Sigþór Reynir Kristinsson fæddist 1. apríl 1970 í Reykjavík. Hann lést 8. desember 2024.

Foreldrar hans eru Brynhildur Fjóla Steingrímsdóttir, f. 23.8. 1927, d. 4.8. 1993, og Kristinn Jónsson, f. 20.9. 1937.

Alsystkin Jón Bergþór, f. 1962, og Brynhildur K., f. 1966. Hálfsystkin sammæðra Helgi I. Sigurðsson, f. 1952, og Helga S. Sigurðardóttir, f. 1954.

Sigþór kvæntist Hjördísi Björgu Pálmadóttur, f. 1969, þann 23.8. 2003. Börn þeirra eru: 1) Bjarki Freyr, f. 1997, maki hans Guðrún Ágústa Viðarsdóttir, f. 1993, og barn þeirra er Verónika, f. 2022. 2) Kristín Fjóla, f. 2000, maki hennar Ísak Jónsson, f. 1999. 3) Hekla Björk, f. 2005.

Sigþór ólst upp í norðurbænum í Hafnarfirði. Hann gekk í Engidalsskóla og Víðistaðaskóla. Hann lauk stúdentsprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði og prófi í rekstrarfræði frá Iðnskólanum í Reykjavík.

Sigþór starfaði hjá Olíufélaginu hf. í byrjun síns starfsferils en hóf fljótlega eigin rekstur í tæknigeiranum, fyrst við sölu á farsímum sem þá voru að koma fram á sjónarsviðið, en síðar við margvíslega tækniþjónustu á fjarskiptasviði. Sigþór hafði mikinn áhuga á íþróttum og stundaði bæði fótbolta og körfubolta. Hann var formaður körfuknattleiksdeildar Hauka um skeið og sinnti því starfi af mikilli elju. Hann var dyggur stuðningsmaður Hauka og Chelsea og fylgdist vel með þeim. En fyrst og fremst studdi hann þau lið sem börnin spiluðu með og missti ekki af leik þar sem þau komu við sögu.

Útför hans fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 20. desember 2024, kl. 11.

Elsku pabbi okkar.

Mikið vorum við systkinin heppin að eiga góðan pabba sem studdi okkur í einu og öllu, hvort sem það var á fótboltavellinum, námi eða lífinu sjálfu.

Við eigum ótal margar minningar sem við munum halda á lofti, t.d. allar utanlandsferðirnar og góðu minningarnar sem við fjölskyldan áttum saman.

Hann var mikill húmoristi sem gat alltaf komið brosi á fólkið í kringum sig eða fengið það til þess að hlæja með sér. Við erum nokkuð viss um að við höfum fengið stríðnisgenin frá honum.

Við eigum eftir að sakna góðu stundanna og samtalanna með honum þar sem oftar en ekki voru rædd mál eins og fótbolti, pólitík og önnur mál sem okkur varðaði. Við vitum hversu mikill Hauka-stuðningsmaður hann var og munum við systurnar halda áfram að gera hann stoltan í rauðu treyjunni. Við vitum að hann mun fylgjast áfram með og styðja okkur.

Hann var besti afinn og heppinn að hafa fengið að hitta afastelpuna Veróniku sem hann sá ekki sólina fyrir og áttu þau alveg einstakt samband.

Mikið eigum við eftir að sakna hans og munum halda minningu hans á lofti alla tíð.

Við elskum þig pabbi og þú munt alltaf eiga stóran stað í hjarta okkar.

Bjarki Freyr, Kristín Fjóla og Hekla Björk.

Það kristallast þegar við þurfum að kveðja ástvin alltof snemma að tíminn er dýrmætasta eign okkar allra. Á þessari sáru kveðjustund þá fyllumst við þakklæti fyrir tímann sem við fengum með honum Sigþóri bróður. Sigþór var eins og börnin mín orðuðu það einfaldlega góður maður. Og vildi alltaf allt fyrir mann gera bættu þau við. Þannig var honum í hnotskurn lýst. Það er vitnisburður sem er ómetanlegur.

Eins og svo oft er með yngsta barnið í röðinni þá komst Sigþór upp með eitt og annað í uppeldinu sem okkur hin eldri hefði ekki dreymt um. En hann var líka miklu betri en við í að selja sínar hugmyndir. Áhugamál voru stunduð af ákafa og myndugleik, hvort sem það var karfan, snooker, dúfnarækt eða veiði. Hann var töffari á unglingsárum og naut þess að vera til í sterkum vinahóp.

Það var mikil gæfa þegar Sigþór hitti Hjördísi sína og var strax ljóst að þar hafði hann fundið sinn lífsförunaut. Saman ólu þau upp yndisleg börn, Bjarka Frey, Kristínu Fjólu og Heklu Björk. Fjölskyldan var það sem skipti hann mestu máli og honum leið best heima hjá sér umvafinn sínum nánustu. Hann var einkar stoltur af börnum sínum og mátti svo sannarlega vera það. Það var mikil hamingjustund þegar hann varð þeirrar gæfu aðnjótandi að verða afi og í því hlutverki blómstraði hann bókstaflega. Þegar hann hélt á Veróniku afastelpunni sinni þá skein úr augunum blik sem samtímis lýsti stolti og djúpri ást.

