Sviðsljós
Guðm. Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Gisèle Pelicot, 72 ára gömul frönsk kona sem sætti kerfisbundnum nauðgunum um árabil, sagðist virða niðurstöðu dómstóls í Avignon í Frakklandi sem kveðinn var upp í gær eftir réttarhöld sem stóðu yfir í þrjá mánuði.
„Ég virði dóminn og niðurstöðu hans,“ sagði Gisèle við blaðamenn eftir að dómurinn var kveðinn upp. Hún bætti við réttarhöldin hefðu reynst henni erfið en hún sæi ekki eftir því að krefjast þess að þau færu fram fyrir opnum tjöldum svo samfélagið gæti orðið vitni að því sem gerðist. Hún sagðist hugsa til annarra fórnarlamba ofbeldis sem ekki hafa fengið að segja sögu sína en hún tryði á framtíð þar sem allir, karlar og konur, geti lifað saman í sátt og samlyndi.
Dominique Pelicot, fyrrverandi eigimaður Gisèle, var dæmdur í 20 ára fangelsi fyrir nauðgun og fyrir að leyfa tugum ókunnugra manna að nauðga henni eftir að hann gaf henni svefnlyf. Þá voru 50 karlmenn á aldrinum 27 til 72 ára, sem tóku þátt í athæfinu eftir að Dominique hafði samband við þá á samfélagsmiðlum, dæmdir í 3 til 15 ára fangelsi. Dómar tveggja voru skilorðsbundnir að hluta. Málið hefur vakið heimsathygli og hefur Gisèle verið lofuð fyrir hugrekki sitt og réttlætiskennd.
„Þakka þér fyrir, Gisèle Pelicot,“ skrifaði Olaf Scholz kanslari Þýskalands á samfélagsmiðlinum X. „Af hugrekki afsalaðir þú þér nafnleynd og barðist fyrir réttlæti. Þú gafst konum um allan heim sterka rödd. Skömmin er alltaf þeirra sem fremja brotin,“ skrifaði hann.
Pedro Sánchez forsætisráðherra Spánar tók í sama streng á X.
Í yfirlýsingu, sem kvenréttindasamtökin Fondation des Femmes sendu frá sér sagði að rétturinn hefði sannað að Gisele Pelico hefði haft rétt fyrir sér um að hægt væri að flytja skömmina til. Samtökin lýstu einnig yfir vonbrigðum með dómana yfir sumum sakborningum sem væru ekki í samræmi við gögn og vitnisburði í málinu.
Margir þeirra, sem ákærðir voru í málinu, neituðu sök og sögðust hafa talið að þeir væru þátttakendur í kynferðislegum leik, sem hjónin hefðu skipulagt saman. En Dominique sagði fyrir réttinum að mennirnir hefðu allir vitað hvað klukkan sló.
Saksóknarar kröfðust 20 ára fangelsisdóms yfir Dominique Pelicot og 10 til 18 ára fangelsisdóma yfir öðrum sakborningum. Þyngsta dóminn, að Dominique undanskildum, 15 ára fangelsi, hlaut Roman V., 63 ára gamall eftirlaunaþegi, sem kom sex sinnum á heimili Pelicot-fjölskyldunnar. Þá var Hassan O dæmdur að sér fjarverandi í 12 ára fangelsi en hann er á flótta undan réttvísinni. Vægasta dóminn, þriggja ára fangelsi, þar af tvö ár skilorðsbundin, hlaut Joseph C., 69 ára, sem var ákærður fyrir að hafa þuklað á Gisèle Pelicot en ekki nauðgað henni.
Sex sakborninganna voru taldir þegar hafa afplánað dómana í gæsluvarðhaldi. Börn Pelicot, sem eru þrjú, lýstu þeirri skoðun eftir að dómarnir voru kveðnir upp að þeir væru of vægir. Þá ítrekuðu þau að þau myndu aldrei tala við föður sinn aftur.
Fram kemur í frétt AFP-fréttastofunnar að mikil spenna hafi verið í réttarsalnum áður en dómarnir voru kveðnir upp og var lögregla með töluverðan viðbúnað. Margir sakborninganna komu í dómhúsið með farangur þar sem þeir bjuggust við að verða fluttir tafarlaust í afplánun.
Dominique Pelicot
Sagðist hafa tvær hliðar
Dominique Pelicot var álitinn ástríkur fjölskyldufaðir. En annað kom í ljós eftir að hann var árið 2020 handtekinn fyrir að taka myndir upp undir kjóla kvenna og lögregla fann í kjölfarið myndskeið og önnur gögn í tölvum hans þar sem hann skrásetti nákvæmlega hvernig hann fékk tugi karlmanna til að nauðga eiginkonu sinni eftir að hafa gefið henni svefnlyf. Myndefnið var sýnt í réttarhöldunum.
Pelicot játaði brot sín í réttarhöldunum og sagði að hann ætti sér tvær hliðar, líkt og sögupersónan í bókinni um Jeckyll lækni og hr. Hyde.