Ólöf, eða Ollýgunn eins og hún var allajafna kölluð, fæddist 1. apríl 1945 í Austur-Skálanesi, Hofssókn í Vopnafirði. Hún lést á Landspítalanum 27. nóvember 2024.

Foreldrar Ólafar voru Vera Valborg Einarsdóttir Maack, f. 13. desember 1911, d. 21. júní 2001, og Jón Guðmundsson, f. 13. nóvember 1903, d. 7. desember 1973. Móðurafi Ólafar var Einar Thorsteinsson Maack, f. 10. nóvember 1878, d. 19. mars 1969. Systir Ólafar var Borghildur Maack, f. 4. maí 1943, d. 3. ágúst 2021. Uppeldissystir Ólafar er Sigrún Þorgeirsdóttir, f. 22. janúar 1935.

Þann 2. nóvember 1968 giftist Ólöf Árna Friðriki Markússyni, f. 1944, d. 2023. Þau skildu. Með Árna eignaðist Ólöf tvær dætur: 1) Katrínu Rut, f. 18. apríl 1971, maki Jón Gunnar Jóhannsson, f. 5. október 1970. Synir þeirra eru Sindri Hrafn, Ísak Már og Adam Árni. 2) Jónu Valborgu, f. 2. október 1973, maki Vilhjálmur Bergs, f. 17. maí 1972. Börn þeirra eru: Garpur Orri, Viktor Nói og Vera Vigdís. Árið 1977 hóf Ólöf sambúð með Leifi Haraldi Jósteinssyni, f. 26. desember 1940, d. 17. janúar 1998. Þau slitu samvistum. Sonur þeirra er 3) Hrafnkell Logi, f. 2. október 1982, maki Valéria Freitas. Dóttir þeirra er Alice Freitas og sonur Hrafnkels af fyrra sambandi er Janus Smári. Ólöf hóf sambúð með Gústafi Magnússyni árið 1990. Börn hans eru Heiða, Ágúst og Silla. Þau slitu samvistum.

Ólöf bjó til fimmtán ára aldurs á Vopnafirði. Þá flutti hún til Reykjavíkur og lauk grunnskólagöngu sinni í Hagaskóla. Hún stundaði nám við Gagnfræðaskóla verknáms og lauk þaðan prófi 1963. Hún lærði tannsmíði hjá Herði Sævaldssyni tannlækni í Tjarnargötu og starfaði við fagið í upphafi starfsferils síns. Þaðan lá leiðin til Heyrnar- og talmeinastöðvar þar sem hún starfaði sem hlustastykkjasmiður í 25 ár. Síðasta hluta starfsævinnar starfaði hún hjá Sjúkraþjálfunarstöðinni.

Ólöf var lengst af einstæð móðir með þrjú börn; hún lagði metnað sinn í að búa börnum sínum gott heimili. Hún var hvetjandi og örlát, góður hlustandi og til staðar þrátt fyrir að síðustu æviárin hafi reynst henni erfið vegna veikinda. Ólöf var skáld, hún orti kvæði og lög, en fór leynt með hæfileika sína.

Útför fór fram í kyrrþey.

Elsku besta mamma mín. Takk fyrir allt þitt til mín og okkar.

Þinn sonur,

Hrafnkell Logi.