Ragnhildur Jóhannesdóttir fæddist 15. nóvember 1945. Hún lést 4. desember 2024.

Hún var jarðsungin 9. desember 2024.

Elsku tengdamamma er farin.

Þegar við Þorbjörn fórum að draga okkur saman var ég fljótlega kynnt fyrir fjölskyldunni. Ég hafði aldrei kynnst annarri eins fjölskyldu. Mér er það minnisstætt þegar í fyrsta fjölskylduboðinu tengdapabbi settist allt í einu við píanóið og allir fóru að syngja. Mikið sem ungri konu fannst þetta undarlegt en fljótt varð þetta ómissandi hluti af lífinu.

Börnin okkar Þorbjörns komu fljótt og eftir rúm fimm ár vorum við orðin fimm manna fjölskylda. Börnin okkar elskuðu að fara til ömmu og afa í Langagerði. Þar biðu þeirra alltaf einhver uppátæki en amma Ranka var ekki hefðbundin amma og fór alltaf sínar eigin leiðir. Í Langagerði fengu þau góðgæti sem þau fengu ekki annars staðar. Amma átti alltaf piparkökur og gjarnan var rjóma sprautað á þær. Hvíta súkkulaðið var aldrei langt undan og alltaf var til ís í kjallaranum. Þetta var jafnvel haft í forrétt enda var reglan í Langagerði að ömmur eru ekki uppalendur.

Tengdamamma hafði gott auga fyrir fallegum hlutum, jafnvel hlutum sem öðrum þóttu ekki merkilegir fyrr en hún var búin að koma þeim fyrir á réttum stað. Hún náði að töfra fram fegurð án mikillar fyrirhafnar og bústaðurinn í Öndverðarnesi var þar ekki undanskilinn. Strákarnir okkar Þorri og Sveinn fóru ófáar ferðir í bústaðinn með ömmu Rönku og afa Svenna. Þar gengu þeir í kurteisisskóla ömmu Rönku sem enn er talað um. Bústaðurinn varð fljótt uppáhaldsstaður okkar allra, svo ofboðslega notalegur og þar hægir aðeins á lífinu. Tengdamamma hafði sterkar skoðanir og áttum við mörg samtöl um alls konar málefni. Við vorum ekki alltaf sammála en mikið væri líka lífið leiðinlegt ef allir væru alltaf sammála. Og lífið með tengdamömmu og hennar fólki hefur aldrei verið leiðinlegt.

Takk elsku Ranka fyrir allt, þín verður sárt saknað en við huggum okkur við minningarnar um einstaka, sterka og klára konu sem umfram allt elskaði fólkið sitt.

Þín tengdadóttir,

Ragnheiður.

Amma Ranka var ein af ævintýralegustu manneskjum sem ég hef fengið þann heiður að kynnast. Hvatvís, forvitin, uppátækjasöm, fyndin og fyrst og fremst ótrúlega góð amma sem studdi sitt fólk alltaf hundrað prósent. Svo er ekki hægt að tala um ömmu Rönku án þess að minnast á hláturinn hennar sem var mjög smitandi og heyrðist stundum til næsta bæjarfélags.

Amma Ranka fylgdi nokkurn veginn aldrei lögmálum samfélagsins. Hún hafði til dæmis einstakt lag á því að velja uppskriftir, fara síðan ekki eftir þeim og einu sinni hélt hún meira að segja upp á jól í júlí. Það voru síðan ófáar sumarbústaðarferðirnar sem hún smellti öllum barnabörnunum í litla bílinn sinn, gaf okkur nammi í kvöldmat, leyfði okkur svo að vaka fram eftir nóttu og hvatti okkur til þess brjótast inn í sundlaugina í sumarbústaðahverfinu. Svo voru fjölmörg kaótísk matarboð haldin í Langagerðinu þar sem pasta, kartöflur og hrísgrjón voru á matarborðinu samtímis. Þessi boð enduðu undantekningarlaust á samsöng og dansi í litlu stofunni þar sem afi Svenni spilaði á píanó og Jói Kalli á gítar. Amma naut sín alltaf vel á dansgólfinu og hvatti okkur barnabörnin til að flytja leikrit og ýmis atriði þess á milli.

Amma hvatti mig áfram í öllu sem ég tók mér fyrir hendur. Hún hjálpaði mér mikið í dönsku og stærðfræði, þess á milli kenndi hún mér að hekla eða fór með mig í hinar ýmsu verslanir landsins að kaupa allt sem ég þurfti til að sinna enn ókönnuðum áhugamálum mínum. Ef ég minntist á að ég hefði áhuga á útsaum vissi ég ekki fyrr en við vorum mættar í föndurbúð. Ég kom oft í Langagerði og bakaði þegar ég var unglingur, amma var ekki lengi að bjóða mér kitchenaid-vélina, enda hafði hún hlotið bólusetningu við slíku á árum sínum í kvennaskólanum. Síðustu ár hefur amma verið að hverfa frá okkur smám saman. Nú kveðjum við hana fyrir fullt og allt og heimurinn er aðeins litlausari fyrir vikið. Elsku amma mín, við sjáumst einn daginn aftur í höll sumarlandsins. Það er notaleg tilhugsun að setjast niður með þér, borða rækjusamloku, skála í sykurlausu appelsíni og hlæja. Það væri ekki verra ef það væru piparkökur í forrétt.

Takk fyrir allt.

Ásdís Hanna.

Nú er komið að því að kveðja elsku ömmu Rönku, hina miklu stemningskonu, sem við munum sakna og höfum raunar saknað í nokkurn tíma. Amma var alltaf stolt af sínu fólki, tók mark á því sem við barnabörnin höfðum að segja og studdi okkur í öllu. Hún virtist hafa einlægan áhuga á fólki almennt, sagði skemmtilega frá, var vinmörg og fjölskylda hennar stór, svo mjög að það var allt að því erfitt fyrir barn að vera með henni á ferð um bæinn því hún þurfti svo oft að stoppa og tala við fólk.

Það er gaman að rifja upp minningar úr Langagerðinu og sumarbústaðnum í Öndverðarnesi því þar var alltaf mikið líf og fjör, til dæmis þegar amma fékk alla með sér að dansa konga og fékk afa til að taka Óla Skans á harmonikkuna.

Hún var mikill fagurkeri og þau afi áttu fallegt heimili í Langagerði, enda hafði hún gaman af því að þræða skransölurnar og var (kannski aðeins of) lunkin við að finna þar ýmsar gamlar gersemar, einkum fallega gamla stóla sem þurfti bara aðeins að laga og finna stað. Ragnhildur Jóhannesdóttir var úrræðagóð og ákveðin, kallaði ekki allt ömmu sína, hafði sterka réttlætiskennd og skoðanir á hlutunum.

Amma var einstaklega tónelsk og það kom varla fyrir að við færum í mat til ömmu og afa án þess að það endaði með einhvers konar samsöng, hljóðfæraleik, dansi, jafnvel búningum og almennri lífsgleði. Veislurnar voru margar og eftirminnilegar og það sem skorti kannski upp á í skipulagningu þeirra bætti hún upp með öllu hinu.

Ég vildi óska þess að börnin mín hefðu fengið að kynnast henni en ég mun segja þeim sögurnar og við sem þekktum hana skulum reyna í sameiningu að halda söngnum og fjörinu áfram með langömmubörnunum í veislum framtíðarinnar, í minningu hennar.

Hrefna Ragnhildur Jóhannesdóttir.