjur til Hjálms, Ólafar, Sigurðar og fjölskyldna þeirra.
Sigurður Nordal.
Ein elsta minning mín úr æsku er þegar Solveig föðursystir mín kenndi mér að hvísla og læðast. Heila helgi læddumst við frænkur um íbúðina og hvísluðumst á. Við máttum nefnilega ekki trufla Jón sem sat í vinnukróknum sínum inn af stofunni og var að semja. Áratugum síðar áttaði ég mig á því að þarna var Jón að leggja lokahönd á píanókonsertinn sinn. Þessi minning lýsir fallegu sambandi þeirra hjóna, byggðu á tillitssemi og umhyggju, og ekki síður hvað Solveig var skemmtileg.
Lengi vel var Jón bara hægláti maðurinn hennar Solveigar og pabbi litlu frændsystkina minna. Það var fyrst þegar ég fór í Tónlistarskólann í Reykjavík að ég sá Jón í nýju ljósi. Hann var skólastjórinn í þessu merka menningarmusteri, enn jafn hæglátur og fyrr, en virðingin sem nemendur og kennarar báru fyrir honum var næstum áþreifanleg. Áhrifa hans gætti alls staðar en samt var hann fjarlægur. Hann var viðstaddur í öllum prófum og fylgdist með öllu án nokkurra sýnilegra afskipta. Stjórnunarstíll hans var einstaklega áreynslulaus og öllum ógleymanlegur. Aldrei heyrðist nokkur maður hallmæla Jóni eða draga hæfni hans í efa. Hann var öllum æðri á sinn ljúfa og lítilláta hátt.
Eftir að námi lauk og ég orðin ráðsettari tengdumst við á ný. Ekki skemmdi fyrir að maðurinn minn kenndi við Tónlistarskólann og fór vel á með þeim Jóni. Ótal matarboð og skemmtilegar samverustundir renna um hugann. Ferðir í Borgarfjörðinn, til Þingvalla og í Skálholt, að ógleymdri helgarferð til Hofsóss. Þá tók ég að mér að aka fína bílnum hans Jóns um Skagafjörðinn og Tröllaskagann. Í Héðinsfjarðargöngum gleymdi ég mér andartak með þeim afleiðingum að eigandi bílsins fékk hraðasekt í pósti. Mun það vera í eina skiptið sem Jón Nordal gerðist brotlegur við lög og reglur. Mig grunar að honum hafi fundist þetta nokkur upphefð og að sögn greiddi hann sektina með bros á vör og neitaði að leyfa mér að borga skömmina.
Önnur ógleymanleg minning tengist ferð á tónlistarhátíð til Parísar 2004 þar sem Skólakór Kársness og útvarpshljómsveit borgarinnar frumfluttu stórbrotið tónverk eftir Jón. Þegar hann afhenti mér nóturnar hafði hann áhyggjur af viðbrögðum kórsins. „Þetta er alls ekki barnvæn tónlist,“ sagði tónskáldið enda tónmálið framandi þeim sem hafa alist upp í dúr og moll. En áhyggjurnar reyndust óþarfar, krakkarnir lærðu sitt fljótt og örugglega og flutningurinn var okkur öllum til sóma. Ein stúlkan viðurkenndi reyndar að það væri alltaf svolítið erfitt að syngja á latínu. Þá var Jóni skemmt.
Það var fjölskyldunni reiðarslag þegar Solveig lést eftir stutt veikindi. Samrýndari hjón hef ég aldrei hitt. Skömmu áður hafði Marteinn minn fallið frá og nú kom það í minn hlut að miðla sárri reynslu til lærimeistara míns og ættföður. Þær voru ófáar stundirnar sem við sátum saman og ræddum sorgina og bárum saman bækur okkar. Þetta eru mér dýrmætar minningar.
Ég kveð Jón Nordal með virðingu og þökk. Guð blessi minningu hans og styrki frændsystkini mín og tengdabörn sem voru honum öll svo kær.
Þórunn Björnsdóttir.
