Þórunn Sigurlaug Sigurðardóttir (Lilla) fæddist á Skagaströnd 28. febrúar 1949. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 9. desember 2024.

Foreldrar hennar voru Sigurlaug Björnsdóttir húsmóðir, f. 10.11. 1906, d. 7.1. 1959, og Sigurður Magnússon verkstjóri, f. 18.11. 1920, d. 2.8. 2002. Systkini Þórunnar voru Björn, f. 1944, d. 1996, og Árni, f. 1945, d. 2006. Samfeðra Jósef Hjálmar, f. 1961; Magnús Elías, f. 1962, d. 2018; Sigríður Aðalborg, f. 1963; Ævar Þórarinn, f. 1964, d. 1964; Hjörtur Þórarinn, f. 1965, d. 2015; Rósa Dröfn, f. 1967; Kolbeinn Vopni, f. 1972, og Hugrún Gréta, f. 1973.

Þórunn giftist Gunnari Halldóri Gunnarssyni bílasala, f. 22.9. 1950, þann 9. mars 1973. Foreldrar Gunnars voru Gunnar Halldórsson útgerðarmaður, f. 1.9. 1921, d. 2.6. 1973, og Guðný Ottesen Óskarsdóttir húsmóðir, f. 15.8. 1921, d. 5.11. 1993. Börn Þórunnar og Gunnars eru: 1) Gunnar Sigurður, f. 1973, maki Íris Rut Árnadóttir, f. 1975, börn þeirra eru Emil Ingi, f. 1999, Gunnar Steinn, f. 2002, og Almar Kári, f. 2008. 2) Almar, f. 1976, maki Margrét Þorsteinsdóttir, f. 1977, börn þeirra eru Selma Björk, f. 1999, Þórunn Anna, f. 2002, og Aron Bjarki, f. 2010. 3) Hilmar, f. 1981, maki Kristín Ninja Guðmundsdóttir, f. 1983, börn þeirra eru Anna Katrín, f. 2007, Jón Gunnar, f. 2016, Ari, f. 2018, og Nína, f. 2020. Sonur Hilmars er Viktor Máni, f. 2001.

Þórunn fæddist og ólst upp á Skagaströnd. Hún missi móður sína ung en hún lést þegar Þórunn var aðeins níu ára. Þórunn flutti 13 ára til Hveragerðis inn á heimili föðurbróður síns, Stefáns Magnússonar, og Hildar Sólveigar Valgarðsdóttur, konu hans. Þórunn gekk í Húsmæðraskólann á Laugarvatni og útskrifaðist þaðan 1966. Konurnar sem hún kynntist þar halda enn hópinn. Þórunn flutti til Reykjavíkur árið 1969 til að hefja nám við Fóstruskólann. Hún útskrifaðist sem fóstra árið 1972.

Þórunn kynntist Gunnari árið 1972 og hófu þau búskap á Seltjarnarnesi árið 1973. Fyrsta heimili þeirra var á Unnarbraut 28 en þau fluttu á Skólabraut 39 þegar fjölskyldan stækkaði. Þórunn starfaði sem fóstra á Fögrubrekku þegar hún bjó á Seltjarnarnesi. Fjölskyldan flutti á Akranes árið 1976, fyrst í Vallholt 7 og síðar á Einigrund 10. Þórunn starfaði á leikskólanum Víðigerði á Akranesi og starfaði um tíma sem aðstoðarfélagsmálastjóri Akraness. Þórunn var virk í félagslífinu á Akranesi og kom meðal annars að stofnum Lions á Akranesi. Þórunn flutti aftur til Reykjavíkur árið 1986 og árið 1990 flutti fjölskyldan á Aflagranda 38. Þórunn starfaði sem leikskólakennari á leikskólanum Grandaborg frá 1986 til 1998. Árið 1998 hóf Þórunn störf á leikskólanum Dvergasteini þar sem hún gegndi stöðu aðstoðarleikskólastjóra til starfsloka árið 2016.

Þórunn var mikil barnamanneskja og naut sín með barnabörnunum. Árið 2007 byggðu Þórunn og Gunnar sumarbústað á Flúðum. Þau keyptu íbúð á Spáni árið 2017 og dvöldu þar mikið yfir vetrarmánuðina.

