Orri Páll Ormarsson
Stu Magnusson. Það er besta nafn á illmenni í spennutrylli í sjónvarpi sem ég hef heyrt lengi. Dragi það mann ekki að skjánum þarf maður að láta líta á sig.
Stu þessi Magnusson á aðild að bandarísku seríunni The Madness sem kom inn á streymisveituna Netflix fyrir skömmu. Þar er hermt af þeldökkum manni sem verður fyrir þeim ósköpum að illa þenkjandi og rasísk ómenni reyna að klína á hann óhugnanlegu morði, þar sem maður var bútaður í marga hluta.
Mér sækist áhorfið frekar hægt, er búinn með einhverja þrjá þætti, og Stu Magnusson hefur fram að þessu sáralítið komið við sögu. Þó liggur fyrir að hann er auðkýfingur og svo virðist sem hann sé potturinn og pannan í ráðabrugginu. Ég hef bjartar væntingar til þess að hann fari að láta meira að sér kveða.
Ekki væri heldur verra ef menn myndu nenna að upplýsa okkur áhorfendur um uppruna kappans, hvort hann sé jafnvel af íslenskum ættum. Líklegra verður þó að teljast að hann sé af sænsku bergi brotinn, Svíar eru með betri sambönd í Hollywood en við, en þetta eru að ég held einu löndin þar sem menn eru Magnússynir, fyrir utan auðvitað Bandaríkin, þar sem allt má.
Fyrst hann er svona illur er það líka betra.