Jón Nordal er einn af þeim mönnum, sem hafa haft mikil og afgerandi áhrif á líf mitt. Ég kynntist honum sem barn. Hann tók við skólastjórn Tónlistarskólans í Reykjavík þegar ég var 11 ára gömul og var mér mikil stoð og stytta í náminu allt til brautskráningar átta árum síðar. Hlýleiki og góðvild einkenndi allt hans fas. Í Tónlistarskólanum, sem barn og óþroskaður unglingur, naut ég föðurlegrar umhyggju Jóns Nordal. Uppörvun og hrós var honum í blóð borið. Hann gat hent smá gaman að, ef manni varð á í messunni á tónleikum, og kenndi manni að sjá hlutina í öðru ljósi. Minnistap á tónleikum þótti fremur skammarlegt á þessum tímum. Jón sendi mig fyrstan Íslendinga á langt og krefjandi sumarnámskeið í Bandaríkjunum, sem síðar stóð öðrum nemendum til boða án skólagjalda næstu árin á eftir. Með þessu var mér hent í djúpu laugina þar sem ég sá hvað heimurinn var miklu stærri en Ísland. Þar kynntist ég kennurum, sem höfðu síðan áframhaldandi áhrif á líf mitt. Mig langaði að læra fiðlusónötuna hans Jóns stuttu eftir að ég fór utan í nám. Kennarinn minn, Carroll Glenn, sagðist ekki vera vön að kenna verk, sem hún hefði ekki leikið sjálf. Eftir að hafa skoðað verkið var hún meira en til í að hjálpa mér. Hún þaulhugsaði hendingar, dýnamík, tónmyndun og nákvæm tempó. Hún varð heilluð af verkinu. Þegar heim kom eftir sjö ára nám erlendis varð ég aftur þeirrar gæfu aðnjótandi að vera Jóni samferða um þó nokkra hríð og þá sem kennari undir hans stjórn. Hann sýndi mér mikið traust og var ávallt hvetjandi. Þegar verkefni mín voru orðin svo krefjandi á tímabili að ég ætlaði að hætta kennslunni, alla vega um stundarsakir, fékk hann mig ofan af því. Þetta var mín gæfa því ekkert er meira gefandi en kennarastarfið. Jón sýndi mikinn áhuga á kennaranum, sem hafði leiðbeint mér svo vel með sónötuna hans. Það varð úr að henni var boðið að kenna sem gestakennari í þrjá daga við Tónlistarskólann í Reykjavík. Þegar þau tvö hittust, minn fyrrverandi kennari og Jón, var eins og þau hefðu alltaf þekkst. Nokkru síðar var Tvísöngur Jóns settur á efnisskrá tónlistarhátíðar í Vermont, Manchester music Festival, sem þau hjónin Carroll Glenn og Eugene List stóðu að.
Tónsköpun Jóns var einstök. Ég á ekki orð til að lýsa þakklæti mínu fyrir að hafa fengið að taka þátt í flutningi svo margra verka hans; flest ef ekki öll hljómsveitarverkin og kammerverk, sem hann samdi að minni beiðni ásamt meðleikurum mínum og má þar nefna Dúó fyrir fiðlu og selló og Andað á sofinn streng, sem samið var fyrir Tríó Reykjavíkur.
Síðast, en ekki síst af öllu, er þakklæti mitt ómælt fyrir að hafa fengið, nánast alla ævi mína, að vera samferða ljúfmenninu og stórkostlega listamanninum Jóni Nordal. Fyrir nokkrum vikum sá ég hann í hinsta sinn. Sólin skein úti. Hún var jafn björt í andliti hans sem skein af kærleika og vísdómi.
Aðstandendum votta ég innilega samúð.
Guðný Guðmundsdóttir.
Jón Nordal var einstakur maður, hann var ekki bara eitt fremsta tónskáld Íslands fyrr og síðar, hann var líka eitt fremsta tónskáld Norðurlanda og hefði hann ílengst í Evrópu að loknu námi þá er ekki nokkur vafi að honum hefði hlotnast viðurkenning og brautargengi langt út fyrir Ísland.
Jón var frumkvöðull á sviði tónlistarmenntunar. Hann var skólastjóri Tónlistarskólans i Reykjavík, en í hans skólastjóratíð blómstraði skólinn og sinnti menntun á háskólastigi ásamt menntun yngri nemenda. Þá var hugmyndin um listmenntun á háskólastigi varla komin inn í orðfæri stjórnsýslunnar. Barátta Jóns og annarra skólastjóra listaskóla þeirra tíma ruddi brautina og átti sinn þátt í að Listaháskóli Íslands varð að veruleika.
