Innbyggt ójafnvægi í ráðgerðri ríkisstjórn

Síðdegis í gær voru fjölmiðlar boðaðir á fund þeirra Kristrúnar Frostadóttur, Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur og Ingu Sæland, formanna Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins, en þær vildu kynna hvernig miðaði í stjórnarmyndunarviðræðum flokkanna.

Valkyrjurnar, eins og þær nefna sig, greindu frá því á örstuttum, fimm mínútna fundi, að þær hefðu „náð saman“ og stefndu að því að kynna stjórnarsáttmála um helgina. Svo enn má bíða.

Fundurinn var þó ekki fullkomlega tíðindalaus. Inga notaði tækifærið og bjó kjósendur sína undir að hún hefði ekki náð fram neinum af sínum glæsilegustu, að ekki sé sagt glæfralegustu, kosningaloforðum, en hét þess í stað „stórum og fallegum“ skrefum í þágu skjólstæðinga sinna.

Eins tók Þorgerður Katrín af öll tvímæli um að efnahags- og fjármálaráðuneytinu yrði ekki skipt upp, líkt og pískrað hafði verið um. Eru þá upp talin tíðindi fundarins.

Þar kom að vísu fram – ekki fullkomlega að óvörum – að formennirnir hefðu sín á milli rætt um skipan og skiptingu ráðuneyta milli flokkanna, en á hinn bóginn mátti jafnframt af svörunum ráða að ekkert af því hefði enn verið kynnt fyrir þingflokkum þeirra.

Líkt og lesa má í blaðinu í dag hefur Morgunblaðið heimildir fyrir því að Kristrún Frostadóttir verði forsætisráðherra í þessari valkyrjustjórn, líkt og eðlilegt má teljast miðað við þingstyrk. Eins að Samfylking og Viðreisn fái fjóra ráðherra hvor flokkur, en Flokkur fólksins aðeins þrjá.

Það vekur spurningar um stöðu Flokks fólksins í stjórninni, en hann hefur aðeins einum þingmanni færra en Viðreisn og virðist að auki hafa gefið eftir öll sín helstu mál. Inga má bera mikið annað úr býtum til þess að geta réttlætt það fyrir kjósendum sínum og þar hrekkur forsetastóll á Alþingi skammt.

Ekki síður verður valdajafnvægið milli hinna stjórnarflokkanna þó athyglisvert. Verði Kristrún forsætisráðherra má líklegt telja að fjármálaráðuneytið komi í hlut Viðreisnar, svo afdráttarlaus sem Þorgerður Katrín var um það, en þá verður mjög þungt í þeim flokki pundið sem fær utanríkisráðuneytið, þriðja veigamesta ráðuneytið. Eiginlega ójafnvægi.

Það hefur einkennt viðræðurnar hve lítið hefur spurst út af þeim, enda hafa þingflokkarnir lítt verið hafðir með í ráðum. Formennirnir voru þó ekki aleinir að bauka þetta, því þeir skipuðu vinnuhópa til þess að fjalla um einstaka málaflokka. Ekkert var látið uppi um hverjir skipuðu hópana.

Það hefur þó komið fram að Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hafi átt beina aðild að þeirri vinnu. Meðal tilvonandi stjórnarþingmanna er bæði nýhættur forseti ASÍ og varaforseti ASÍ, en þar fyrir utan hefur Róbert Farestveit, hagfræðingur hjá ASÍ, verið virkur þátttakandi í vinnuhópunum og tekið þátt í að skrifa hinn óbirta stjórnarsáttmála.

Auðvitað er gott á viðkvæmum tímum í atvinnu- og efnahagslífi ef forystumenn nýrrar ríkisstjórnar vilja hafa aðila vinnumarkaðarins með í ráðum, en þó ekki þannig að þeir ráði ferðinni. Enn síður er það til farsældar fallið að þar sé aðeins hlýtt á sjónarmið úr einni átt. Sú var þó raunin, því beiðni Samtaka atvinnulífsins (SA) um fund með forystumönnum flokkanna þriggja var hafnað.

Það eru ekki góðar fréttir ef ný ríkisstjórn verður einhvers konar útibú frá því mikla friðarheimili ASÍ, þar sem viðhorfið er ávallt að það sé „nóg til“ hjá öllum öðrum, sem sjálfsagt sé að sækja með góðu eða illu. Það rímar að vísu vel við margt það sem Samfylking og Flokkur fólksins höfðu að segja fyrir kosningar, en engan veginn við heitstrengingar Viðreisnar um að flokkurinn tæki engar skattahækkanir í mál.

Það er auðvelt að skrifa stjórnarsáttmála um hvernig auka skuli tekjur og umsvif ríkisins með því að sækja fullan virðisauka á ferðaþjónustuna, leggja á ný auðlindagjöld, hækka veiðigjöld eða fara ránsferðir í lífeyrissjóði landsmanna. En þeir fjármunir verða þá ekki notaðir í annað gagnlegra og enginn skyldi gleyma því að á endanum er það alltaf almenningur, sem ber alla skatta.

Aukin ásælni ríkisins er ekki það sem atvinnulífið eða heimilin í landinu þurfa nú, loks þegar sér fyrir endann á þrengingum verðbólgu og vaxta. Fyrirtækin hafa uppsafnaða fjárfestingaþörf, en heimilin orðin mjög aðkreppt. Þau hafa ríkari þörf fyrir sjálfsaflafé sitt en glaðbeittir ráðherrar í nýrri ríkisstjórn.