Útför hennar fer fram frá Neskirkju í dag, 20. desember 2024, klukkan 13.

Það er með mikilli sorg og ást sem ég kveð mömmu mína, ömmu barnanna minna og tengdamóður konu minnar. Mamma var einstök kona, góðhjörtuð og hlý, alltaf reiðubúin til að hjálpa og átti hjarta sem sló fyrir aðra. Hjálpsemi hennar var einstök, eins og allir sem hana þekktu vita.

Mamma var ljós í lífi okkar allra – kona sem gaf af sér ótæmandi kærleika og góðvild. Það má segja að mamma hafi helgað líf sitt því að hugsa um aðra, hvort sem það var hennar fjölskylda eða þau börn sem hún tók á móti sem fóstra og veitti hlýju og umhyggju. Hún vann við þetta mikilvæga starf alla sína ævi og setti alltaf þarfir annarra ofar sínum eigin.

En þau voru ófá skiptin í æsku sem ég þurfti mömmu mína, og þær stundir eru mér dýrmætar. Ég man sérstaklega eftir því þegar ég fór í sveit í fyrsta skipti. Ég var svo háður henni og saknaði hennar svo mikið að ég taldi dagana þar til ég kæmist aftur heim til hennar. Ég man hvernig hún talaði við mig í síma og hughreysti mig með hlýju sinni og orðunum sem gáfu mér kjark og öryggi. Það er ómetanlegt hversu mikið hún hefur gefið af sér til mín og barna minna. Hún var þekkt fyrir að taka alltaf á móti vinum okkar bræðra með kærleik og hlýju.

Elsku mamma tókst á við sín skammvinnu veikindi af æðruleysi og hugrekki. Það er með miklu þakklæti og ást sem ég kveð mömmu mína í dag og ég veit að þú ert alltaf hjá okkur.

Láttu nú ljósið þitt

loga við rúmið mitt.

Hafðu þar sess og sæti,

signaði Jesú mæti.

Þinn sonur,

Almar.

Mamma gegndi fallegasta og mikilvægasta hlutverkinu í lífinu: Mamma mín og síðar amma barnanna minna. Engin sinnti þessum hlutverkum betur en hún.

Börnin mín erfa vonandi kostina hennar. Einstaklega hlý og þolinmóð en á sama tíma ákveðin og fylgin sér. Hún lagði hart að sér í öllu sem hún tók sér fyrir hendur, hvort sem það var í vinnu, á heimilinu eða annars staðar. Hún sat aldrei auðum höndum. Var boðin og búin að aðstoða þá sem þurftu á henni að halda og fjölskyldan nýtti sér það óspart. Hún lagði allt á sig fyrir fjölskylduna. Þar var hún hjartað sem hélt öllu saman og aldrei skorti hana orku til að sinna verkunum sem fylgdu fjölskyldunni. Henni féll aldrei verk úr hendi. Hún gat allt og gerði allt af ást og með bros á vör.

Mamma gaf öllum tíma, fylgdist grannt með fólkinu sínu og lagði sig fram við að kenna góða siði. Það skyldi koma vel fram við aðra, leggja hart að sér og bera ábyrgð á eigin gjörðum. Hún hafði líka einstakt lag á því að einblína á það jákvæða og gat fundið eitthvað jákvætt í öllum aðstæðum.

Í hlutverki ömmu Lillu var hún dýrmætust og barnabörnin áttu hug hennar allan. Öllum leið vel hjá ömmu Lillu og barnabörnin leituðu til hennar með stjörnur í augum. Börnin elskuðu þessa blöndu af hlýju og aga sem einkenndi mömmu.

Mamma skilur eftir sig stórt skarð og það er ólýsanlega sárt að geta ekki lengur leitað til hennar. Minningin mun hins vegar lifa áfram og fylgja mér og börnunum mínum.

Hvíl í friði elsku mamma.

Hilmar.

