Gert er ráð fyrir 225 millj. kr. jákvæðri niðurstöðu af rekstri Dalabyggðar á næsta ári, samkvæmt fjárhagsáætlun sveitarfélagsins sem fyrir liggur. Miðað er við óbreytt álagningarhlutfall útsvars og fasteignaskatta og að hækkun gjaldskráa verði í flestum tilfellum 3,9%. Jákvæður rekstur sveitarfélagsins gefur svigrúm til vaxtar og viðgangs. Einnig hefur áhrif uppgjör af sölu eigna á Laugum í Sælingsdal; skólaþorpi sem nú er ferðaþjónustubær.
Nú er búist við að Dalabyggð komi út í tæplega 40 millj. kr. plús á þessu ári, sem ásamt öðru gerir mögulegt að fara í fjárfestingar. Þar má nefna að nú eru hafnar framkvæmdir við byggingu íþróttahúss og sundlaugar í Búðardal, sem er stórt verkefni. Á næsta ári verður varið alls einum milljarði króna í þessa uppbyggingu, sem á að ljúka snemma á árinu 2026.
Sveitarstjórn Dalabyggðar ákvað að viðhalda því sem gilt hefur síðustu tvö ár; að vist elsta árgangs í leikskóla hverju sinni er gjaldfrjáls. Árskort í bókasafnið verður áfram endurgjaldslaust og endurnýjaðir eru samstarfssamningar við til dæmis Leikklúbb Laxdæla, Ungmennasamband Dalamanna og Norður-Breiðfirðinga, Félag eldri borgara í Dölum og Reykhólahreppi og Skátafélagið Stíganda.
„Hér í Dölum eins og annars staðar er markmið sveitarstjórnar að auka lífsgæði íbúa, sem er að fjölga. Til þess er svigrúm nú, enda er rekstur sveitarfélagsins sjálfbær og í jafnvægi. Uppbygging íþróttamiðstöðvar er stórt og mikilvægt verkefni og mun breyta miklu hér til bóta. Þetta er þó aðeins eitt af mörgu sem hér er í gangi svo Dalirnir dafni enn betur,“ segir Bjarki Þorsteinsson sveitarstjóri. sbs@mbl.is