Þórhallur Heimisson
Þá eru enn ein jólin runnin upp. Jesús er söguhetja jólanna og þekktasta sagan af því þegar hann Jesús kom heiminn í er sögð í Lúkasarguðspjalli í Biblíunni. Aðra sögu af fæðingu Jesú er að finna í Matteusarguðspjalli í sömu bók. En hvenær fæddist eiginlega Jesús?
Samkvæmt Lúkasi fæddist Jesús á meðan Heródes mikli var leppkonungur Rómverja í Ísrael. Það var hann frá árinu 37 fyrir Krist. Nú er það svo að Heródes dó árið fjögur fyrir Krist – fjórum árum áður en Jesú á að hafa fæðst samkvæmt tímatali okkar. Matteusarguðspjall segir svo frá að Heródes hafi sent hermenn til Betlehem til að myrða öll sveinbörn tveggja ára og yngri eftir að hann hafði fengið fréttina af fæðingu Jesú. Þess vegna hlýtur Jesús að hafa fæðst að minnsta kosti 5-6 árum fyrir tímatal okkar, 5-6 árum fyrir fæðingu sína! Tökum eftir því að „fæðing Jesú“ er hugtak sem notað er í sambandi við tímatal. Við teljum frá fæðingu Jesú. Þetta hugtak er ekki sagnfræðilegt heldur tilbúið, tímapunktur sem menn ákváðu í byrjun 6. aldar. Þá misreiknuðu menn sig um 5-6 ár. Dionysius Exiguus hét sá er var falið þetta reiknihlutverk. Hann bjó í Róm. Svo aftur sé nú vikið að guðspjöllunum tveimur eftir þá Matteus og Lúkas, þá ber frásögnum þeirra af fyrstu hérvistardögum Jesú og uppruna hans á engan hátt saman. Það eina sem þeir virðast sammála um er að María hafi verið meyja, trúlofuð Jósef, sem var ekki líffræðilegur faðir barnsins – og að Jesús hafi fæðst í Betlehem. Matteus lætur fjölskyldu Jesú koma frá Betlehem. Hvergi minnist hann á fjárhús eða skráningu skattyfirvalda. Þegar stjörnuspekingarnir hans koma til Betlehem til að heiðra barnið ganga þeir beint „inn í húsið“ (Matt. 2:11). Stjörnuspekingarnir (vitringarnir) og sér í lagi stjarnan sem þeir fylgdu hafa reyndar verið tilefni mikilla vangaveltna. Hvað var eiginlega þessi stjarna? Það er ekki gott að segja, en hitt er staðreynd að halastjarna sást á himninum um tveggja mánaða skeið árið fimm fyrir Krist – eða með öðrum orðum um það leyti sem Matteus segir að Jesús hafi fæðst. Samkvæmt kínverskum stjörnuspekingum var ferill hennar skráður að vori, í mars til apríl – en á þeim tíma hefur Jesús þá líklegast fæðst. Ekki í desember. Stjörnufræðingarnir höfðu sagt Heródesi konungi frá hinum nýfædda konungi samkvæmt því sem Matteus segir. Heródes lætur deyða öll sveinbörn tveggja ára og yngri í Júdeu til að tryggja veldi sitt. Heródes vílaði ekki fyrir sér að láta myrða syni sína þegar hann óttaðist að þeir myndu vaxa sér yfir höfuð og taka af sér völdin. Slík barnamorð hefðu þannig ekki verið honum mikið mál. Engill varar fjölskyldu Jesú við, sem flýr til Egyptalands – og síðar kemur Jesús frá Egyptalandi eftir að Heródes er fallinn frá. Þá flyst fjölskyldan ekki aftur til Betlehem, því einn af sonum Heródesar situr á valdastólnum, segir Matteus. Fjölskyldan flyst til Nasaret. Og þess vegna er Jesús frá Nasaret, en fæddur í Betlehem. En Matteus hefur engar áhyggjur af því að annar sonur Heródesar ræður ríkjum í Galíleu þegar María, Jósef og Jesú koma þangað frá Egyptalandi – og það hefur fjölskylda Jesú ekki heldur. Lúkas leysir vandamálið með Betlehem með því að láta Maríu og Jósef fara þangað samkvæmt boði keisarans til skráningar. Lúkas hefur aldrei heyrt um stjörnuspekinga, barnamorð eða stjörnu á himnum. Hann lætur Jesú aftur á móti fæðast í fjárhúsi og engla boða fæðingu hans. En ekkert heyrist frá Heródesi mikla, sem kippir sér ekkert upp við englasönginn – eða hefur alla vega ekkert af honum frétt og kemur ekki við sögu. Enda flýr fjölskyldan ekki til Egyptalands samkvæmt Lúkasi. Þvert á móti er farið með Jesú til Jerúsalem, höfuðborgar Heródesar, þar sem hann er hreinsaður í musterinu. Og Heródes skiptir sér heldur ekkert af því. Og hvað vitum við þá um fæðingu Jesú? Líklegast fæddist Jesús í Nasaret. Pabbi hans hét kannski Jósef. Móðir Jesú hét María – eða Miriam – líklega fæddist Jesús árið 6-4 fyrir Krist. Að vori. Alla vega örugglega ekki 25. desember. Annað vitum við ekki um fæðingu Jesú.
En 25. desember er fæðingarhátíð Krists samkvæmt kirkjunni í hinu gamla vestrómverska ríki, sem seinna varð kaþólska kirkjan og lútersku kirkjurnar eru sprottnar úr. Og íslenska þjóðkirkjan þar með. 25. desember hafði verið hátíð sólarinnar í hinni fornu Róm. Rök kirkjunnar fyrir að helga daginn fæðingunni voru þau að Jesús hefði verið fullkominn maður og því hlyti hann að hafa verið getinn á fullkomnum degi. 25. mars var talinn fullkomnasti dagur ársins í Rómaveldi, því þá var álitið að heimurinn hefði verið skapaður. Jesús hlaut því að hafa verið getinn þann dag. Sem þýddi að hann hlaut að hafa fæðst níu mánuðum síðar, 25. desember. En aðfangadagur, 24. desember, verður dagur fæðingarhátíðarinnar hjá okkur því það er eini dagur ársins þar sem miðað er við hið forna dagatal Gyðinga. Samkvæmt Gyðingum byrjar nýr dagur kl. 18.00 að kveldi. Þannig byrjar 25. desember kl. 18.00 hinn 24. desember – en einmitt þá hringjum við jólin inn á Íslandi!
Gleðileg jól!
Höfundur er rithöfundur og prestur.