Elsku mamma, ég var ekki tilbúinn til að kveðja þig. Það er búið að vera ótrúlega erfitt að fylgjast með þér í þessum veikindum. Það er svo skrítið að upplifa þann vanmátt að geta ekki gert neitt nema vera til staðar. Á þessum tíma sem við erum búin að eyða saman undanfarið hef ég hugsað mikið um það hversu lánsamur ég er að þú sért mamma mín. Þú hefur alltaf verið kletturinn í mínu lífi og alltaf verið til staðar þegar ég hef þurft á því að halda. Þú hefur alltaf lagt áherslu á það við mig að ég geri það sem er rétt. Það hefur oft verið rifjað upp að í eitt skipti þegar ég var lítill og við strákarnir ætluðum að gera eitthvað af okkur þá sagðist ég ekki geta það því mamma yrði svo sár. Þú hefur alltaf passað svo vel upp á okkur bræðurna og að við séum vinir. Ég man eftir því þegar Hilmar var nýfæddur, þá kenndir þú mér að skipta á honum með taubleyju og Halla kenndi mér að setja utan um sængina hans. Ég man líka að ég var oft að passa Almar en það var ekki jafnauðvelt og að vera með Hilmar. Þú varst líka alltaf svo góð og almennileg við vini mín. Það var alveg sama hver var það var, það var öllum boðið að borða.

Kærasta minning mín núna um jólin er þegar ég og Almar bróðir sáum um að skemmta krökkunum á Dvergasteini um jólin með þér. Ein jólin vantaði jólasveina og þú, sem passaðir alltaf upp á að allt væri í lagi, baðst okkur (eða kannski lést okkur vita) að skemmta á jólaballinu. Eftir jólaballið voru fóstrurnar mjög ánægðar með okkur og við sáum um þetta næstu 13-15 árin. Þetta er mér mjög kært og hugsa ég til þessa um hver jól með söknuði. Ég vissi líka að þetta skipti þig máli og að þú værir ánægð með okkur.

Ég á eftir að sakna þín.

Gunnar Sigurður.

Elsku Lilla. Ég trúi ekki að ég sitji hér og skrifi minningarorð um þig. Að þú sért virkilega farin frá okkur. Þetta er allt svo óraunverulegt, að þú hafir veikst og farið svona fljótt. Þú sem varst alltaf svo hraust, dugleg og sterk. Ég man þegar ég kom fyrst á Aflagrandann með Hilmari sumarið 2005. Þú stóðst í dyragættinni, veifaðir og brostir svo glöð. Ég var hálffeimin en þú umvafðir mig strax hlýju og gleði. Það var eins og ég hefði alltaf þekkt þig. Ég hugsaði: þetta er fjölskylda sem ég vil tilheyra.

Ég á svo margar yndislegar minningar því þú varst alltaf til staðar og við eyddum svo miklum tíma saman. Við höfum átt ómetanlegar stundir saman á Flúðum og í húsinu ykkar Gunna á Spáni.

Aflagrandinn var hjarta fjölskyldunnar og um helgar stundum eins og félagsmiðstöð, allir samankomnir og alltaf fjör. Alltaf stjanaðir þú við alla, færandi öllum kaffi, og síðan var auðvitað alltaf til ís og kex. Krakkarnir voru alltaf jafn spennt að fara til ömmu Lillu. Jón Gunnar og Ari voru síðan farnir að koma sjálfir með vini sína í heimsókn. Þú tókst alltaf svo vel á móti þeim. Á leiðinni úr vinnunni kom ég svo oft við hjá þér, bara í stutta heimsókn í smá spjall og kaffi. Í laganáminu kom ég alltaf til ykkar Gunna á Aflagrandann og lærði fyrir próf og skrifaði lokaritgerðina mína. Mér leið eins og heima hjá mér.

Þú varst einstök amma, Lilla. Þú gafst öllum barnabörnunum þínum tíma. Faðmaðir þau og sagðist elska þau. Þú þekktir þau svo vel enda spjallaðir þú alltaf svo vel við þau, spilaðir við þau og þegar þau voru lítil sastu með þau í fanginu og söngst. Anna Katrín var svo heppin að vera hjá þér alla sína leikskólagöngu á Dvergasteini. Þar tókstu á móti henni alla daga með knúsi. Aldrei hef ég kynnst manneskju sem er jafn dugleg og hjálpsöm. Þegar við stóðum í flutningum og framkvæmdum þá vorum við velkomin á Aflagrandann og máttum vera eins lengi og við vildum. Þú mættir líka heim, óumbeðin og tilbúin til að þrífa. Þú tókst upp tuskuna og varst óstöðvandi enda hamhleypa til verka og dugnaðarforkur. Það var ekki til þreyta eða uppgjöf. Við skyldum byrja á því leiðinlega fyrst því það væri svo gott að klára það.

