Hulda Guðmundsdóttir fæddist 24. febrúar 1939 í Reykjavík. Hún lést á Mörk hjúkrunarheimili í Reykjavík 11. desember 2024.
Sem kornabarn fór Hulda í fóstur til yndislegra hjóna sem gengu henni í foreldrastað að öllu leyti og fékk hún kærleiksríkt uppeldi.
Móðir Huldu var Jóna Guðmundsdóttir, f. í Tungu í Valþjófsdal í Önundarfirði 15.10. 1889, d. 10.5. 1979. Faðir Huldu var Bjarni Ívarsson, f. í Kotnúpi í Dýrafirði 5.4. 1888, d. 5.9. 1970. Systkini Huldu voru Jón Ingiberg, f. 8.6. 1921, d. 10.2. 1983, kvæntur Lilju Maríusdóttur; Guðmundur, f. 16.8. 1922, d. 26.4. 1983, kvæntur Bryndísi Víglundsdóttur; Elísabet, f. 28.12. 1923, d. 1.8. 2013; Ívar, f. 8.12. 1925, d. 28.12. 2014, kvæntur Helgu Sigurðardóttur (látin); Gunnar, f. 15.11. 1932, d. 7.9. 2002, kvæntur Hrönn Aðalsteinsdóttur (látin).
Hulda ólst upp í Elliðakoti í Mosfellssveit og síðar fluttist fjölskyldan á Langholtsveg í Reykjavík.
Eftirlifandi eiginmaður Huldu er Víðir Hafberg Kristinsson sálfræðingur, f. 4. nóvember 1938 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Kristinn Níelsson, f. 24.4. 1902, d. 7.10. 1976, og Sigurrós Jónsdóttir, f. 26.7. 1902, d. 31.5. 1981. Hulda og Víðir eignuðust þrjú börn, þau eru: 1) Ellisif Tinna, f. 18. september 1965, eiginmaður hennar er Gunnar Ólafur Schram. Börn Ellisifjar Tinnu fyrir eru: a) Kolfinna Tómasdóttir, f. 2. júlí 1993. b) Víðir Tómasson, f. 13. ágúst 1995, sambýliskona hans er Hildur Antonsdóttir. c) Björn Tómasson, f. 13. ágúst 1995. Börn Gunnars fyrir eru Anna Þóra og Gunnar Ingi. 2) Kolbrún Hrund, f. 6. febrúar 1969, sambýlismaður hennar er Rúnar Sigurðsson. Börn Rúnars fyrir eru María, Daníel og Guðbjörg. 3) Börkur Hrafn, f. 27. nóvember 1972, d. 9. apríl 2002.
Hulda var félagsráðgjafi og sálgreinir að mennt. Hulda var meðal fyrstu félagsráðgjafanna á Íslandi og starfaði m.a. eftir útskrift sem félagsráðgjafi á Borgarspítalanum. Hulda starfaði sem félagsráðgjafi á barna- og unglingageðdeildinni á Bispebjerg Hospital í Kaupmannahöfn á árunum 1971-1978. Eftir að fjölskyldan flutti heim frá Danmörku starfaði Hulda sem félagsráðgjafi á barna- og unglingageðdeildinni á Dalbraut og var forstöðumaður fyrir Kleifarvegsheimilið sem var heimili fyrir börn með geðræna erfiðleika. Hulda var síðan yfirfélagsráðgjafi á geðdeild Borgarspítalans, síðar Landspítalans, þar til hún lét af störfum á spítalanum fyrir aldurs sakir. Einnig rak Hulda í rúmlega 30 ár stofuna Þerapíu ásamt eiginmanni sínum, geðlæknum og öðrum sálfræðingum.
Útför Huldu fer fram frá Garðakirkju á Álftanesi í dag, 20. desember 2024, kl. 13. Athöfninni verður streymt.
Í dag kveðjum við mömmu, sorgin er alltumlykjandi en einnig ást og þakklæti. Á huga okkar systra leita ótal minningar um mömmu sem við vitum að munu ylja okkur um ókomin ár. Mamma ólst upp við mikið ástríki á æskuheimili sínu og var það henni traustur grunnur út í lífið. Mamma lagði mikið upp úr því að við systkinin kynntumst heimi bókmennta, menningar og lista. Við fjölskyldan ferðuðumst mikið og alls staðar voru menningarverðmæti á viðkomandi stað barin augum. Mamma var mikill mannvinur, á ferðalögum, stórhátíðum heima eða bara við kvöldverðarborðið á venjulegum degi voru sálir úr ólíkum áttum iðulega með, jafnvel fólk sem ekkert okkar hafði hitt áður, öll alltaf velkomin.
