70 ára Kristín fæddist 24. desember 1954 í Ólafsvík, yngst 6 systkina. Móðir hennar lést þegar Kristín var aðeins 3 mánaða. Fyrstu árin var hún í Ytri-Knarrartungu í Breiðuvík en flutti síðar til Reykjavíkur með móðursystur sem tók hana að sér eftir móðurmissinn. Flest sumur dvaldi hún hjá ömmu í Tungu.
„Við eiginmaðurinn hófum búskap í Reykjavík, fyrst á Baldursgötu, svo Eyjabakka en fluttum í Brekkubyggð í Garðabæ árið 1982 þar sem okkur hefur liðið mjög vel og eignast góða vini. Við byggðum einnig sumarbústað á Arnarstapa þar sem við höfum átt margar gæðastundir með fjölskyldu og vinum. Ég útskrifaðist sem sjúkraliði árið 1977, vann lengst af á Vífilsstöðum þar sem var gott að vinna, þar af í yfir 20 ár á húðlækningadeild.
Ég á mörg áhugamál og er dugleg að rækta heilsuna. Ég hef t.d. verið í sama leikfimihópnum lengi og hér áður fyrr fórum við hjónin oft í skíðaferðir. Nú erum við byrjuð að æfa golf og stefnum á ferðalög á húsbíl sem eiginmaðurinn er að innrétta, með golfsettið í farteskinu.
Það var sérstakt að eiga afmæli á aðfangadag þegar ég var barn en eftir að ég eignaðist dæturnar höfum við verið dugleg að halda upp á afmælið mitt. Þegar stelpurnar bjuggu heima þá vöktu þær mig alltaf með afmælissöng og pökkum, svo komu systkinin mín í morgunkaffi. Í seinni tíð hef ég fengið fjölskylduna heim til mín í kakó og bakkelsi á aðfangadagsmorgun.“
Fjölskylda Eiginmaður Kristínar er Helgi Kristjánsson skipstjóri, f. 1954. Dætur þeirra eru Aníta Björk, f. 1974, Hrafnhildur, f. 1977, Fjóla Kristín, f. 1981. Barnabörnin eru 7 talsins. Foreldrar Kristínar voru Kristín Þórunn Kristinsdóttir, f. 6.9. 1921, d. 26.3. 1955 og Helgi Guðlaugur Salómonsson, f. 25.10. 1915, d. 22.7. 1981. Fósturmóðir Kristínar var Fjóla Kristinsdóttir, f. 25.4. 1930, d. 9.6. 2022.