Bækur
Snædís
Björnsdóttir
Nýjasta skáldsaga Dags Hjartarsonar hefur þennan líka forvitnilega titil, Sporðdrekar. Hann er viðeigandi því að bókin fjallar um alls konar stungur og særindi, eitur sem dreifir sér hægt og smitar út frá sér og manneskjur sem meiða hver aðra.
Sporðdrekar er tíunda bók Dags Hjartarsonar sem áður hefur sent frá sér bæði ljóð og skáldsögur. Fyrir síðustu skáldsögu sína, Ljósagang (2023), hlaut hann tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Heldur lesandanum á tánum
Sagan hverfist um fimm ungar manneskjur sem eiga í flóknu sambandi hver við aðra. Vilborg er að skrifa meistararitgerð í hjúkrunarfræði um dauðann. Hún finnur fyrir einhverri óþreyju sem henni tekst ekki að kæfa. Finnbogi, kærastinn hennar, er ennþá að syrgja föður sinn sem lést úr krabbameini ekki alls fyrir löngu. Hann skrifar hugsanir sínar niður í dagbók og felur hana fyrir Vilborgu. Það er tekið að molna undan sambandinu.
Stellu, vinkonu Vilborgar, dreymir undarlega drauma. Gæti verið að þeir séu fyrirboði um eitthvað slæmt? Hún er nýbyrjuð að vinna sem stærðfræðikennari í framhaldsskóla og það er sérstaklega einn nemandi sem veldur henni hugarangri. Bjarki, fyrrverandi kærasti hennar, er ekki á góðum stað. Hann hefur fjarlægst vini sína og saknar Stellu. Sársaukann bælir hann með því að horfa á klám.
Svo er það Sigvaldi. Þegar við hittum hann fyrst liggur hann í launsátri fyrir framan bárujárnshús í Hafnarfirði. Hann er nýkominn til landsins og virðist ætla að stoppa stutt. En hverjum skyldi hann vera að veita eftirför? Og af hverju?
Eftir því sem líður á söguna verður heildarmyndin skýrari og tengingarnar á milli sögupersónanna greinilegri. Í ljós kemur að líf þeirra er allt samankrullað og flækt á skiljanlegan og óskiljanlegan máta. Það er spennandi og forvitnilegt að sjá fléttuna leysast og rakna smám saman upp, lag fyrir lag, og er það afar vel gert. Þá er spennunni viðhaldið vel í gegnum alla bókina og slaknar raunar ekki á henni fyrr en rétt í blálokin, og varla einu sinni þá. Lesandanum er því haldið á tánum bókstaflega allan tímann og er lestrarupplifunin æsileg.
Myrkari en ég átti von á
Sögupersónurnar eru sannfærandi og áhugaverðar þó að við kynnumst þeim reyndar misvel. Athyglisverðust þótti mér saga Sigvalda, sem að auki virðist skrifuð af mestri innlifun. Það er hann sem liggur í leyni í upphafi frásagnarinnar og veitir öðrum sögupersónum eftirför og virkar því nokkuð ískyggilegur. Eftir því sem við kynnumst honum betur eykst þó skilningurinn og samúðin með aðstæðum hans. Við köfum þannig ofan í fortíð hans, sem reynist hafa að geyma erfiðan og hamingjusnauðan uppvöxt við bágar fjárhagslegar aðstæður og fjarverandi foreldra.
Það er miklu komið fyrir í þessari rúmlega 300 blaðsíðna sögu en hún skautar þó sumstaðar heldur mikið á yfirborðinu. Ég saknaði þess svolítið að fá jafn ítarlega baksögu af öðrum persónum og við fáum af Sigvalda, til að mynda hefði verið hægt að segja betur frá sambandi Finnboga við föður sinn.
Þetta er myrkari saga en ég átti von á. Hún fjallar að miklu leyti um ofbeldi, bæði sýnilegt og ósýnilegt, og það er mikið um slagsmál og aðrar barsmíðar. Á þennan hátt tekst sagan á við stór og þung viðfangsefni sem eiga sérstakt erindi við samtímann, en eins og töluvert hefur verið í umræðunni undanfarið hefur ofbeldi á meðal ungmenna aukist mikið á síðustu árum, bæði hér á landi og í nágrannalöndum. Það sem höfundur gerir reyndar einstaklega vel með þessari bók er að höfða til yngri lesendahóps, sem hann þekkir greinilega og ég efast ekki um að hún falli í kramið hjá. Að því sögðu þá er vissulega líka óhætt að mæla með bókinni fyrir alla.
Sporðdrekar er spennandi, kvik og skarpskyggn samtímasaga sem lesendur munu hafa gaman af. Hún er að sama skapi vel skrifuð, metnaðarfull og þaulhugsuð. Ég ætla að leyfa mér að segja það – þetta er tilvalin bók í jólapakkann!