Við systkinin vorum svo vön þessu lífsmynstri að það kom okkur dálítið á óvart þegar við áttuðum okkur á að svona var þetta alls ekki hjá öllum. Mamma elskaði tónlist, sérstaklega klassíska tónlist og djass en líka poppaðri tónlist. Ef tónlistarmaður varð á vegi hennar var hún yfirleitt fljót að spyrja hvort viðkomandi þyrfti ekki að æfa sig svo hún gæti hlustað. Þegar lagið var búið sagði mamma „einu sinni enn“ allavega þrisvar. Mamma var mikil fjölskyldumanneskja og hlúði vel að bæði fjölskyldu sinni og stórfjölskyldunni allri. Hún hvatti okkur áfram, gladdist yfir sigrum okkar og var til staðar þegar við þurftum á því að halda, alltaf tilbúin að veita góð ráð.
Barnabörnin hennar þrjú voru augasteinar hennar og stolt. Þegar fyrsta barnabarnið kom í heiminn dreif mamma umsvifalaust alla gesti sem komu til hennar í Skaftahlíðina út í bíl til að keyra vestur í bæ og berja dýrgripinn augum. Þessu hélt hún áfram þegar tvíburarnir komu í heiminn og hætti hún aldrei að dásama barnabörnin. Mamma og pabbi ferðuðust töluvert með þau, alveg eins og okkur systkinin í gamla daga. Þegar þau áttu gullbrúðkaup kom t.d. ekki annað til greina en að taka barnabörnin með til Positano á Ítalíu til að halda upp á það.
Mamma skilur eftir sig stórt skarð hjá hjá okkur öllum og sérstaklega hjá pabba okkar, heimurinn er tómlegri án hennar. Pabbi var kletturinn í lífi mömmu, traustur og alltaf til staðar.
Mamma hafði einstakt lag á að gleðja fólkið í kringum sig og kveikja ljós í hjörtum allra sem urðu á vegi hennar. Nú er það hlutverk okkar sem eftir stöndum að feta ótroðnar slóðir lífsins á þann hátt sem hefði gert hana stolta. Takk fyrir allt, elsku mamma, hvíl í friði.
Ég horfi í gegnum gluggann
á grafhljóðri vetraróttu,
og leit eina litla stjörnu
þar lengst úti í blárri nóttu.
Hún skein með svo blíðum bjarma,
sem bros frá liðnum árum.
Hún titraði gegnum gluggann,
sem geisli í sorgartárum.
(Magnús Ásgeirsson)
Ellisif Tinna og Kolbrún Hrund Víðisdætur.
Þá er hún tengdamóðir mín búin að kveðja þennan veraldlega heim. Tengdamóðir mín var einstök kona og mikill gleðigjafi. Það var óendanlega erfitt að horfa upp á þessa sterku konu hverfa hægt og rólega frá okkur. Það verða ekki fleiri matarboð eða gleðistundir með henni. Hulda var einstök og vildi öllum vel. Hún átti mikinn fjölda vina og skapaði ávallt jákvæðan og góðan anda í kringum sig.
Hulda elskaði tónlist, leiklist og þá sérstaklega lifandi flutning. Hún sótti endalaust tónleika og fann í þeim næringu fyrir sálina. Hún hjálpaði ótal mörgum í gegnum tíðina og veitti þeim leiðsögn í lífinu. Margir eiga henni þakkir skildar fyrir hugulsemina og stuðninginn. Stundum var eins og hún sæi hlutina áður en þeir gerðust. Hulda var ótrúlegur mannþekkjari.
Við, sem tilheyrum hennar nánustu, söknum nú glæsilegrar konu, mömmu, ömmu og tengdamömmu. Hulda og Víðir voru sannkallaðir gleðigjafar og einstök í alla staði. Hulda var ávallt friðarpostuli hvar sem hún kom og hafði einstakt lag á að fá það besta fram í öllum sem hún umgekkst.
Barátta hennar fyrir jöfnuði og jafnrétti átti sér engin takmörk. Hún var vel þekkt á sínu fræðasviði og tileinkaði sér sérstaklega velferð barna, jafnvel áður en þau komu í þennan heim.
Ég trúi því að vel verði tekið á móti henni í sumarlandinu og hún sé þar þegar byrjuð að skipuleggja matarboð og tónleika. Þar verður öllum tekið opnum örmum, og allar sálir munu finna næringu og gleði í hjartað.
