Halldór Guðjónsson fæddist í Saurbæjarhreppi í Dalabyggð 14. desember 1937. Hann lést á Landspítalanum í Reykjavík 6. desember 2024.
Foreldrar hans voru Guðjón Guðmundsson bóndi, f. 27. júlí 1891, d. 2. janúar 1980, og Sigríður Jóna Halldórsdóttir húsfreyja, f. 8. október 1906, d. 5. janúar 1994. Systkini Halldórs eru Anna Margrét, f. 22. júlí 1928, d. 14. desember 2013. Elínborg, f. 15. október 1929. Guðmundur, f. 14. janúar 1931, d. 18. júlí 2018. Anna, f. 9. janúar 1933, d. 15. febrúar 2022.
Eiginkona Halldórs var Oddný Sigríður Aðalsteinsdóttir, f. 15. september 1942, d. 29. apríl 2004. Þau giftu sig 1. janúar 1962. Börn þeirra eru Aðalheiður, f. 12. ágúst 1961, Inga Dóra, f. 22. mars 1966, og Sævar Dór, f. 17. april 1974. Eiginmaður Aðalheiðar er Davíð Gunnarsson og börn þeirra eru Oddný Sunna, f. 1989, og Salvör Halldóra, f. 1997. Fyrir átti Davíð dótturina Ninnu Írisi, f. 1983. Eiginmaður Ingu Dóru er Magnús Guðfinnsson og börn þeirra eru Rakel, f. 1987, og Guðfinnur, f. 1992. Fyrir átti Magnús soninn Þorstein, f. 1983. Eiginkona Sævars er Hrund Guðjónsdóttir og börn þeirra eru Guðjón Atli, f. 2009, og Ylva Hrund, f. 2016.
Eftir lát Oddnýjar var Halldór í sambúð með Guðmundínu Ingadóttur, f. 15. janúar 1943, d. 27. október 2020.
Halldór ólst upp á bænum Saurhóli í Dalabyggð og bjó þar fram til sautján ára aldurs. Sem ungur maður flutti hann til borgarinnar og bjó og starfaði þar alla sína tíð. Hann byrjaði snemma að vinna og vann stærstan hluta ævinnar sem verktaki í byggingariðnaði. Meðal annars starfaði hann sem verkstjóri í Byggingariðjunni og síðar sem uppsetningarmaður í versluninni Z-brautir.
Halldór og Oddný bjuggu stóran hluta ævi sinnar í Árbæjarhverfi en seinustu ár Halldórs bjó hann í Grafarvogi.
Útför Halldórs Guðjónssonar verður í Grafarvogskirkju í dag, 20. desember 2024, klukkan 13.
Elsku hjartans afi minn.
Nú ert þú frjáls, eins og fuglinn sem þú elskaðir að fylgjast með, friðsæll eins og fiskurinn sem þú elskaðir að veiða. Núna ertu kominn heim, til ömmu. Ég veit hvað þú beiðst lengi eftir að sameinast henni, stóru ástinni í þínu lífi. Þú vildir helst tala um ömmu, segja sögur af ykkur og gömlu góðu tímunum. Nú getið þið skapað nýjar minningar saman, ég hlakka til að heyra þær sögur einn daginn þegar við hittumst á ný.
Takk fyrir að leyfa okkur öllum að njóta þín, án hennar, síðustu 20 árin. Takk fyrir öll ævintýrin sem við fengum að upplifa saman. Þú elskaðir ekkert meira en að vera á ferðalagi, fylgjast með náttúrunni, börnunum á hlaupum og lífinu allt í kringum þig.
Nú ert þú frjáls afi minn, til þess að ferðast hvert sem hjartað leiðir þig. Þín verður sárt saknað en við lofum að minnast þín. Við minnumst þín hvern desembermánuð elsku jólabarn, hvert sumarið í útilegunni og veiðunum okkar uppáhaldsveiðimaður, ég minnist þín hvert haustið þegar ég keyri um bæinn og stoppa í einni pylsulúgu fyrir þig. Þú ert alltaf í hjartanu okkar og við í þínu. Takk fyrir að leyfa okkur að passa upp á þig, nú getur þú hvílt þig. Elsku afi minn, fljúgðu frjáls um himin og haf, njóttu ferðalagsins fyrir handan. Ég minnist þín og ömmu í hvert sinn sem ég lít upp, ég veit að þú ert alltaf með mér. Velkominn heim engillinn okkar, takk fyrir allt sem þú varst og gafst mér í þessi lífi. Við elskum þig ávallt.
Salvör Halldóra
Davíðsdóttir.