Þú sagðir oft hvað þú værir heppin að eiga þrjá góða og yndislega syni en enn heppnari að eiga þrjár góðar og yndislegar tengdadætur. Það væri sko ekki sjálfsagt. Við vorum heppnar með þig. Þú varst ekki bara einstök tengdamamma heldur líka traust og góð vinkona. Alltaf gat ég leitað til þín með allt og þú varst alltaf með svörin og lausnina. Þú hefur hjálpað mér ómetanlega mikið í gegnum tíðina.

Þú varst líka svo skemmtileg, hress og kát. Við gátum spjallað og hlegið saman. Á Flúðum og á Spáni gátum við setið langt fram á kvöld og spjallað um allt milli himins og jarðar. Þú varst frábær sögumaður og sagðir svo skemmtilega frá. Við gátum líka dansað saman á sveitaballi.

Elsku Lilla. Ég er svo þakklát fyrir að hafa kynnst þér. Þú hefur kennt mér svo margt og gert mig að betri manneskju, eiginkonu og móður.

Þín tengdadóttir,

Kristín Ninja.

Það er með sorg í hjarta sem ég kveð elsku Lillu tengdamóður mína. Ég hitti hana fyrst aðeins 15 ára gömul þegar við Almar byrjuðum að stinga saman nefjum og um leið tók hún mér opnum örmum og bauð mig strax velkomna í fjölskylduna.

Lilla var einstök kona sem bar með sér mikla hlýju hvert sem hún fór. Hún var einstaklega góðhjörtuð manneskja og var alltaf boðin og búin að hjálpa hverjum þeim sem þurfti.

Eftir að hafa kynnst henni vel þá kom það engan veginn á óvart að hún helgaði líf sitt umönnun. Ég veit að flest börnin sem hún hefur passað í gegnum tíðina gleyma henni aldrei enda var hún þekkt fyrir sinn mikla kærleik sem var óþrjótandi hjá henni.

Hún hafði einstakt lag á að láta öllum í kringum sig líða vel og skapaði hún oft einstaka stemningu í kringum sig með jákvæðni og hlýju.

Ég datt heldur betur í lukkupottinn þegar ég kynntist henni en hún hefur reynst mér dýrmæt vinkona, tengdamamma og einstök amma. Ég hef alltaf getað leitað til hennar, hvort sem er með ráð eða barnapössun, en aldrei sagði hún nei.

Ég minnist hennar með þakklæti og kærleika og hennar verður sárt saknað.

Elsku Lilla, þú munt ávallt vera í hjarta mínu. Hvíl í friði.

Þín tengdadóttir,

Margrét (Magga).

Yndislegasta og besta tengdamamma er látin langt fyrir aldur fram. Ég kynntist henni fyrir 27 árum þegar við Gunni byrjuðum að hittast. Fyrstu kynni mín af henni voru að hún hringdi í mig nokkrum dögum eftir að við Gunni kynntumst og vildi kynna sig fyrir mér og fá að vita hver ég væri. Ég er ekki alveg viss um hvernig hún hafði uppi á mér en þetta er dæmigert fyrir hana. Strax frá fyrstu kynnum hefur verið á milli okkar mikil og innileg vinátta. Lilla elskaði fólkið sitt og vildi alltaf allt fyrir alla gera. Lilla elskaði okkur tengdadæturnar eins og við værum dætur hennar og við elskuðum hana. Hún hefur síðan við kynntumst gefið mér jólaóróana frá Georg Jensen í afmælisgjöf sem hanga núna úti um allt hús til minningar um hana og hefur mér aldrei þótt eins vænt og þá og einmitt núna. Ég og Magga áttum með henni ógleymanlega viku á Spáni ekki fyrir löngu, tengdapabbi og makar okkar ekki með, bara við þrjár að njóta eins og okkur einum var lagið. Afmælisferðin þegar hún varð sjötug er ógleymanleg, þegar við stórfjölskyldan mættum óvænt til Spánar til þeirra og áttum alveg meiriháttar tíma saman. Á þannig stundum sást greinilega að það sem skipti hana mestu máli var fjölskyldan.

