Sigþór Reynir Kristinsson fæddist 1. apríl 1970. Hann lést 8. desember 2024.

Útför hans fór fram 20. desember 2024.

Í dag kveðjum við alltof snemma okkar ástkæra æskuvin, Sigþór Reyni Kristinsson, sem hefur fylgt okkur í vinahópnum síðan í barnæsku. Við vinirnir kynntumst allir í sex ára bekk Víðistaðaskóla í Hafnarfirði, í hverfi sem var í vexti og bauð upp á mörg ævintýri hjá jafnöldrum sem voru að hefja sína ævigöngu saman. Æskuárin einkenndust af ýmsum eftirminnilegum atburðum sem líklega mörg flokkast undir strákapör af bestu gerð. Íþróttir tóku einnig mikinn tíma á þessum árum, fótbolti á Víðistaðatúni eða körfubolti á skólavellinum var vinsælasta afþreyingin.

Unglingsárin tóku svo við með sínum ævintýrum og skemmtunum þar sem vikan fór oftast í að finna stað til að hittast á um helgar og hafa gaman. Ýmsar ferðir voru líka farnar á sumrin eins og í Þórsmörk og Húsafell. Árin liðu og hver og einn fór að stofna sína fjölskyldu og huga að sér og sínum en alltaf héldum við æskuvinirnir góðu sambandi.

Sigþór fór ávallt sínar eigin leiðir og veigraði sér ekki við að taka við stórum verkefnum. Hann var fylginn sér í öllu sem hann tók sér fyrir hendur og lét ekkert stoppa sig eftir að ákvörðunin var tekin. Aðeins 28 ára gamall tók hann sem dæmi við formennsku í körfuknattleiksdeild Hauka, félags sem hann bar ávallt sterkar taugar til. Sigþór var frumkvöðull, hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki ungur að árum og stóð ávallt eftir það í eigin rekstri og skapaði þannig sín eigin tækifæri. Við hinir tókum auðvitað vel eftir þessum dugnaði og dáðumst að framtaksseminni og eldmóðnum. Þó að Sigþór hafi verið framtakssamur og tekið sér margt fyrir hendur fór lítið fyrir honum og hann vildi láta lítið á sér bera. Sigþór hafði oftast sterkar skoðanir á helstu málum, var rökfastur og fannst mjög gaman að ýta við fólki og eiga í hressilegum rökræðum við það en alltaf var stutt í brosið og stríðnisglampann.

Nú á kveðjustund þökkum við fyrir þann tíma sem við vinirnir og makar okkar áttum saman með Sigþóri. Undanfarin ár höfum við æskuvinirnir hist reglulega í hádegismat þar sem við spjöllum um lífið og tilveruna og það sem efst er á baugi hverju sinni. Við minnumst allra jólaboðanna sem við áttum saman og er fastur liður hver jól. Hæst ber þó góða ferð okkar vinahóps ásamt mökum til Prag fyrir nokkrum árum í tilefni af 50 ára afmæli okkar sem í dag er sérstaklega dýrmæt minning.

Kæra Hjördís og fjölskylda, innilegar samúðarkveðjur til ykkar og megi guð styrkja ykkur í sorginni.

Brynjar Þór, Gunnar Már, Gunnar Ingi, Finnbogi, Hjörleifur, Valur Bjarni, Svavar, Þorsteinn og makar.