Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Meirihluti skipulagsráðs Kópavogsbæjar samþykkti á fundi ráðsins í byrjun mánaðarins að hafin yrði vinna við breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi vegna lóðar á Nýbýlavegi 1. Áður stóð til að þar yrði þjónustustöð/bensínstöð en horfið hefur verið frá þeim hugmyndum og er nú stefnt að því að þar verði íbúðablokk.
Útlit er fyrir að málið geti orðið umdeilt í sveitarfélaginu og einn íbúa í Lundi, Guðmundur Jóelsson, segir til að mynda í aðsendri grein í Morgunblaðinu að samtök íbúa í Lundi fylgist grannt með málinu. Honum líst ekki á blikuna og við fyrstu sýn sé „réttur þeirra sem búa í Lundarhverfinu fótum troðinn.“
Fasteignaþróunarfélagið Klasi á lóðina og hyggur á byggingu íbúða, en lóðin var áður í eigu Olís. Breytingar á aðal- og deiliskipulagi voru samþykktar með fimm atkvæðum gegn tveimur á fundi skipulagsráðs.
Efasemdir um vegtengingu
Theodóra S. Þorsteinsdóttir og Helga Jónsdóttir greiddu atkvæði gegn tillögunni og gerðu grein fyrir atkvæði sínu með bókunum á fundinum.
„Undirrituð telur að sömu forsendur eigi við og komu fram í erindi frá Vegagerðinni 2017 um ómögulegt aðgengi frá Nýbýlavegi. Áður en samtal um framtíðarþróun lóðarinnar á sér stað þyrfti að fá staðfestingu á aðgengi inn á lóðina,“ lét Theodóra bóka.
„Undirrituð telur mikilvægt að framkvæmdaraðili sem óskar heimildar til að vinna sjálfur að gerð deiliskipulags leggi fyrir skýrar hugmyndir um útfærslu. Jafnframt er óskað staðfestingar Vegagerðarinnar sem veghaldara á því að vegtengingar lóðarinnar við Nýbýlaveg séu ásættanlegar,“ lét Helga bóka.
Eins og sjá má í bókunum þeirra eru efasemdir um vegtengingar og aðgengi. Sólveig Jóhannsdóttir skipulagsfræðingur, Smári Ólafsson samgönguverkfræðingur frá VSÓ og Yngvi Karl Sigurjónsson arkitekt hjá Yrki gerðu grein fyrir fyrirætlunum Klasa á fundinum og birtu minnisblað um vegtengingar frá VSÓ ráðgjöf. Mat ráðgjafa er að ekki sé verið að leggja til hættulega tengingu eða gefa afslátt af öryggiskröfum.