Systkinahópurinn hefur alltaf verið náinn og samverustundirnar margar. Sigþór sá alltaf til þess að það var aldrei lognmolla og óþægilegar þagnir voru ekki til. Hann kom til dyranna eins og hann var klæddur þegar skoðanir voru annars vegar en það var alltaf stutt í góðlátlegu stríðnina sem oft var notuð til þess að hrista aðeins upp í mönnum. Sigþór var blíður maður og með mikið jafnaðargeð. En jafnaðarmaður var hann ekki í pólitíkinni.

Í mínum huga þá fann Sigþór upp GSM-símann. Hann kynnti þessa tækni af ástríðu og fór fljótlega að selja símana. En hann seldi þá ekki bara heldur kunni að nota þá. Hann átti oftast frumkvæðið að því að hringja í okkur hin og spjalla. Hann var næmur maður og fann strax á sér í samtalinu ef eitthvað var að. Það var mikill áhugi á ættfræði og oft fræddi hann okkur um hvernig hinn og þessi tengdist af áhuga og þolinmæði.

Haukar stóðu honum næst þegar að íþróttum kom. Hann var einnig mjög dyggur stuðningsmaður Chelsea eins og reyndar öll hans fjölskylda. En fyrst og fremst þá studdi hann sín börn óháð því hvaða liði þau spiluðu með. Hann var óþreytandi í því að mæta á alla leiki hjá þeim og skipti engu þótt keyra þyrfti langar vegalengdir, alltaf var stuðningur hans til staðar og hvatningin einlæg.

Það lofaði manni enginn að lífið yrði sanngjarnt. Þannig er það bara og verkefnin sem við fáum á lífsleiðinni eru margvísleg. Hugur okkar er fullur af minningum um elsku Sigþór sem fór frá okkur alltof snemma. Förum vel með dýrmætustu eignina okkar, tímann. Sigþór hefði viljað það.

Jón Bergþór.

Ég var sleginn þegar ég frétti að þú værir fallinn frá. Lífið getur verið svo miskunnarlaust og ekki alltaf spurt um endalokin. Mér hlotnaðist sú hamingja að kynnast þér fyrir mörgum árum og eignast vin sem gott var að eiga. Þú varst sérstaklega hjálpsamur og laginn við það sem þú tókst þér fyrir hendur. Þú varst góður eiginmaður og faðir barnanna ykkar Hjördísar dóttur minnar. Þið Hjördís kennduð börnunum ykkar að virða annað fólk og sýna því ást og umhyggju. Við áttum margar góðar stundir saman og vorum sammála um að kommúnistar ættu ekki að vera of margir á Íslandi.

Þegar ég kveð þig, elsku tengdasonur, bið ég góðan guð að halda í hönd þína og leiða Hjördísi og börnin, tengdabörnin og barnabarnið ykkar áfram í lífinu.

Pálmi Karlsson.

Á æskuheimili Sigþórs á Norðurvanginum var mynd af honum á áberandi stað. Sigþór er um það bil tveggja ára á myndinni og við hlið hans sími af eldri gerðinni. Heldur Sigþór á símtólinu sem slagar upp í stærð hans á myndinni. Þar brosir hann kankvís við ljósmyndaranum.

Þessi svipur birtist oft hjá Sigþóri á lífsleiðinni. Þannig var það eftirtektarvert þegar hann mætti í fjölskyldusamkomur eða aðrar samkomur að hann kom fljótt með einhverjar athugasemdir, oft pólitískar, beið svo eftir viðbrögðum og svo kom þetta kankvíslega bros. Athugasemdirnar gátu verið hvassar en Sigþór lét þær samt flakka.

Sigþór fór ungur að fylgjast með fréttum í útvarpi og sjónvarpi. Hann bókstaflega drakk í sig fréttirnar og hafði á þeim skoðun. Varð fljótt pólitískur og lét í sér heyra. Mamma og Diddi voru þess fullviss að Sigþór yrði stjórnmálamaður þegar hann yrði eldri. Ekki fór það svo enn alla ævi fylgdist hann grannt með hinu pólitíska sviði. Hafði á því miklar skoðanir sem auðvitað þurfti að ræða á hinum ýmsum fjölskyldusamkomum.

Sigþór var mikill dýravinur þó hann fengi sér ekki hund eða kött. Hins vegar hélt hann dúfur og var með þær í garðinum á Norðurvangi. Þangað komu margir því Sigþór stundaði umfangsmikil viðskipti með dúfurnar. Þetta voru drengir á hans reki og einnig eldri menn. Þarna var hann í essinu sínu og hefur eflaust haft eitthvað upp úr krafsinu. Það hefur sýnt sig að þeir sem stunda slík viðskipti verða seinna á lífsleiðinni mjög góðir í viðskiptum og þannig fór það með Sigþór. Viðskipti urðu hans ævistarf. Hann var lipur í samskiptum og nákvæmur. Þá held ég að hann hafi verið fæddur sölumaður.