Ég vil þakka þér, kæra Hulda, fyrir allan þann kærleika og stuðning sem þú sýndir mér og okkar fjölskyldu. Ég votta Víði, klettinum þínum í yfir 60 ár, mína dýpstu samúð og veit að eftirlifendur munu hugsa vel um hann.
Söknuðurinn er mikill, en mestur er hann hjá Víði.
Hvíl í friði, elsku Hulda.
Rúnar.
Að kveðja ömmu er að taka á móti nýjum veruleika sem er ókunnugur öllum þeim sem nutu þeirra forréttinda að þekkja hana. Veruleika sem enn virðist óraunverulegur og fjarlægur. Amma var einstök og ljós á vegferð svo margra, en ljósið hennar skein einstaklega skært í lífi okkar systkina. Við nutum þeirra forréttinda að alast upp með ömmu og afa á næstu hæð og það voru því ófá skiptin sem við bönkuðum upp á ef við læstum okkur úti, langaði í miðnætursnarl, þurftum að fá góð ráð eða vildum án nokkurs fyrirvara fara af stað í óvænt ævintýri.
Amma þekkti okkur stundum betur en við þekktum okkur sjálf. Hún vissi hvernig við myndum bregðast við aðstæðum löngu áður en þær komu upp og virtist oftar en ekki finna það á sér ef eitthvað var að angra okkur. Það skipti ekki máli hvort við sætum á móti henni við stofuborðið eða værum í öðru heimshorni en hún, alltaf vissi hún ef eitthvað var að áður en við vissum það sjálf. Amma hikaði ekki við að að hringja í okkur á þessum stundum til að ganga úr skugga um að við vissum að allir erfiðleikar væru yfirstíganlegir. Ef við gleymdum því um stund var hún alltaf tilbúin að grípa okkur, en hún kenndi okkur snemma mikilvægi þess að hlúa að sálinni og rækta sjálfið, því rætur þurfa næringu.
Hvert sem amma kom hafði fólk orð á því hversu einstakt það var að vera í kringum jafn jákvæða, geislandi og hlýja manneskju. Það var henni eðlislægt að sjá fegurðina í hversdagsleikanum og að hrósa næsta manni, hvort sem það var einhver í röðinni að kassanum í Melabúðinni eða gestur á næsta borði þess veitingastaðar sem við vorum á. Hún kenndi okkur að halda falleg boð, töfra þess að ná saman fólki úr ólíkum áttum til kvöldverðar og hvernig umhverfið sem við búum til í kringum okkur endurspeglar sálina.
Við lærðum snemma mikilvægi þess að hugsa stórt og minnka okkur aldrei, en amma var óþreytandi í að hvetja okkur áfram. Hún og afi veittu gott jafnvægi með ólíkum nálgunum þegar kom að þessum efnum, en á meðan afi var oftar en ekki rödd skynseminnar var engin áskorun of stór fyrir ömmu. Hún hvatti okkur ávallt til að dreyma stærra og hugsa lengra. Að ímynda okkur hvert við vildum fara og margfalda svo svarið með tíu.
Ömmu verður sárt saknað og veröldin er tilfinnanlega tómlegri án hennar. Nú er það undir okkur öllum komið sem þekktum hana að tileinka okkur gleðina, jákvæðnina og fegurðina sem hún litaði lífið með. Hún verður alltaf með okkur því það er hennar rödd sem minnir okkur á að passa upp á okkur sjálf, að við getum allt sem við ætlum okkur og að við lifum bara þessu eina lífi og þurfum að velja vel hvernig við ætlum að lifa því. Hennar gildi hafa verið hluti af ómetanlegum vegvísi okkar til dagsins í dag, vegvísi sem mun áfram fylgja okkur í þá vegferð sem er fram undan. Við munum ganga úr skugga um að ljósið hennar skíni áfram með því að lifa til fulls því lífi sem hún hvatti okkur til að lifa.
Takk fyrir allt, elsku amma okkar.
Þín barnabörn,
Kolfinna, Víðir og Björn.
Hulda föðursystir okkar er látin. Amma Jóna og afi Bjarni urðu þeirrar gæfu aðnjótandi að taka Huldu í fóstur vorið 1940 þegar þau bjuggu í Elliðakoti. Þar ólst Hulda upp, yngst í sex systkina hópi sem í aldursröð voru Jón, Guðmundur, Elísabet, Ívar, Gunnar og Hulda. Hún kom sem sannkallaður sólargeisli inn í líf þeirra og frá fyrstu stundu lagðist fjölskyldan á eitt um að Hulda væri umvafin ástúð og kærleika.
