Veruleg fjölgun hefur orðið á RS-veirutilfellum hér á landi og er tíðnin mun hærri en síðasta vetur.
Samhliða fjölgar tilfellum inflúensu og veldur þetta auknu álagi í heilbrigðisþjónustu. Er þetta í takt við það sem er að gerast annars staðar í Evrópu, að því er fram kemur á vef embættis landlæknis.
Búast má við verulegri fjölgun tilfella næstu vikurnar auk covid-19-tilfella, og gefur landlæknir út þau tilmæli að skerpa þurfi á sýkingavörnum. Þá er fólk hvatt til að láta bólusetja sig gegn inflúensu og með uppfærðu bóluefni gegn covid-19.
Landspítalinn er nú þegar undir miklu álagi vegna RS-veirufaraldursins, en ungbörn og eldra fólk eru í mestri hættu á að veikjast alvarlega. 30 einstaklingar lágu inni á Landspítalanum í síðustu viku með RS-veiru, þar af 11 ungbörn.
Bendir landlæknir á að hætt sé við auknu álagi á Landspítalann yfir jólahátíðina, þar sem samkomur, aukin ferðalög og verslun geta aukið útbreiðslu öndunarfærasýkinga.