Nína Gautadóttir myndlistarkona fæddist í Reykjavík 28. júní 1946. Hún lést á Landakotsspítala í Reykjavík 13. desember 2024.
Foreldrar hennar voru Elín Guðjónsdóttir, leikkona og leiðsögumaður, f. 4.5. 1926, og Gauti Hannesson kennari, f. 7.8. 1909, d. 4.4. 1982.
Bræður Nínu eru Brynjólfur, f. 27.9. 1947, d. 12.12. 1967, og Skúli, menningarfulltrúi, leikari og tónlistarmaður, f. 25.10. 1959.
Eiginmaður Nínu var Antoine Mercier verkfræðingur, f. 16.11. 1952. Þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Ásta Antonsdóttir Mercier ferðamálafræðingur, f. 22.2. 1980. Hún á dótturina Eydísi Nínu, f. 8.12. 2020; 2) Laurent Smári Antonsson Mercier flutningafræðingur, f. 26.7. 1981.
Hann á með Sarah Basset börnin Gaspard Sigurð, f. 7.8. 2016, og Alice Hildi, f. 26.1. 2019; 3) Freyja Rosalie Antonsdóttir Mercier lyfjafræðingur, f. 12.9. 1987, í sambúð með Adrien Heral og eiga þau dótturina Lönu Esju Catherine, f. 4.6. 2020.
Útför Nínu fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 20. desember 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.
Athöfninni verður streymt á vefsíðunni
https://streyma.is/streymi/
Elsku Nína. Þú teygðir boxið, gerðir það að einhverju allt öðru, fórst út úr því, snérir því á hvolf og ef einhver gerði athugasemd ypptirðu bara öxlum og glottir. Þú varst svo stór, alltof stór fyrir Ísland en blómstraðir í París. Ég er svo þakklát fyrir allan tímann okkar saman, að fá að eyða svona miklum tíma með þér í París, að fá að sjá inní þennan einstaka huga, fá að líta upp til þín, fá að vera litla frænka þín. Þú hafðir óbilandi trú á mér, hvattir mig áfram og skildir ekki hvað ég var að efast. Ég gleymi því aldrei þegar þú varst hjá mér á spítalanum í París. Á hverjum degi varstu mætt, alltaf með eitthvað sniðugt sem ég gat dundað mér við. Þegar ég var stressuð að taka íbúðina mína í gegn þá sastu með mér tímunum saman að pæla í litum á veggina og eldhúsinnréttinguna. Þræddir síðan með mér allar flísabúðir höfuðborgarsvæðisins í leit að bleikum flísum „það verður að vera mynstur á þeim, annars þarftu alltaf að vera að þrífa“. Þér fannst það ekkert tiltökumál þegar ég bað um „mjög stórt málverk“ í stofuna eftir þig, eina athugasemdin sem þú gerðir var „ætli það þurfi þá ekki að vera bleikt?“ og glottir. Elsku besta Nína, ég mun sakna þín svo mikið. Takk fyrir allt.
Þín litla frænka,
Steiney.
Í dag kveð ég kæra vinkonu, Parísardrottninguna Nínu Gautadóttur. Nínu kynntist ég fyrir þrettán árum og ég gleymi aldrei þegar við hittumst fyrst. Ég var meðleigjandi dóttur hennar og Nína þekkti húsið sem ég leigði í betur en margur annar. Ég var ein heima þegar bankað var á dyrnar. Ég hikaði, vissi ekki hvort ég ætti að opna, fyrrverandi au-pair-stelpan sem vissi mætavel að í Frakklandi opnar maður ekki fyrir ókunnugum. Ég hugsa með mér að þetta gæti verið konan á móti sem þyrfti aðstoð og tek úr lás. Fyrir utan stendur rauðhærð kona með geislandi augu, brosir í kampinn, sposk, horfir beint í augu mín og segir: Þú ert Friðrika. Svo stutt þögn. Ég var svolitla stund að átta mig en svo hvarf öll óvissa, auðvitað var þetta Nína. Örskömmu síðar vorum við komnar upp á loft þar sem hún sýndi mér vinnustofuna sína. Lítið rými fullt af verkum. Listakonan sýndi mér verkin sín, sagði mér frá þeim, fór í gegnum dót og við urðum vinkonur. Eftir þetta hitti ég Nínu reglulega meðan á Parísardvölinni stóð. Hún bauð heim í mat, við fórum á kaffihús, röltum og fórum á veitingahús þegar tækifæri gafst á milli lesturs Balzac-bóka. Það var Nína Gauta sem kenndi mér á París, á litlu góðu veitingastaðina þar sem maturinn er góður en ekki rándýr, sagði mér Parísarsögur úr Beaux-Arts, frá dvöl sinni og fjölskyldunnar í Afríku og allt þar á milli.
Eftir heimkomuna héldum við sambandi og í ferðum okkar Eiríks til Parísar hélt hún uppteknum hætti. Hún fann veitingastaði, sýningar, kvikmyndir og bíó. Kallaði okkur „krakka“, okkur foreldra þriggja barna! Í eina skiptið sem við höfum skundað út af veitingastað vegna lélegrar þjónustu vorum við með henni. Við höfðum setið alltof lengi og beðið og Nína farin að ókyrrast. Kaldur maturinn kemur og þá segir hún einfaldlega: Krakkar, þetta gengur ekki. Við höfum beðið alltof lengi, við áttum pantað borð, þetta er fínn staður og á svona veitingahúsi gengur þetta ekki. Við látum ekki bjóða okkur þetta. Förum! Hún stendur ákveðin á fætur og við á eftir, hrifsum yfirhafnirnar og hlaupum á eftir henni. Við veifum leigubíl og förum rakleiðis á annan veitingastað sem bauð upp á mergbein sem rann mjög svo ljúflega niður í maga karlmannsins í ferðinni og líður honum aldrei úr minni.
Síðustu ár var Nína heilsuveil og það tók sinn toll. Síðastliðinn vetur vorum við báðar í Bordeaux og það var ómetanlegt að fá stundir með henni þar. Í þetta sinn var takturinn annar, nú var það ég sem gat sagt frá, komið með uppástungur og eldað. Þá hittumst við aftur á kaffihúsum, í annarri borg, eyddum stundum saman með dóttur hennar og dótturdóttur. Kvöddumst.
Elsku Nína, það var mjög dýrmætt að hitta þig fyrir skömmu og geta þakkað fyrir það sem þú gafst mér. Það sem ég mun sakna þín, ekki síst á framtíðargöngum mínum um París. Í mínum huga eruð þið tvær samofnar eins og textílverk, þú og París, og verðið um ókomna tíð.
Ástu, Smára, Freyju og fjölskyldunni allri votta ég mína dýpstu samúð.
Friðrika Tómasdóttir.