Það var alltaf svo gott að leita til hennar og hún var alltaf til staðar þegar á þurfti að halda. Hún var alltaf tilbúin að hlusta og veita ráðleggingar. Það er mér líka mikils virði að hafa verið trúnaðarvinkona hennar og getað verið til staðar fyrir hana líka.

Tengdapabbi og synir hennar hafa staðið eins og klettar við hlið hennar síðustu mánuði og hefur verið yndislegt að sjá hversu heitt hún var elskuð af þeim. Sorg barnabarna hennar er mikil, mikill missir fyrir þau að missa ömmu sína sem var þeim svo góð og náin.

Lilla var einfaldlega besta amma og tengdamamma í heimi og ég á eftir að sakna hennar alveg ótrúlega mikið.

Íris Rut Árnadóttir.

Amma mín var góðhjartaðasta manneskja sem ég hef kynnst á minni lífsleið. Hún var góðhjörtuð en líka grjóthörð. Amma passaði alltaf upp á það að allir væru saddir og að enginn færi frá henni með garnagaul eins og hún sagði. Amma gerði besta snitsel, steiktan fisk og jólatertu sem ég hef fengið og það er eitt af ótal mörgu sem ég á eftir að sakna. Hún var í uppáhaldi hjá öllum og það þekktu allir hana ömmu. Það var alltaf gaman að fara með henni út í búð vegna þess að hún þekkti alla og stoppaði og talaði við alla. Ég velti því fyrir mér þegar ég var lítill hvort amma þekkti alla.

Amma var alltaf hress og alltaf jafn fyndin. Ég man ekki eftir því þegar amma var ekki hress. Jafnvel þremur dögum eftir að hún greindist með krabbamein fór ég til hennar og hún var hress eins og vant var. Það hefur enginn haft jafn mikinn áhuga á náminu mínu og amma gerði. Hún var alltaf að tala um hversu mikilvægt það væri að standa sig í skólanum.

Amma passaði alltaf að mér liði vel. Ég mun alltaf muna eftir því hvernig amma segir „hææ“ þegar ég hitti hana. Fyrsta sem hún sagði við mann þegar maður kom til hennar var „ertu svangur/svöng“ og við eldra fólkið „viltu kaffi?“ Amma var líka alltaf með sama fallega brosið. Hún brosti alltaf alveg út að eyrum.

Amma talaði alltaf um hversu heppin hún væri með fjölskyldu en við vorum þau heppnu að hafa svona frábæra ömmu/mömmu/eiginkonu. Amma átti gríðarlega stóran part í lífi allra í fjölskyldunni. Amma átti alltaf til Ballerina-kex, Mareland-kex, apaís, saltpillur og nóg af Aromati. Amma var einstök kona og það er enginn né verður eins og hún. Enginn gæti fylgt í fótspor hennar.

Uppáhaldsminning mín með ömmu er sjötugsafmælið hennar. Amma hélt að hún og afi væru að fara að eyða sjötugsafmælinu hennar bara tvö saman úti á Spáni en við fjölskyldan mættum heim til þeirra á Spáni og bönkuðum á hurðina hjá þeim. Afi opnaði og amma rétt fyrir aftan. Almar frændi bankaði svo fast að amma hélt að við værum innbrotsþjófar. Ég mun alltaf muna eftir svipnum á henni þegar hún sá að þetta vorum við. Afmæliskvöldið hennar var haldið á svaka fínum veitingastað. Þar vorum við öll heillengi og ótrúlega gaman hjá öllum. Í desert fengum við risastóra köku sem við öll deildum saman. Allt eldra fólkið var komið í geggjaðan gír. Á staðnum var rauðvínsherbergi og mátti reykja þar inni. Bróðir minn sat þar ásamt kærasta frænku minnar að reykja vindil. Amma kom inn, reif af þeim vindilinn, reykti hann smá og slökkti svo í honum. Amma var brosandi og hlæjandi allt kvöldið.