Tæpum áratug síðar flutti fjölskyldan á Langholtsveg í Reykjavík. Heimilið á Langholtsveginum var sannkallað fjölskylduhús en þar bjó Hulda ásamt foreldrum sínum og systkinum og seinna með foreldrum okkar. Hulda og Lilja móðir okkar urðu einstaklega nánar og vinátta þeirra hélst ævilangt.
Langholtsvegurinn var heimili Huldu þar til hún hóf búskap með Víði Kristinssyni eiginmanni sínum. Hún hugsaði alla tíð af natni og ástúð um foreldra sína, einnig var hún ávallt til staðar fyrir eldri systur sína, Elísabetu.
Hulda hafði einstaka persónutöfra, alltaf jákvæð og af henni stafaði mikil gleði. Hún var minnisstæð öllum sem hana hittu. Hún var ákaflega félagslynd, dugleg að rækta sambandið við vini sína og fjölskyldu og sá til þess að fólk hittist. Hún auðgaði líf allra sem voru í návist hennar og helgaði líf sitt að hjálpa þeim sem áttu um sárt að binda. Það er mikil list fólgin í því að vera allar stundir tilbúin að gefa og næra, hlusta og hvetja, hrósa og gleðja aðra með fallegum orðum og einstöku viðmóti. Þannig var Hulda.
Það verður erfitt að ímynda sér tilveruna án hennar.
Faðir okkar orti til hennar ljóð er hún varð fertug. Í lokalínum ljóðsins segir: „Hamingjan þér fylgi“ og er óhætt að segja að hamingjan hafi fylgt henni alla tíð í lífi og starfi.
Til Huldu
Man ég þig í túni,
trítlandi á stráum,
er tókst þú fyrstu spor.
Bærinn undir heiðinni
með burstagafli lágum –
bjart og fagurt vor.
Og barnið óx úr grasi
við sætleik sumardaga
með söng í grænum mó.
Það gægðist yfir ásinn
og kvaddi heimahaga –
við hamingjunni hló.
Já svona fórstu burtu
og sigldir út í álfur,
þar sem ævintýrið bjó.
Það er vandasamt á stundum
að vera maður sjálfur –
villiblóm úr heiðinni, og þó.
Og þetta er fjórða vísan,
þinn fjórði áratugur
er fylltur nú í dag.
Hamingjan þér fylgi,
okkar allra hugur
er í þessum brag.
(Jón I. Bjarnason, 1979)
Elsku Víðir, Tinna og Kolbrún, Gunnar, Rúnar, Kolfinna, Björn og Víðir.
Við systkinin eigum öll afar góðar minningar um Huldu og minnumst hennar með þakklæti fyrir einlæga vináttu alla tíð.
Okkar innilegustu samúðarkveðjur.
Jón Eyjólfur, Bjarni, Vigdís, Þuríður Elfa, Guðmundur og Björn.
Mig langar að minnast Huldu Guðmundsdóttur sem nú er látin og verður jarðsungin föstudaginn 20. desember nk.
Hulda, sem var uppeldissystir tengdaföður míns, Jóns I. Bjarnasonar, hafði alist upp hjá Jónu Guðmundsdóttur og Bjarna Ívarssyni ásamt eldri börnum þeirra í Elliðakoti nálægt Lögbergi og síðar á Langholtsvegi 131 í Reykjavík, þar sem stórfjölskyldan hafði reist sér hús eftir að síðari heimsstyrjöldinni lauk.
Ég kynntist Huldu fyrst sumarið 1972, þegar hún var búsett í Kaupmannahöfn. Ég hafði þegið sumarvinnu hjá Flugfélagi Íslands, sem þá var með skrifstofu við Vester-Farimagsgade í Kaupmannahöfn. Þegar fréttist að ég væri á förum til Kaupmannahafnar bað Jóna mig að fara með pakka til Huldu og Víðis eiginmanns hennar, sem þá voru við nám og störf og bjuggu á Solbakken, stúdentagarði þar í borg.
Hulda var ólík öllum öðrum konum sem ég hafði áður kynnst, einstaklega ljúf og blíð og af henni geislaði umhyggjusemi og hlýja. Þetta sumar heimsótti ég oft Huldu og Víði og kynntist þeim og börnum þeirra vel.