Ég á Jóni persónulega mikið að þakka. Hann var píanókennarinn minn á seinustu árum mínum í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Hann var alltaf hvetjandi og hann kynnti fyrir mér píanótónlist tuttugustu aldarinnar. Undir hans mildu en framúrskarandi handleiðslu spilaði ég verk eftir Stravinsky, Schönberg, Bartók og fleiri meistara tuttugustu aldarinnar. Sumum samnemendum mínum þótti þetta smáskrítin músík, en ekki mér og þarna var stráð fræjum framtíðarinnar í mínu lífi.
Við vorum nokkrir áhugasamir nemendur í Tónlistarskólanum, sem vorum eitthvað að fást við tónsmíðar. Þá voru það Jón og Þorkell Sigurbjörnsson sem áttu frumkvæði að því að senda okkur, fyrstu sendinefndina á tónlistarhátíðina Ung Nordisk Musik, vettvang ungra norrænna tónskálda. Fyrst til Noregs til að kynna okkur málin og sýna okkur og sjá aðra, og næsta ár til Svíþjóðar sem alvöruþátttakendur. Verkin okkar voru allt í einu orðin gjaldgeng til flutnings í útlöndum. Ekkert smámál! Íslendingar hafa verið virkir þátttakendur í þessu samstarfi Norðurlanda alla tíð síðan eða í hálfa öld. Þarna er annað dæmi um framsýni Jóns og áhrif.
Þegar ég kom heim frá námi og fór að fást við tónsmíðar fyrir alvöru var Jón ávallt styðjandi og uppörvandi. Hann fylgdist með því sem við, sem vorum þá ungu tónskáldin, vorum að bardúsa. Jón kom okkur í norrænt samstarf og það voru pöntuð af okkur verk.
Jón hafði mikil áhrif á samtíð sína og þróun tónlistarlífs sem boðberi framþróunar og nýrra tíma.
Hann hafði einstaklega fallega nærveru, var hógvær og fyrst og fremst góður og gáfaður maður.
Ég minnist lærimeistara af virðingu og með þakklæti og votta fjölskyldu Jóns mína innilegustu samúð.
Karólína Eiríksdóttir.
Júní 1986:
Vorið sjálft brosir í augum unga söngfólksins í Hamrahlíð sem æfir fyrir tónleika í Norræna húsinu til heiðurs Jóni Nordal sextugum. Þetta voru tónleikar á Listahátíð og efnisskráin löngu ákveðin, með ýmsum tónverkum Jóns. Nokkrum dögum fyrir tónleikana kom Jón að máli við mig og sagði að sig langaði til að þakka fyrir tónleikana og gera það í tónum frekar en orðum. Hann rétti mér handrit að laginu sínu „Smávinir fagrir“, sem hann hafði samið aðeins 14 ára, en nú var það í raddsetningu fyrir blandaðan kór, sem hann hafði rétt lokið við. Það var frumflutt í lok þessara tónleika, 3. júní 1986, af Hamrahlíðarkórnum. Þessi perla Jóns Nordal er ein elskaðasta tónsmíð okkar Íslendinga.
Jón Nordal var einn mesti andans maður okkar þjóðar. Hann var mikill mennta- og menningarmaður og ekkert andlegt viðfangsefni virtist honum óviðkomandi. Jón var listamaður af Guðs náð. Hann var mjög hógvær, gáfur hans og hlýjan sem fylgdi nærveru hans gerðu allar stundir eftirminnilegar og að sitja með honum og fara yfir ný tónverk hans, sem hann treysti unga söngfólkinu mínu fyrir, var alveg einstakt.
Það er ómetanleg auðlegð að hafa átt Jón sem kennara, mentor og vin allt lífið. Við Knut þökkum fyrir stórkostlegar samverustundir í list og gleði. Guð blessi minningu góðu vina okkar, Jóns og Solveigar, og varðveiti börnin þeirra öll.
Þorgerður Ingólfsdóttir og Knut Ødegård.