Hér er ein eftirminnileg saga af okkur Sigþóri en 18 ár skildu okkur að. Við fórum ásamt öðrum að fylgja ömmu okkar, Helgu Dýrleifar, til grafar á Blönduósi. Að lokinni erfidrykkju var ferðinni heitið suður og ók faðir Sigþórs og fóstri minn, Diddi, bílnum. Við höfðum verið svo forsjálir að hafa meðferðis bjór og nú hélt erfidrykkja áfram í eiginlegri merkingu. Fórum við að gæða okkur á innihaldinu og héldum því áfram lungann úr ferðinni. Þegar við komum niður í Norðurárdalinn held ég að það hafi verið að fara um Didda. Steingrímsættin var komin fram í okkur báðum og við orðnir nokkuð háværir en umræðurnar snérust mikið um pólitík. Og mest pólitík líðandi stundar. Sem betur fer þraut bjórinn og sagan endaði vel.

Sigþór var mikill fjölskyldumaður og hafði fjölskylduna ofar öllu. Honum var annt um börnin sín og allt virtist ganga vel hjá honum og Hjördísi. En sá með ljáinn var handan við hornið og óvæntir atburðir áttu sér stað. Ég hafði fengið skilaboð frá honum að hann væri kominn heim af spítalanum og hafði svarað að það væri flott og nú væri leiðin greið enda hafði hann verið í þræðingu rúmri viku áður. En óvæntir hlutir gerast.

Við Jóna Dís vottum Hjördísi, Bjarka, Kristínu Fjólu og Heklu samúð okkar og megi minningin um Sigþór bróðir lifa. Hann áorkaði mörgu í lífinu.

Helgi Sigurðsson.

Litla samfélagið í Vörðuberginu hefur orðið fyrir sorglegu áfalli. Sigþór nágranni okkar er fallinn frá langt fyrir aldur fram.

Sigþór var yndislegur og afar kær nágranni. Hann lét náungann sig varða, settist ekki í dómarasæti heldur tók frekar samtalið og stappaði stáli í þá sem voru honum kærir. Honum var ekki sama um þá sem stóðu í hríðarbyl heldur nálgaðist af nærgætni og virðingu. Það get ég svo sannarlega staðfest. Eins og dóttir mín sagði þegar ég færði henni þessar sorgarfréttir: „Hann var svo rosalega vinalegur og góður maður.“ Það eru orð sem segja svo mikið og lýsa honum svo vel. Sigþór var góður maður.

Við félagarnir áttum það sameiginlegt að sentímetrarnir hafa ekkert verið að þvælast fyrir okkur. Því var hvert tækifæri notað til þess að koma að léttum skotum tengdum hæð hvor annars. Þetta var yfirleitt bara spurningin hvor skaut á undan, því skotin komu. Ef annar var að þrífa bílinn þá kom skot um hvort ekki vantaði aðstoð við að þrífa toppinn. Ef öðrum varð það á að slá blettinn þá kom skot um að það þyrfti að slá snöggt til að fá ekki grasið í augun. Alltaf hlegið duglega á eftir. Síðustu skotin tengdust því þegar Sigþór afi trítlaði með litla afagullið sitt á leikvöllinn, eins og hann gerði oft. Þá komu skot um að hún væri í sömu fatastærð og annar hvor okkar.

Þau verða ekki fleiri samtölin við lóðamörkin. Í miðri sorginni fyllist hjartað samt sem áður af þakklæti fyrir kærleika, samtöl, hlátur og vináttu.

Allar lífsins birtingarmyndir

sem ég sé fyrir mér

þegar ég legg aftur augun

eða þegar ég lít út um gluggann

með augun galopin

í aðeins meira en nokkrar mínútur

fá mig til að velta fyrir mér

að lífið sé allt og ekkert

á sama augnabliki

(Leifur S. Garðarsson)

Hjartans dýpstu samúð elsku Hjördís, Bjarki, Kristín Fjóla, Hekla og ættingjar allir. Sorgin er sár en minningarnar bjartar.

Leifur S. Garðarsson.

hinsta kveðja

Sigþór var einstakur frændi sem hafði þann eiginleika að láta mann upplifa að maður tilheyrði fjölskyldunni og væri mikilvægur og velkominn. Hann sagði hlutina alltaf eins og þeir voru, en á þann hátt að maður fann fyrir stríðni, virðingu og umhyggju. Þrátt fyrir að hafa verið tekinn frá okkur allt of snemma munu minningar um hlýju hans, stuðning og hreinskilni lifa með okkur. Við vottum Hjördísi, börnum og barnabörnum okkar dýpstu samúð.

Fjóla Dögg Helgadóttir og Eygerður Helgadóttir.