Sveinn Valfells
sveinnv@mbl.is
„Umsókn Íslands að Evrópusambandinu er ekki virk,“ segir Gunnar Bragi Sveinsson fyrrverandi utanríkisráðherra í samtali við Morgunblaðið, en hann telur ekki grundvöll fyrir því að komandi ríkisstjórn geti tekið upp þráðinn í samningaviðræðum þar sem frá var horfið.
Í nýbirtum stjórnarsáttmála Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins er að finna ákvæði um fyrirhugaða þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna Íslands að Evrópusambandinu. Þó leikur vafi á því hvort um framhald viðræðna sé að ræða, en líkt og kunnugt er leysti ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar upp samninganefnd Íslands í aðildarviðræðunum árið 2013 og í embættistíð sinni sem utanríkisráðherra sendi Gunnar Bragi bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins þess efnis að ríkisstjórn Íslands hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og að ekki bæri að líta á Ísland sem umsóknarríki.
Óvíst er þó með hvaða hætti Evrópusambandið lítur á málið, en í gögnum á heimasíðu Evrópusambandsins segir að breytingar hafi verið gerðar á verklagi hjá sambandinu í kjölfar þess að Ísland fór fram á hlé í aðildarviðræðum. Þar er þó ekki að finna afgerandi svar við því hvort Evrópusambandið líti svo á að umsóknin hafi verið dregin til baka að fullu.
Gunnar Bragi segir slík sjónarmið þó ekki standast skoðun. „Það var skýr vilji íslenskra stjórnvalda á sínum tíma að draga umsóknina til baka og gera hlé á viðræðum, þó að vissulega hafi verið reynt að mæta sjónarmiðum Evrópusambandsins með því að orða afturköllun umsóknarinnar varlega.“
Hann segir aðkomu Alþingis að auki óþarfa að þeirri ákvörðun, þar sem umsóknin sem send var inn af ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi byggst á þingsályktunartillögu, sem sé ekki bindandi.
„Frá mínum bæjardyrum séð yrðu því aðildarviðræður að hefjast frá grunni, en þar fyrir utan er það algjört brjálæði að sækja um aðild að ESB í dag, þar sem þar er allt í rúst,“ segir Gunnar Bragi.