Þórunn Sigurlaug Sigurðardóttir, Lilla, fæddist 28. febrúar 1949. Hún lést 9. desember 2024.

Útför hennar fór fram 20. desember 2024.

Amma Lilla var ekki bara amma mín heldur einnig besta vinkona mín og manneskja sem ég leit upp til og mun alltaf gera. Hún var sú hlýjasta og besta, með knús sem gátu læknað hvað sem var. Hún fylgdist með öllu sem ég tók mér fyrir hendur og var minn helsti stuðningsmaður. Ég gat alltaf leitað til hennar, hvort sem það var til að spjalla eða biðja um ráð. Amma var alltaf hreinskilin, hún hlustaði af athygli og skilningi, en var á sama tíma óhrædd við að segja mér til ef hún var ósammála. Hún var alltaf hress og full af lífsgleði, og við gátum setið tímunum saman og hlegið. Þegar kom að því að ég þyrfti að fara sagði hún alltaf „hvað liggur á?“ Þetta sýndi hversu dýrmæt hver einasta stund var henni.

Það sem gerði ömmu Lillu einstaka var jákvæðni hennar. Hún var manneskja sem sá alltaf eitthvað jákvætt, sama hversu erfið verkefnin voru. Sem dæmi, þegar hún fékk covid og missti bragð- og lyktarskyn sitt í langan tíma talaði hún frekar um hve ánægjulegt það væri að finna bragð af tómatsósu frekar en að kvarta yfir því sem vantaði. Þegar amma veiktist var það bara enn eitt verkefnið sem hún þurfti að takast á við, með brosi og jákvæðni að vopni. Hún kvartaði aldrei, sama hversu erfitt var, sem lýsir henni sem manneskju.

Það verður erfitt að upplifa stóra áfanga í lífinu án ömmu Lillu, hvort sem það verður þegar ég útskrifast sem læknir, gifti mig eða eignast börn. En hún mun alltaf eiga stóran stað í hjarta mínu, og ég veit að hún fylgist með mér þaðan sem hún er núna.

Elsku amma Lilla, takk fyrir allt sem þú varst og allt sem þú gafst. Ég elska þig og mun sakna þín að eilífu.

Þín

Selma.

Sporin eru þung, að kveðja elsku Lillu er erfitt. Fyrsti kaflinn okkar var þegar Gunni bróðir kom í heimsókn með Lillu fyrir hálfri öld. Við smullum strax saman enda einstök kona, skemmtileg og hlý, við áttum margt sameiginlegt. Alls staðar sem hún kom fyllti hún rýmið af gleði og hlýju. Þessi upphafskafli varð að einhverju svo miklu meira og stærra en mig hefði getað órað fyrir. Lilla kunni ráð við öllu, það var gott að leita til hennar því hún vissi alltaf svarið og var tilbúin að deila með öðrum. Hjálpsemi var hennar sterki eiginleiki og jákvæðni, hún nennti engu veseni sem var svo dásamlegt. Það var svo yndislegt að vera í kringum hana, hún hafði góða nærveru. Ég á margar minningar með henni sem gætu fyllt heila bók, hún heillaði alla sem kynntust henni, dýr og börn, það var sama hver það var, Lilla var allra.

Annar kaflinn okkar var svo þegar Gunni og Lilla fluttu í Vesturbæ Reykjavíkur eftir að hafa búið á Akranesi í nokkur ár. Sambandið varð meira og nánara enda bjuggum við nánast í sama hverfi, einungis sjö mínútna göngufjarlægð, við áttum margar góðar stundir þar eins og annars staðar. Gott var að hafa Lillu í næsta nágrenni, gæðastundirnar okkar urðu fleiri.

Þriðji kaflinn okkar hófst fyrir um sex árum þegar við eignuðumst íbúð í sama hverfi á Spáni. Þvílík lukka sem það var fyrir mig að hafa Lillu nálægt, við sátum tímunum saman yfir morgunkaffinu og spjölluðum um daginn og veginn, stundum til að ákveða ferðalög eða hvar við áttum að fara að borða um kvöldið. Spánn verður ekki eins núna, það verður erfitt að fá ekki þessar notalegu stundir sem við áttum þar, það verður sárt að geta ekki skroppið yfir til Lillu í spjall eða fara í bæinn með henni.

