Ungi maður, gætir þú aðstoðað mig með dálitla þraut?“
Konan stóð við afgreiðsluborðið í lítilli bókaverslun í miðbænum, og það var vika til jóla.
„Fyrirgefðu?“ svaraði maðurinn og brosti með augunum.
„Gætirðu aðstoðað mig við að leysa þraut?“
„Ertu að leita að bók? Einhverri sérstakri bók, eða höfundi?“
„Nei, ég er með jólagátu sem ég þarf hjálp við. Nokkrar spurningar um bækur, ég held að þær séu ekkert mjög flóknar.“
„Ég loka búðinni eftir nokkrar mínútur, og ég er svo á hraðferð …“ Hann leit á úrið sitt. „Gætirðu komið aftur fyrir jól?“
„Hvenær ertu næst á vakt?“ spurði hún.
„Á aðfangadagsmorgun, raunar. Það er opið til hádegis, fólk að kaupa síðustu jólagjafirnar, en ég get örugglega kíkt á þetta með þér þá, þegar við lokum. Gengur það?“
„Kærar þakkir, ungi maður. Ég kem þá aftur á aðfangadag.“
* * *
Hún fór fótgangandi í bókabúðina á aðfangadag, og leiðin reyndist seinfarin, hálka og snjór á gangstéttunum. Þetta var fallegur vetrardagur, en hún fann fyrir aldrinum, varð áttræð fyrr á árinu. Núorðið þurfti hún sjaldan að svara því hversu gömul hún væri, og átti erfitt með að trúa því að árin væru orðin áttatíu. Hún var orðin gömul, en ung í anda. Kuldinn og snjórinn minntu hana þó á að hún var sannarlega ekki að yngjast.
Borgin var hátíðleg á þessum aðfangadegi jóla. Hún hlakkaði til að komast í bókabúðina, bækur höfðu alltaf skipað stóran sess í lífi hennar, og hún hafði jú gifst forföllnum bókasafnara. Í kvöld ætlaði hún svo að elda góðan mat og lesa einhverja gamla bók úr safni eiginmannsins heitins.
Maðurinn hennar hafði elskað bækur af öllu hjarta. Þau höfðu hist snemma á sjöunda áratugnum, og strax passað vel saman. Hann hafði verið aðeins eldri en hún, og nú var ekki bara hann horfinn á braut heldur voru vinir þeirra að týna tölunni, hver á fætur öðrum. Hún þekkti nánast daglega einhver nöfn á síðum minningargreina Moggans.
Hún sat alein eftir. Það var hálft ár frá andláti eiginmannsins. Hann hafði verið áttatíu og fimm ára, en hafði ætíð verið heilsuhraustur, og hún hafði vonast til þess að hann ætti enn nokkur góð ár eftir. Þau höfðu notið þess að ferðast saman, hlusta á tónlist og fara í leikhús, en bækurnar höfðu átt hug þeirra allan, og þau höfðu verið dugleg að bæta bókum í safnið. Þessi jólin fengi hún þó engar gjafir, og gæfi ekki heldur neitt.
Hún nálgaðist bókabúðina. Gönguferðin hafði tekið á, en brátt yrði hún umkringd bókum. Í glugganum voru nýjustu jólabækurnar, dálitlar jólaskreytingar, og inni í búðinni fallega skreytt jólatré. Það var meira að segja kanililmur í loftinu, jólakerti logaði á afgreiðsluborðinu. Og þarna var hann, ungi maðurinn. Það var ekki einn einasti viðskiptavinur inni í búðinni.
„Fyrirgefðu, ég er snemma á ferðinni,“ sagði hún afsakandi.
„Engar áhyggjur. Það er rólegt í dag. Ég loka eftir fimm mínútur. Það leggur enginn í þessa ófærð.“
„Fólk kann bara ekki að meta bækur lengur.“
„Ég vona að það sé ekki satt,“ sagði hann og brosti.
„Ég kíki kannski í hillurnar, ef það er í lagi, og við getum svo fengið okkur sæti þegar þú ert búinn að loka.“
„Hljómar vel.“
„Ég tók eftir því að þú ert alltaf með heitt á könnunni, má ég ekki fá mér kaffi? Það er hrollur í mér. Ég get komið með bolla handa þér,“ sagði hún.
