Inga Þórey Sigurðardóttir fæddist á Hellissandi 12. júlí 1933. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 28. nóvember 2024.

Foreldrar Ingu Þóreyjar voru Sigurður Magnússon, verkstjóri í frystihúsinu á Hellissandi, f. 17.8. 1903, d. 26.11. 1989, og Guðrún Jónasdóttir húsfreyja, f. 11.10. 1904, d. 23.8. 1994. Þau bjuggu mestan sinn búskap á Hellissandi en fluttust á efri árum til Reykjavíkur. Systkini Ingu Þóreyjar: Jónas, f. 4.8. 1927, d. 18.11. 1998, Arnar, f. 15.11. 1931, og Magnús, f. 16.7. 1938.

Inga Þórey giftist 17. nóvember 1956 Herði Húnfjörð Pálssyni, f. 27.3. 1933, d. 15.9. 2015. Inga Þórey og Hörður voru því tæp 60 ár í hjónabandi. Þau bjuggu mestan part sinn á Akranesi. Þau áttu fjögur börn: 1) Guðrún Bryndís, f. 23.12. 1956, gift Stefáni Lárusi Stefánssyni og eiga þau tvö börn, Hörð Pál og Stefán Lárus. 2) Sigurður Páll, f. 16.7. 1961, kvæntur Áslaugu Árnadóttur og eiga þau þrjú börn, Inga Tinna, Magnús Björn og Pétur Aron. 3) Hörður, f. 31.7. 1965, kvæntur Sigríði Bjarnadóttur og eiga þau tvö börn, Unu Dís og Evu Rós. Hörður á þrjú börn frá fyrra hjónabandi með Þóru Björgu Elídóttur, Auði Elísu, Hörð Þór og Maron Snæ. 4) Sigríður Anna, gift Jóni Guðmundi Ottóssyni og eiga þau þrjú börn, Ottó Andrés, Guðrúnu Ingu og Magnús Ara.

Úförin fór fram 11. desember 2024 í Kópavogskirkju í kyrrþey.

Andartök lífsins

sem eru okkur kær

Dýrmæt sem gimsteinn

en færast þó fjær

Í fortíð og framtíð

Hugsun þá er

Andartakið grípa

meðan það er

Þó að eilífu vildum

staldra við

Tíminn hann líður

framávið

Í hendingu tímans

andartak er

að eilífu horfið

úr greipum þér

(SPH)

Mamma okkar er látin eftir erfiða sjúkralegu sem spannaði um níu ár. Minningar sem komu upp í hugann snúast fyrst og fremst um góða konu, sem ól okkur upp og helgaði líf sitt okkar velferð og barna okkar. Fyrir það munum við ævinlega verða þakklát.

Mamma var blómarós frá Hellissandi. Hún fór í Húsmæðraskólann á Löngumýri eins og títt var í þá daga. Þar kynnist hún föður okkar Herði Pálssyni frá Sauðárkróki. Örlögin leiddu þau síðan til Akraness þar sem þau bjuggu allan sinn búskap. Hann með rekstur á Harðarbakaríi en hún heimavinnandi húsmóðir.

Móðir okkar var með stórt hjarta og góða nærveru. Ef henni rann í skap var það fljótt úr henni, langrækni átti hún ekki til.

Hún var mjög ákveðin og ófeimin við að segja sína skoðun ef réttlætiskennd hennar var ofboðið. Hennar vígi voru við börnin og pabbi og vei þeim sem gengu gegn okkur.

Mikið var um heimsóknir á okkar heimili. Við fengum stundum að laga kaffi á meðan fullorðna fólkið kom sér fyrir. Oftar en ekki settumst við síðan við borðið og tókum þátt í umræðunum þannig að ekkert vantaði upp á tengingu kynslóðanna á þessum tíma.

Minningabrotin eru mörg. Jólin á Bjarkargrund voru alltaf mikilfengleg þar sem amma og afi frá Hellissandi komu og Maggi bróðir mömmu, Kaupmannahafnarferðirnar þar sem mæðgurnar versluðu eins og enginn væri morgundagurinn, Kanaríeyjaferðirnar þar sem Gummi Ingimundar og Ingibjörg frá Borgarnesi voru alltaf með í för og ferðirnar á Hellissand.

Eftir amstur dagsins þótti mömmu oft gott að setjast niður á kvöldin og lesa blöðin, sem hún las yfirleitt spjaldanna á milli. Náðum við þá oftar en ekki góðu spjalli við hana um daginn og veginn yfir kaldri mjólk og góðum smákökum sem voru hennar sérgrein.

Samband mömmu og pabba var gott. Þau elskuðu að ferðast og fara á tónleika og að hitta annað fólk. Samverustundir með fjölskyldunni voru þeim mikilvægar. Því fengum við börnin oftar en ekki að ferðast með þeim bæði innanlands og utan.

Mamma var mikil amma. Hún spurði mikið eftir ömmu- og langömmubörnunum sínum. Heimsóknir þeirra til hennar veittu henni miklar gleðistundir.

Systur okkar bræðra og bræður mömmu þeir Maggi og Arnar voru nær daglegir gestir hjá mömmu þegar hún lá sjúkraleguna. Fyrir það verðum við bræður ævinlega þakklátir.

Að lokum viljum við fá að þakka starfsfólki á hjúkrunarheimilinu í Sóltúni fyrir frábæra umönnun móður okkar, ekki bara dagleg störf heldur þá hlýju sem það veitti henni dagsdaglega.

Mamma leggur augun aftur

Hvíldinni fylgir náðarkraftur

Við stefnum að sjá þig aftur

við sólarlandsins sýn

Þótt þurfum við að bíða

eftir brosinu þínu blíða

í hjörtum okkar geymum

uns við sjáum þig á ný

(SPH)

Guðrún Bryndís,
Sigurður Páll, Hörður, Sigríður Anna.