Fjórði kaflinn er þyngstur, það sannast hvernig manneskja Lilla var þegar hún veiktist. Hún lét aldrei deigan síga, tók á móti mér með bros á vör og kvartaði aldrei. Nú er kaflanum hennar Lillu lokið, hún var einstök kona, alltaf svo jákvæð og stutt í gleðina. Söknuðurinn er sár, en ég mun ylja mér við allar dásamlegu minningarnar, sérstaklega þessi síðustu ár okkar á Spáni. Ég er þakklát fyrir að hafa fengið að hafa Lillu í mínu lífi, hún var einfaldlega besti vinur sem hægt er að óska sér. Ég kveð elsku mágkonu mína með söknuði, hún mun ávallt eiga stað í mínu hjarta.

Elsku Gunni, Gunni Siggi, Almar og Hilmar, söknuðurinn er mikill, tómarúmið er stórt. Ég sendi ykkur og tengdadætrum og barnabörnum mínar innilegustu samúðarkveðjur vegna elsku Lillu okkar.

Eyrún Gunnarsdóttir.

Það er okkur erfitt að skrifa minningarorð um okkar yndislegu vinkonu Lillu sem við hefðum viljað hafa meðal okkar svo miklu lengur. Konu sem var ljósgeisli í lífi allra sem hana þekktu. Lilla var ekki aðeins einstök vinkona heldur líka hjartahlý og fórnfús móðir og amma, sem ávallt setti fjölskylduna í fyrsta sæti.

Hún var kona sem bar sig alltaf með reisn og lét sig varða um þá sem á vegi hennar urðu. Hennar einlæga hlýja hjarta og hæfileikinn til að láta öllum líða vel var eiginleiki sem fáir búa yfir. Lilla var alltaf tilbúin að hlusta, rétta hjálparhönd og deila visku sinni, hvort sem það var með bros á vör eða orðum sem færðu styrk og von.

Fjölskylda Lillu var hennar líf og yndi. Hún var óþreytandi í því að gleðja börnin sín og barnabörn, og hún naut þess að fylgjast með þeim vaxa og dafna.

Við munum sakna Lillu sárt, en um leið erum við þakklát fyrir að hafa fengið að hafa hana í lífi okkar. Minningarnar um hlýjuna, kærleikann og styrkinn sem hún gaf frá sér munu lifa með okkur.

Elsku Gunni, synir og fjölskyldur, megi guð styrkja ykkur í sorg ykkar.

Hvíl í friði, kæra Lilla, og þökk fyrir allt sem þú gafst. Minning þín lifir.

Guðmundur og Rakel.

Elsku besta Lilla mín. Nú ertu farin allt of fljótt og allt of snöggt. Þegar þú veiktist í haust var ég viss um að þú fengir lengri tíma en raun varð á. Það er eitthvað svo óraunverulegt að eiga aldrei aftur eftir að hitta þig, fá knús og heyra þig segja: „Mikið er gott að sjá þig!“

Ég kynntist Lillu fyrir tæpum 50 árum þegar við fluttum báðar á Akranes. Mennirnir okkar voru stýrimenn á sama skipi og þekktust þaðan. Eitt kvöldið birtust Lilla og Gunni óvænt í heimsókn og varð það upphafið að vinskap okkar Lillu. Við urðum strax bestu vinkonur, eiginlega algerar samlokur. Þar sem makar okkar voru mikið fjarverandi og hvorug okkar í vinnu á þessum tíma gerðum við flest saman. Við borðuðum til skiptist hvor hjá annarri, þess vegna bara súrmjólk sem börnunum okkar þótti hinn besti matur, aðalatriðið var samveran. Ég eignaðist svo litasjónvarp á undan Lillu og þá kom hún með strákana í náttfötunum og börnin horfðu saman á barnaefni í lit. Fyrir ein jólin ákváðum við að baka laufabrauð frá grunni. Það gekk reyndar ekkert sérstaklega vel því við náðum ekki að fletja það út en sem betur fer kom Haukur bróðir í heimsókn. Hann tók að sér að fletja deigið út fyrir okkur og við sáum um rest. Eitt haustið keyptum við svo hálft folald sem við ætluðum að salta en komumst að því að það er hægara sagt en gert án réttra verkfæra þannig að við ákváðum að úrbeina, því það var einfaldara.

