Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
„Húsaleigusamningurinn okkar í Suðurveri er að renna út núna um áramótin og við ákváðum að loka fyrst við gátum ekki stækkað verslunina eins og við hefðum þurft að gera,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson forstjóri Samkaupa, en eins og viðskiptavinir Krambúðarinnar í Suðurveri hafa séð er búið að loka versluninni.
„Við vorum komin á það stig að við þurftum að uppfæra verslunina og helst stækka hana en það var ekki rekstrargrundvöllur fyrir henni í óbreyttri mynd,“ segir Gunnar Egill, og bætir við að því miður hafi það ekki tekist, en Suðurver er í fullri útleigu og ekkert svigrúm til þess að stækka eða breyta versluninni á þessum tímapunkti. Hann bætir við að Samkaup séu alltaf að skoða mögulegt húsnæði, en segir Suðurver hafa verið góðan stað.
Viðskiptavinir verslunarinnar hafa verið frekar ósáttir með að verslunin hættir og á Facebook í hópnum „Hlíðar – besta hverfið“ er fólk að spá í hvað muni koma í stað Krambúðarinnar. Sumir vonast til að önnur verslun komi, ekki síst fyrir þá sem fara allra sinna ferða gangandi. Þar er talað um að það sé styst að fara í Krambúðina í Lönguhlíð, nú eða í aðeins lengri göngu í Kringluna, og sumir leggja til að það gæti verið gaman að fá nýtt kaffihús í staðinn.
Eigandi Suðurvers, Sigþór Sigurjónsson, bakarameistari í Bakarameistaranum, segir allt óljóst enn hvað muni koma í stað Krambúðarinnar.
Krambúðinni lokað
Þurftu að stækka og breyta versluninni.
Ekki möguleiki á auknu rými því byggingin er í fullri leigu.
Samkaupamenn með augun opin fyrir hentugu húsnæði.
Fólk í hverfinu sér eftir versluninni og vill fá að vita hvað kemur í staðinn.
Eigandi Suðurvers segir óljóst hvað gerist eftir áramót.