Halldóra Daníelsdóttir fæddist á Akranesi 18. maí 1939. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 9. desember 2024.

Foreldrar Halldóru voru Guðlaugur Daníel Vigfússon húsasmíðameistari, f. 16. nóvember 1903, d. 11. maí 1964, og Sigrún Sigurðardóttir húsmóðir, f. 2. október 1907, d. 23. maí 1942.

Halldóra var næstyngst átta systkina. Hin eru Gróa, f. 1929, látin, Guðrún, f. 1930, látin, Anna, f. 1931, látin, Hrefna, f. 1933, látin, Sigurður, f. 1934, látinn, Sigrún, f. 1937, látin, og Margeir, f. 1941.

Eftirlifandi eiginmaður Halldóru er Svanur Jónsson. Barn þeirra er Svanur Dan, f. 1979, maki Elísabet Jónsdóttir, börn þeirra eru Patrekur Dan og Ásta Elenóra.

Börn Halldóru frá fyrra hjónabandi eru Sigrún, f. 1959, dó níu mánaða gömul. Rúna Björk, f. 1960, maki Björn Olgeirsson, börn þeirra eru: Nanna Dröfn, Nói, Ragnheiður og Máni. Fyrir á Rúna Björk eitt barn, Hauk Rúnar. Jóhann Þór, f. 1961, maki Fjóla Lúðvíksdóttir, börn þeirra eru Sigrún Dóra og Sigurður Jónatan. Hrefna, f. 1963, maki Karvel Lindberg Karvelsson, börn þeirra eru Sigurður Trausti, Olgeir Sölvi og Dóra Marín. Fyrir á Karvel þrjú börn, Karvel Lindberg, Ólaf Lindberg og Andra Lindberg.

Barnabarnabörnin eru tuttugu.

Útför Halldóru fer fram frá Akraneskirkju í dag, 20. desember 2024, klukkan 13.

Elsku amma.

Ég minnist þín með hlýhug og söknuði.

Það var alltaf gaman að koma á Einigrundina og spjalla við þig um daginn og veginn. Okkur þótti ekki leiðinlegt að tala saman.

Mér þykir vænt um þá stund þegar ég kvaddi þig áður en leið þín lá til sumarlandsins. Það var sárt að kveðja þig en ég veit að nú ertu á góðum stað og núna líður þér vel. Það veitir mér huggun að hugsa til þess.

Elsku amma mín, takk fyrir samveruna.

Blessuð sé minning þín.

Þýtur í stráum þeyrinn hljótt

þagnar kliður dagsins.

Guð er að bjóða góða nótt

í geislum sólarlagsins.

(Trausti Á. Reykdal)

Sigrún Dóra.

Þann 9. desember bárust mér þær fréttir að Dóra Dan frænka mín hefði kvatt þennan heim eftir stutt veikindi. Dóra hefur alltaf verið hluti af minni tilveru. Yngsta systir móður minnar, ein af sex systrum og tveimur bræðrum. Nú eru þau öll horfin af sjónarsviðinu nema yngsti bróðirinn Margeir Rúnar, alltaf kallaður Gói.

Dóra var þriggja ára þegar móðir hennar féll frá vegna veikinda. Elsta systir hennar fermdist viku fyrir andlátið. Faðirinn hélt öllum barnahópnum saman nema yngsta barninu. Eftir nokkrar ráðskonur hjá föður þeirra ákvað næstelsta dóttirin Guðrún að taka að sér heimilið. Yngsta barninu Góa hafði verið komið í fóstur hjá bestu vinkonu móðurinnar Sigrúnar, en hún hafði beðið vinkonu sína að taka barnið að sér þegar vitað var í hvað stefndi. Hann var fimm mánaða er móðirin dó. Elsta dóttirin Gróa var send suður til Reykjavíkur til náms hjá eldri frænku, en hún þótti afburðagáfuð. Gunna frænka var þá 14 ára. Hún er eina móðurfyrirmyndin sem Dóra hafði, og reyndist hún Dóru afar vel alltaf. Þær systur voru allar mjög nánar og höfðu styrk hver af annarri eftir andlát móður þeirra. Í minningunni eru þær alltaf saman systurnar. Niður á Langasandi með barnahópinn sinn, alltaf vel tilhafðar með nesti og bleikan varalit. Dóra var tvígift og átti fjögur börn með fyrri manni sínum, en fyrsta barnið dó í frumbernsku. Seinni maður hennar er Svanur Jónsson, með honum á hún einn son. Hennar mesta gæfa í lífinu var að kynnast Svani að hennar eigin sögn, og bar hann hana á höndum sér. Þau ferðuðust mikið saman til sólarlanda og nutu þess að vera saman.

Dóra var mikil námsmanneskja, eins og hin systkini hennar, en á þeim árum sem hún var að alast upp var ekki endilega sjálfsagt að stúlkur menntuðu sig áfram eftir skyldunám. En oft heyrði ég trega í röddinni þegar hún talaði um að hana hefði langað að mennta sig meira. Hún hafði góða söngrödd og spilaði á gítar og söng. Einnig sýndi hún dans þegar hún var ung. Þær systur og bræður voru mjög lífsglöð og var mikið hlegið og skemmt sér þegar þau komu saman. Þegar ég hugsa til baka eru þær systur alltaf meira og minna saman eitthvað að brasa. Þeirra einkenni var lífsgleði og hlátur. Dóra var mjög glæsileg kona og bar sig mjög vel. Systurnar allar þóttu afar glæsilegar og harðduglegar konur. Dóra hafði sterkan persónuleika og sterkar skoðanir. Hún ólst upp í að vera sjálfstæð og hagaði lífi sínu eftir því. Hún átti alltaf mjög fallegt heimili sem hún og maður hennar Svanur hlúðu vel að. Hún stóð vel með sínum þegar á reyndi og reyndist hún mér mjög vel. Hún var einnig mjög berdreymin og hafði sterkt innsæi. Hún var glögg á hvaða mann fólk hafði að geyma og sá vel undir yfirborðið. Hún var afar stolt af börnunum sínum og barnabörnum. Hennar verður sárt saknað. En nú er hún laus úr viðjum þjáninga og hefur sameinast ættingjum sem á undan eru gengnir. Elsku Svanur, börn, tengdabörn og barnabörn, innilegar samúðarkveðjur til ykkar allra.

Þú gengin ert hugglöð á f
relsarans fund

og fagnar með útvaldra skara.

Þar gleðin er eilíf, þar grær
sérhver und.

Hve gott og sælt við hinn hinsta blund

í útbreiddan faðm Guðs að fara

(Hugrún)

Dröfn frænka.