Á síðari árum okkar á Skaganum unnum við á sama vinnustað sem hentaði okkur mjög vel. Lilla var búin að vinna fyrr að deginum en ég svo hún fór gjarnan í leikskólann og sótti bæði sinn og minn dreng, fór svo heim til mín og sótti dóttur mína og mömmu, sem var þá hjá mér, og fór með heim til sín. Síðan kom ég beint úr vinnunni og við borðuðum öll saman. Þetta voru ómetanlegir tímar.

Lilla flutti suður þremur árum á undan mér en við hittumst samt alltaf þegar tækifæri gafst. Þegar ég flutti svo á höfuðborgarsvæðið var ekki svo lengi verið að fara úr Hafnarfirði í Vesturbæinn eða öfugt.

Það er ekki sjálfgefið að eignast svona góða vinkonu og að vináttan haldist út lífið en þannig var það hjá okkur Lillu. Við rifjuðum það oft upp að það væri alveg merkilegt að hafa verið vinkonur svona lengi og að hafa aldrei rifist.

Þegar ég spurði börnin mín hvað þeim fyndist lýsa Lillu best sögðu þau að hún hefði alltaf verið svo hlý og átt svo auðvelt með að tala við börn og setja sig í þeirra spor. Hún var vissulega menntuð fóstra en þetta var henni samt svo eiginlegt. Hún var líka svo hress og skemmtileg og hafði svo góða nærveru.

Elsku Lilla mín, takk fyrir alla samveruna og vináttuna öll þessi ár. Við hittumst síðar á öðrum stað og tökum þá upp þráðinn á ný.

Gunna og fjölskyldu sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Þín vinkona,

Sigþrúður.

Haustið 1965 mættumst við fjörutíu stúlkur hvaðanæva af landinu á Laugarvatni til vetrarvistar í Húsmæðraskóla Suðurlands, Lindinni. Það kom fljótt í ljós að þetta var samheldinn og góður hópur. Við fæstar þekktumst, en ekki leið á löngu að við urðum góðar vinkonur og samheldnar. Þórunn Sigurðardóttir var ein þeirra, sem við kölluðum alltaf Tótu bæði þá og alla tíð síðan. Hún Tóta okkar sem hér verður minnst var eftirminnileg. Hún var hress og kát, spilaði á gítar og söng, var fljót að samlagast okkur og tók virkan þátt í öllum sameiginlegum skemmtunum með okkur. Eftirminnilegt er þegar grímuball var haldið á Flúðum um veturinn, þar var Tóta í essinu sínu og lék Ólaf Ketilsson bílstjóra. Það gerði hún svo listavel að hún fékk fyrstu verðlaun fyrir. Greinilegt að þar voru hæfileikar hennar sem leikari, sem hún hefur áreiðanlega oft notað sem leikskólakennari með börnunum gegnum árin. Við höfum haldið hópinn og erum með saumaklúbb og hittumst reglulega. Tóta var alltaf dugleg að mæta og kom með tvær skólasystur okkar með sér, var bílstjóri þeirra. Hjálpsöm og dugleg var hún alla tíð, vildi ganga frá eftir saumó, helst vaska allt upp, svona aðeins að hjálpa til, þannig var hún. Það er margt hægt að rifja upp og minnast. Við erum þakklátar fyrir að hafa kynnst Tótu okkar, sorg okkar er mikil, við söknum hennar.

Með þakklæti og virðingu fyrir allt það góða sem Tóta gaf okkur kveðjum við hana og sendum eiginmanni, sonum, tengdadætrum og barnabörnum hlýjar samúðarkveðjur. Vertu sæl kæra skólasystir og vinkona.

Kveðja frá skólasystrum á Laugarvatni.

F.h. skólasystra,

Jóhanna Stefánsdóttir.