„Endilega, takk.“
Í versluninni voru gamlar bækur í bland við nýjar, og hún andaði að sér bókalyktinni. Bókabúðir voru sannarlega hálfgert himnaríki.
* * *
„Ertu nýbyrjaður að vinna hérna?“ spurði hún eftir að hafa fengið sér sopa af kaffinu.
Þau sátu við afgreiðsluborðið. Hann hafði náð í stól handa henni og virtist boðinn og búinn að aðstoða hana, jafnvel þótt hann hefði eflaust öðrum hnöppum að hneppa á jólunum.
„Já, ég byrjaði í haust. Hálfgerð aukavinna, skilurðu? Ég elska bækur og mig vantaði vinnu, og einn af starfsmönnunum hér fór í veikindaleyfi.“
„Er ekki notalegt að vera alltaf með bækur í kringum sig, daginn út og daginn inn?“
„Fullkomið, jú.“
„Ég get ímyndað mér það.“
„Þú minntist eitthvað á jólagátu, var það ekki?“ spurði hann, og hún fékk það á tilfinninguna að hann væri orðinn óþolinmóður.
„Jú, svo sannarlega. Ég fann þessa þraut í fórum mannsins míns, sem nú er látinn, og ég næ ekki að leysa hana. Þetta tengist allt saman gömlum bókum, jólabókum, svo mikið veit ég.“
„Jólabókum?“
„Já, bókum sem gerast um jólin.“
Hún opnaði veskið og sótti samanvöðlað blað.
„Jólagáta. Það stendur efst á blaðinu,“ sagði hún og rétti unga manninum það. Hann sléttaði úr því og lagði það varlega á borðið.”
„Nú, jæja, þetta er hálfgerð krossgáta.“
„Eiginlega, já. Maðurinn minn heitinn elskaði bækur og krossgátur, get ég sagt þér. Og svo er ég hér með annað blað, með spurningunum sjálfum.“
Hún teygði sig eftir því úr veskinu og rétti unga bóksalanum.
1. Leó og ________
2. Og börnin voru sofnuð þau sváfu vært og rótt
þau sáu margt í draumi á helgri jólanótt.
Ég þeyttist fram úr rúmi að vita hvað það var
og vatt mér út að glugga og dró frá _______
(Clement Clark Moore / Sigurður Júl. Jóhannesson)
3. „Fullvel man ég _______ ára sól,
fullvel meir en hálfrar aldrar jól.“
(Matthías Jochumsson)
4. „Nú var fólkið rjótt í kinnum, þungt í höfði og sljótt af magaveiki, kjöt með morgunkaffinu, kjöt á milli mála, hamsar eins og grautur, flot eins og vatn, jafnvel tíkin bar baggana af ofáti, og hvað þráir sálin meir? Svo ganga jólin í garð.“
(HKL / _________)
5. „22. desember. Stephan bretti upp frakkakraganum um leið og hann hraðaði sér eftir brautarpallinum. Dimm þoka grúfði yfir járnbrautarstöðinni. Öðru hvoru hvein í stórum eimvögnum er þeir spúðu gufustrókum sínum upp í svalt og rakt kvöldloftið sem mettað var sóti og ryki.“
(Jólaleyfi ______)
„Við hljótum að leysa þetta,“ sagði hann og fékk sér sopa af kaffinu.
„Áttarðu þig á þessu? Ég vil nú ekki halda þér hér lengi ef þetta er of flókið. Það eru nú einu sinni jól.“
„Það er rétt, en við leysum þetta í sameiningu. Ég hef gaman af því, og þetta var rólegur dagur í búðinni.“
Hann virti blöðin fyrir sér.
„Eigum við ekki að byrja á ljóðinu? Við hljótum að finna ljóðasafn hérna í búðinni.“ Hann brá sér frá og kom til baka með snjáð safn ljóða eftir Matthías Jochumsson. „Við verðum fljót að komast til botns í þessu.“ Og svo las hann upp: „Fullvel man ég fimmtíu ára sól …“
„Þá erum við komin af stað: F,“ sagði hún glaðlega. „Æ, ég hef svo gaman af svona þrautum. Takk fyrir að hjálpa mér.“
„Allt í anda jólanna, að hjálpa náunganum.“
„Hvað kemur næst?“ spurði hún og leit á blöðin.
„Ég er ekki alveg viss.“
„HKL hlýtur að vera Laxness, er það ekki?“
„Fjórtán stafir,“ sagði hann.