Vinur minn og mentor Jón Nordal tónskáld er látinn. Þegar slíkur andi sem Jón kveður hið jarðneska svið upplifi ég tóm eftirsjárinnar í hjarta mínu. Ég á honum persónulega ótrúlega mikið að þakka og mun ætíð minnast hans sem mentors og mikils áhrifavalds í lífi mínu. Auk sinna stórkostlegu listrænu hæfileika bæði sem tónskáld, píanóleikari, kennari og skólastjóri Tónlistarskólans í Reykjavík var Jón gæddur óvenjulegum andlegum gáfum. Þessar gáfur gerðu hann skyggnan, ekki einungis á listræn viðfangsefni heldur einnig á mannlegar sálir og allt sem mannlegt er. Næmleiki hans var undraverður og oft fannst mér í návist hans þegar kom að alvöruþrungnum einkamálum sem ég vildi ræða við hann – já, þá skynjaði ég oft að þetta lægi þegar ljóst fyrir í hjarta hans.
Framlag Jóns Nordals til menningar og lista í þessu landi var feikilega stórt bæði að magni og gæðum og tók yfir heilan mannsaldur. Hann hóf kornungur að semja tónlist og tónsköpun hans á langri ævi varð fyrir miklum áhrifum úr ýmsum áttum. Hins vegar ber þess að geta að þegar stíll hans var fullmótaður var hann svo persónulegur og sterkur að enginn velktist í vafa um hver væri höfundurinn. Verk hans, sem voru mjög fjölbreytt, vöktu ætíð með mér þessa tilfinningu fyrir dýpt, fegurð og visku þess skapandi anda sem að baki bjó.
Það var mér einstaklega dýrmætt þegar ég flutti til Íslands, eftir langa veru á erlendri grund, að fá að starfa sem kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík undir handleiðslu Jóns. Fyrir mig var þetta óskastaða bæði tónlistarlega og mannlega. Um það leyti sem Jón hætti sem skólastjóri komst það einhvern veginn í vana að við mæltum okkur af og til mót á einhverju veitingahúsi, fengum okkur hressingu og ræddum saman. Þetta voru ógleymanlegar stundir og fór ég ætíð glaður og margs vísari af þeim fundum.
Jón var gæfumaður í sínu einkalífi. Kvæntur var hann Solveigu Jónsdóttur sem nú er látin og þeirra börn eru Ólöf, Sigurður og Hjálmur. Með djúpum söknuði kveð ég vin minn og velgjörðamann Jón Nordal. Hans mun ætíð verða minnst sem eins merkasta listamanns þessarar þjóðar. Ég sendi fjölskyldu hans mínar innilegustu samúðarkveðjur.
Gunnar Kvaran.
Mér er það minnisstætt þegar Jón bauð mér á heimili sitt, þá var ég nýlega fluttur heim úr námi og að stíga mín fyrstu skref í tónlistarlífinu. Tilefnið var að ég hafði fengið styrk frá Tónskáldasjóði RÚV og þurfti nú að standa skil á verkinu sjálfu svo að allt væri með felldu. Þetta var í fyrsta sinn sem við hittumst og ekki laust við að ég væri dálítið á tánum; aldursmunurinn á okkur rúm 50 ár og bakgrunnurinn ólíkur. Eða það hélt ég. Jón tók vel á móti mér. Hann spjallaði hlýlega við mig eins og hvern annan kollega um hina ýmsu kima nútímatónlistarinnar. Sérstaklega tók ég eftir, og hef nokkrum sinnum rifjað upp síðan þá, að þarna mætti mér maður sem var einstaklega skýr í hugsun. Einhver tærleiki sem við „unga fólkið“ hefðum ekki endilega í dag. Þetta sat í mér. Það var ánægjuleg stund nokkrum árum síðar þegar Jón var útnefndur heiðursfélagi í Tónskáldafélagi Íslands. Óttusöngvar að vori og Hvert örstutt spor ómuðu og félagar glöddust með góðum vini. Jón var einnig heiðursfélagi STEFs.
Jón Nordal var einn af burðarstólpum íslensks tónlistarlífs og óhætt að segja að við stöndum öll í þakkarskuld við hann. Það er í raun sama hvar borið er niður; alls staðar má sjá spor Jóns í tónlistarlífinu. Hvort sem er í skólamálum þar sem hann leiddi Tónlistarskólann í Reykjavík um áratugaskeið eða í félagsmálunum þar sem hann kom að stofnun Musica Nova og sat í stjórn Tónlistarsjóðs RÚV í 48 ár. Geri aðrir betur! Framlag Jóns til tónlistararfs þjóðarinnar er ómælanleg auðlind sem mun halda áfram að næra okkur um ókomna tíð.
Páll Ragnar Pálsson, formaður Tónskáldafélags Íslands og STEFs.