Nokkrum árum síðar, þegar við Jón Eyjólfur fluttum til Kaupmannahafnar til náms í lyfjafræði og læknisfræði, vorum við hjónin iðulega boðin á heimili þeirra Huldu og Víðis, m.a. um jólin, á stúdentagarðinum og einnig eftir að þau fluttu til Vedbæk, þar sem þau leigðu hluta af gömlu húsi ásamt fallegum garði með aðgengi að „eigin“ strönd. Þangað var yndislegt að heimsækja þau, enda var Hulda einstaklega gestrisin og hafði lag á að virkja fólk og efla.
Þegar Hulda og Víðir fluttu aftur til Reykjavíkur urðum við nágrannar þeirra í Hlíðahverfinu, þau í Skaftahlíð og við Jón Eyjólfur í Bólstaðarhlíð. Ávallt var gott að leita til Huldu, ef á þurfti að halda, enda var hún framúrskarandi í sínu fagi sem fjölskyldu- og félagsráðgjafi.
Síðar þegar þau Hulda ásamt öðrum sjálfstæðum meðferðaraðilum hófu starfsemi við Suðurgötu 12 í Reykjavík buðu þau móður minni Sigurlaugu Claessen, sem áður hafði starfað sem læknaritari á geðdeild Borgarspítalans, starf hjá þeim sem ritari og veit ég að þau voru móður minni einstaklega góðir vinnuveitendur.
Að leiðarlokum vil ég þakka Huldu fyrir einstakan hlýhug, ljúfmennsku og góðvild í minn garð og annarra í okkar fjölskyldu.
Ég votta Víði, Tinnu, Kolbrúnu, tengdasonum og barnabörnum mína innilegustu samúð.
Blessuð sé minning Huldu Guðmundsdóttur.
Hjördís Claessen.
Margs er að minnast þegar lífinu lýkur og vil ég kveðja elsku Huldu sem nú hefur kvatt okkur hér með nokkrum fátæklegum orðum. Hún var án efa jákvæðasta persóna sem ég hef á ævinni kynnst. Alltaf sá hún það fallega í öllum og aldrei heyrðist neikvætt tal um einn eða neinn. Alltaf var hún að hrósa fólkinu sem hún umgekkst, allir voru fallegir og yndislegir. Hún var einstaklega smekkleg og hafði næmt auga fyrir fegurð og bar heimili Víðis og hennar þess vott.
Ég kynntist Huldu fyrst ung að aldri þegar hún trúlofaðist Víði frænda mínum þegar þau voru við nám í Kaupmannahöfn. Hulda var einstaklega tilfinninganæm, kærleiksrík og hugulsöm og vita það allir sem kynntust henni. Hún hafði einstakt lag á því að laða fram það góða í fólki og væri heimurinn betri staður að búa í ef allir hefðu þennan eiginleika.
Ég á margar góðar minningar með þeim og ein þeirra var þegar við fórum til Englands á skóla þar, sigldum með Gullfossi til Skotlands, þau með Tinnu sem var bara tveggja ára og voru þau með lítinn bláan Fiat sem þau tóku með sér, ég fékk að verða samferða og keyrðum við frá Skotlandi til Newbold College í Englandi þar sem dvalið var vetrarlangt. Um vorið þegar skólanum lauk buðu þau mér að koma með sér í ferðalag þar sem keyrt var á litla bílnum til Belgíu, Hollands, Þýskalands og yfir til Danmerkur og Noregs og síðan til Danmerkur aftur. Margar aðrar minningar koma upp og átti ég margar góðar stundir hjá þeim, m.a. þegar þau voru í Danmörku.
Lífið er samt óútreiknanlegt og barði sorgin dyra hjá þeim þegar yngsta barnið þeirra, Börkur Hrafn, lést af slysförum fyrir rúmum 22 árum. Að missa barnið sitt er án efa það erfiðasta sem nokkurt foreldri getur gengið í gegnum.
Þrátt fyrir mikla sorg var Hulda alltaf eins, gestrisin, gjafmild, kærleiksrík og jákvæð.
Nú er hún farin, sofnuð í síðasta sinn og búin að fá hvíld frá þessum erfiða heimi sem við búum í. Söknuðurinn er sár og missirinn mikill.
Elsku Víðir, Tinna, Kolbrún og fjölskyldur, ég bið góðan og dásamlegan Guð að gefa ykkur styrk og hjálp á þessum erfiða tíma.
Vertu Guði falin og hvíl í friði, elsku Hulda.
Edda.