„Eigum við að giska á að þetta sé Íslandsklukkan?“
Hann kinkaði kolli.
„Gerum það, já. Það gefur okkur þá K, sem fjórða stafinn.“
„Frábært. Spennandi …“
Það var byrjað að snjóa. Hún vonaðist til þess að veðrið héldist óbreytt fram á kvöld. Svona höfðu æskujólin alltaf verið fyrir norðan, ekkert nema snjór.
„Þessi neðsta gáta, þetta er augljóslega erlend bók, einhver saga sem gerist um jólin,“ sagði hann. „Stephen? Kannast ekki við þetta í fljótu bragði.“
„Já, ég var nú að vona að þú þekktir þessa, bóksalinn sjálfur …“
Hann sneri sér að tölvunni. „Við getum kannski svindlað aðeins, og flett upp á netinu, í bókasafnskerfinu. Bók með titli sem hefst á orðinu Jólaleyfi …“
Hún fylgdist þolinmóð með.
„Heyrðu, þetta er Agatha Christie,“ sagði hann loks. „Ég hef aldrei lesið hana. Er ekkert fyrir glæpasögur.“
„Maðurinn minn heitinn elskaði glæpasögur, sérstaklega þessar gömlu, þar sem morðinginn er alltaf sá sem maður á síst von á.“
Hann kinkaði kolli.
„Einmitt, já. Jólaleyfi Poroits. Bíddu nú við, orðið endar þá á R-i.“
„Hvað erum við þá komin með? F, K og R …“
„Ja, við giskuðum svo sem á Laxnessbókina. Veit ekki hvort við getum leitað af okkur allan grun í því, satt best að segja.“
„Hvað með fyrstu gátuna?“ spurði hún.
„Leó? Þetta hljómar nú satt að segja kunnuglega … Leó í jólabók … Við erum með jólabækur, eða bækur með einhvers konar jólaþema, í sérstakri hillu hérna hjá okkur. Bíddu aðeins …“
Hann kom til baka að vörmu spori, sigri hrósandi.
„Aðventa,“ sagði hann svo, og rétti henni bókina. „Eftir Gunnar Gunnarsson.“
„Já, ég las hana í gamla daga, en á hana ekki lengur. Kannski ég kaupi bara þetta eintak.“
Það lifnaði yfir bóksalanum.
Hann leit á úrið sitt og fékk sér svo annan kaffisopa.
„Ég þarf nú að fara bráðum,“ sagði hann.
„Ég veit,“ sagði hún, og bætti svo við: „Hvaða staf fengum við úr Aðventu?“
„Já, akkúrat. Leó og Benedikt. Hundur smalans, Benedikts, hét Leó. Stafurinn er þá K.“
„K, F, K, R. Þetta er nú eitthvað skrýtið.“
„Og okkur vantar orð númer tvö. Dró frá … gluggatjöldin?“
„Það rímar ekki. Okkur vantar orð sem rímar við þar, sýnist mér,“ sagði hún ákveðin.
„Ég gefst upp,“ sagði hann. „Viltu borga með korti?“
„Ha?“
„Fyrir Aðventu.“
„Já, nei, ég er nú bara með reiðufé. Ég hef nú ekki mikið á milli handanna, satt að segja. Maðurinn minn vann hörðum höndum alla ævi, en skildi því miður lítið eftir handa mér.“
„Ó, leitt að heyra,“ sagði bóksalinn, en ranghvolfdi augunum.
„Klárum þrautina, er það ekki?“ Þetta var þó skipun en ekki spurning.
„Jæja, þá, gefum þessu fimm mínútur í viðbót.“
„Það nægir mér,“ sagði hún og spurði svo: „Áttu til samheitaorðabók?“
„Ha, já, ætli það ekki.“ Að þessu sinni tók það hann dágóða stund að finna bókina, en það tókst.