Amma var mjög hörð en alltaf sanngjörn. Ef amma skammaði þig þá vissirðu að þú áttir það skilið. Amma á stað í hjarta okkar allra alltaf. Mér finnst ég endalaust heppinn að hafa átt svona yndislega ömmu.

Almar Kári Gunnarsson.

Amma Lilla var einstök kona, sú sterkasta og besta sem ég hef þekkt. Hún var ekki bara amma mín heldur líka fyrirmyndin mín og besta vinkona mín, sú sem ég gat alltaf treyst og rætt við um allt í heiminum án þess að vera dæmd en vitandi að hún myndi alltaf segja sannleikann. Hún var alltaf jákvæð og gerði allt sem hún gat til að láta fólkinu sínu líða vel.

Amma kvartaði aldrei; sama hvað var í gangi, þá talaði hún alltaf af hlýju og bjartsýni. Þegar ég átti erfiðan dag, þá var hún alltaf til staðar til að lýsa upp daginn og sýna mér góðu hliðarnar á öllu. Neikvæðni var ekki til hjá ömmu, það lá alltaf vel á henni, sama hvað.

Amma hafði áhrif á alla sem hún hitti. Þegar við fórum út í búð að kaupa mjólk, til dæmis, tók það alltaf endalausan tíma því hún rakst á svo marga sem þekktu hana og hún hafði passað. Mér fannst þetta fyndið þegar ég var lítil en með árunum áttaði ég mig á hversu mikil áhrif hún hafði á fólkið í kringum sig. Hún var ógleymanleg manneskja.

Ég var alltaf mjög náin ömmu og bjó alltaf nálægt henni, og það breyttist lítið þó svo að ég flytti til Spánar. Það var stressandi fyrir mig að flytja til Spánar en það veitti mér alltaf öryggi að vita af ömmu og afa þarna rétt hjá mér. Ef ég var með heimþrá eða átti erfiða viku, þá voru þau komin að sækja mig og þá var ég hjá þeim í nokkra daga. Við amma sátum úti á svölum langt fram á kvöld, spjölluðum um allt milli himins og jarðar og hlógum mikið. Þetta voru dýrmætar stundir sem ég mun aldrei gleyma.

Ég gisti oft hjá ömmu þegar ég var lítil og ennþá eftir að ég varð eldri. Amma var ekki bara góð, heldur líka þolinmóð. Hún spilaði við mig tímunum saman þar sem mér fannst svo gaman að spila við hana, og þá sérstaklega núllu eða veiðimann. Síðan fengum við alltaf apaís eftir mat, fórum í bað og upp í rúm. Við fórum alltaf með bænirnar með henni, eins og „Leiddu mína litlu hendi“, sem fylgja mér enn þann dag í dag. Síðan sofnuðum við við sögur eins og Rauðhettu og úlfinn. Við áttum svo margar góðar stundir saman. Það besta sem ég vissi þegar ég var lítil var að koma til ömmu, fá extra-tyggjó og fá að setja á mig varalitinn hennar. Ég fór líka alltaf spennt að sofa þegar ég vissi að ég væri að fara með henni á Dvergastein, ekki minn leikskóla, daginn eftir.

Amma var hjarta fjölskyldunnar. Hún passaði upp á að við héldum alltaf saman og var líka amma fyrir allar vinkonur mínar, það fannst öllum gaman að koma til hennar og spjalla við hana. Hún var svo góð manneskja og gaf manni alltaf svo hlýtt knús sem gat læknað allt. Það var eins og hún gæti alltaf gert allt betra bara með nærveru sinni.

Ég er svo þakklát fyrir að hafa fengið að kalla hana ömmu mína og stolt af því að hafa verið skírð í höfuðið á henni. Hún var einstök kona og ég mun halda áfram að sakna hennar endalaust. Ég veit að amma mun alltaf fylgja mér hvar sem hún er núna og mun alltaf vera með mér í hjartanu.

Þórunn Anna Almarsdóttir.