Þegar að kveðjustund kemur er það söknuður og sársauki sem aðstandendur og vinir finna. Við sem tengdumst Lillu í gegnum Kristínu og Hilmar áttum margar gleðistundir í samvistum við Lillu og fjölskyldu. Það var alltaf líf og fjör að vera í kringum hana. Hún var bæði góð að segja skemmtilegar sögur en á sama tíma að hlusta og sýna lífi fólks áhuga, sérstaklega öllu því sem viðkom börnum. Lilla var á réttri hillu í lífinu sem leikskólakennari og síðar leikskólastjóri. Hún hafði þann kraft og gleði sem þurfti í þessu starfi. Fjölskyldan naut einnig þessara eiginleika. Lillu verður sárt saknað af okkur öllum. Við vottum fjölskyldu hennar innilega samúð.

Francois Heenen, Kristín Pálmadóttir, Sóley Isabelle Heenen og
Emilía Madeleine Heenen.

Þegar ég útskrifaðist úr Kennaraháskóla Íslands sem leikskólakennari hóf ég störf í leikskólanum Dvergasteini. Ég hafði verið kennaranemi fyrir vestan og vissi ekki í hvorn fótinn ég átti að stíga, hvað þá hvar ég skyldi sækja um vinnu. Bekkjarsystir mín benti mér á að hún hefði verið í starfsnámi á góðum stað þar sem hún sæi mig alveg fyrir sér. Ég ákvað að fara í heimsókn og sé ekki eftir því, því ég hef starfað þar æ síðan og er þar nú skólastjóri.

Þetta var í júní árið 1999 og Dvergasteinn var þá lítill tveggja deilda leikskóli. Það voru þrjár „kanónur“ í bransanum sem tóku á móti mér, Elín Mjöll skólastjóri og deildarstýrurnar Lilla og Hanna. Lilla var líka aðstoðarskólastjóri. Ég var í nokkurn tíma að átta mig á því að Lilla hét náttúrlega ekkert Lilla, heldur Þórunn Sigurlaug, en var bara aldrei kölluð annað en Lilla. Þetta þekkti ég vel þar sem ég heiti Halldóra en er aldrei kölluð annað en Doja. Á þessum tíma var skólinn innan við árs gamall en Dvergasteinn var opnaður 17. ágúst 1998 og höfðu þá þessar þrjár ágætu konur verið búnar að móta megináherslur skólans sem eru enn helstu áherslur hans í dag. Þar er um að ræða verkefnið Ótrúleg eru ævintýrin, sem er læsis- eða þemavinna með íslenskum þjóðsögum, og svo var sköpun rauður þráður í öllu starfi. Eftir að ég eignaðist frumburð minn, hann Valþór Reyni, tók Lilla hann inn á deild sína og þar var hann í rúm þrjú ár, hélt þar upp á fyrstu fjögur afmælin sín. Lilla starfaði í leikskólanum þar til hún hætti störfum haustið 2014.

Það sem einkenndi Lillu var að hún var alltaf glöð, þ.e.a.s. hún var alltaf brosandi. Hún kenndi mér að laða börn til mín sem áttu í erfiðleikum með að skilja við foreldra sína á myrkum morgnum með því að ræða kisur, heilsa fólki alltaf vel og innilega, með því að segja t.d. „góðan daginn, mæðgur mínar“! Hún var ótrúlega dugleg og orkumikil, spilaði á gítar, var þessi staðalímynd fóstrunnar sem lék á gítar og hún var fóstra og vildi ekkert vera kölluð annað. En á þessum tíma var mikið átak í að breyta starfsheitinu í leikskólakennara. Hún lagði mikla áherslu á söngstundir og kenndi börnunum fjölmörg erfið og flókin kvæði og vísur. Lilla var alltaf í framlínusveit þegar við tókum slátur að hausti í leikskólanum og ég á margar minningar af henni með svuntu um sig miðja, lakkaðar neglur, alltaf brosandi með bleikan varalit, helst í blárri peysu í stíl við augnlit sinn, drífandi daginn áfram, já og alltaf með gítarinn við hönd. Blessuð sé minning þín elsku Lilla, þú átt stað í mörgum hjörtum.

Doja

Halldóra Guðmundsdóttir.