„Gluggatjöld …“ Hann rýndi í bókina. „Blæjur? Gæti það verið?“
Hún las: „Ég þeyttist fram úr rúmi að vita hvað það var, og vatt mér út að glugga og dró frá blæjurnar.“
„Hljómar vel! Þá fáum við eitt A, en þetta gengur samt ekki upp.“
„Sumt gengur bara ekki upp, ungi maður.“
„Kannski er þetta stafarugl.“
„Það má vera. Við þurfum að fara betur yfir þetta. Ég hef ótakmarkaðan tíma.“
„Einmitt, já.“
„Hann safnaði bókum, minntist ég ekki á það?“
„Fyrirgefðu?“
„Maðurinn minn heitinn. Hann safnaði bókum, dýrmætum, rándýrum bókum. Hann var klókur að fjárfesta í gamla daga og nýtti peningana í bækur. Undir það síðasta var aðeins farið að slá út í fyrir honum. Hann var ekki eins varkár.“
Bóksalinn var enn að skoða spurningarnar.
„Kannski er þetta einhver önnur bók eftir Laxness,“ eins og hann hefði alls ekki nokkurn áhuga á að hlusta á hana.
„Hann var með skrifstofu niðri í bæ fram undir hið síðasta. Hann kynntist ungum manni sem elskaði bækur, og gat hjálpað honum að koma einhverjum titlum í verð.“
„Nú, jæja. Það er gott að menn elska enn bækur,“ sagði bóksalinn, en röddin titraði aðeins.
„Ég hitti þennan mann aldrei. Maðurinn minn gaf honum nokkrar sjaldgæfar bækur. Það fór í taugarnar á mér, en ég gerði ekki veður út af því.“
„Ég skil.“
„Og svo, einn góðan veðurdag, þá lét hann sig skyndilega hverfa, þessi huldumaður.“
„Ha? Kom eitthvað fyrir hann?“
„Nei, en maðurinn minn stóð eftir slyppur og snauður. Það var búið að selja eignir og taka peninga út úr bankanum, sagði lögreglan. Elsku maðurinn minn lét plata sig. Ég kann ekki að skýra þetta, en ég veit bara að þegar hann dó þá átti ég ekkert eftir nema húsið okkar og gömlu bækurnar, fyrir utan dýrmætu eintökin sem hann gaf frá sér. Lögreglunni tókst ekki að komast að því hver þetta var, en fyrir nokkrum vikum birtist ein af þessum bókum til sölu á netinu. Hún var árituð til mannsins míns, svo ég vissi að þetta væri sama eintak. Ég bauð í hana, bauðst til að skipta á henni og þremur öðrum verðmætari bókum. Þannig fékk ég heimilisfangið hans. Ég komst að því hvað hann heitir, hvar hann vinnur … Og hann passaði við lýsinguna á þeim sem hafði verið að hjálpa manninum mínum.“
„Einmitt.“ Það var reiðiglampi í augum bóksalans.
„Viltu vita hvað kom fyrir manninn minn?“
Hann svaraði ekki.
„Hann gafst upp. Hann dó. Þetta álag reyndist honum ofviða. Þessi svikahrappur tók manninn minn frá mér.“
Enn þagði bóksalinn.
„Ég var ekki viss um hvað ég ætti til bragðs að taka. Ætti ég að heyra í lögreglunni, reyna að ná peningunum til baka? Satt að segja þá skortir mig ekki peninga, ég lifi naumt, skulda ekkert í húsinu og get selt bækur úr bókasafninu. Mig vantar ekkert nema manninn minn, en ég fæ hann ekki aftur. Ég hefði líka getað heyrt í fólkinu sem á þessa fallegu bókabúð og sagt þeim að þau hefðu ráðið glæpamann til starfa, en mér fannst það ekki nægilega hörð refsing.“
„Ég skil.“ Hann sat enn sem fastast, en nú stóð hún upp. Hún var á förum.
„Mér fannst að þú yrðir að gjalda fyrir það sem þú gerðir.“
„Maðurinn þinn var háaldraður, og þú þurftir ekki á peningunum að halda,“ sagði hann, líkt og hann iðraðist einskis.
„Ég tek Aðventu með mér. Áttu nokkuð Sjálfstætt fólk?“
„Ha?“
„Já, tilvitnunin er úr þeirri bók, ekki Íslandsklukkunni … Og svo stafaðir þú nafnið á Agöthu Christie bókinni vitlaust, bóksalinn sjálfur: Poirot, ekki Poroit.“
Hann leit á blaðið.
„Gott og vel. Sniðugt hjá þér. Þarna stendur sem sagt …“ Hann hikaði aðeins: „Þarna stendur KAFFI. Er það málið, kaffi? Er það lykilorðið?“
„Já. Sjáðu til, eitrið er í kaffibollanum þínum, ungi maður.“