Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Vetrarsólstöður/vetrarsólhvörf voru að morgni laugardagsins. Þá var dagur stystur á norðurhveli jarðar.
Þegar sól fer að hækka á lofti eftir vetrarsólhvörf og daginn að lengja, er oft sagt að munurinn nemi hænufeti á dag. Þessarar sérstöku merkingar orðsins hænufet fyrir stutt skref er m.a. getið í Orðabók Menningarsjóðs.
En hversu stórt skyldi nú hænufetið vera? Svar við spurningunni má finna í erindi sem Þorsteinn heitinn Sæmundsson, helsti stjörnufræðingur Íslendinga, flutti árið 1987 og birt er í Almanaki Háskólans.
„Á liðnum árum hefur það komið fyrir, bæði í útvarpi og sjónvarpi, að menn hafa vitnað í almanakið og talið að hænufetið myndi nema einni mínútu, því að sólargangur í Reykjavík lengdist um mínútu fyrsta daginn eftir vetrarsólhvörf. Hér gætir nokkurs misskilnings í túlkun á sólargangstöflum almanaksins. Tölurnar í töflunum eru gefnar upp á heila mínútu,“ segir Þorsteinn.
Til þess að ganga úr skugga um hve mikið sólargangurinn lengist fyrst eftir vetrarsólstöður, verði að reikna með sekúndunákvæmni.
Í ljós kemur að niðurstaðan fer mjög eftir breidd staðarins, en einnig er hún breytileg frá ári til árs þótt á sama stað sé. Ástæðan er sú að sólstöðurnar ber ekki alltaf upp á sama tíma sólarhringsins. Ef sólstöður eru t.d. undir lok sólstöðudags verður mjög lítill munur á lengd sólargangs þess dags og hins næsta. Mestur verður munurinn ef sólstöðurnar eru mjög snemma á degi.
Þær tölur sem hér fara á eftir miðast við að sólstöður beri upp á miðjan dag (hádegið), segir Þorsteinn. Á fyrsta sólarhring frá sólstöðum hækkar sól á himni um 13 bogasekúndur eða þar um bil. Næsta sólarhring á eftir hækkar hún um 40" og þarnæsta sólarhring um 67".
„Ef við reiknum áhrif þessa á lengd sólargangs í Reykjavík kemur í ljós að fyrsta daginn eftir sólstöður lengist sólargangurinn um 8 sekúndur. Annan daginn lengist hann um aðrar 25 sekúndur, og þriðja daginn um 42 sekúndur. Þetta eru sem sagt „hænufetin“ í Reykjavík.“
Á Akureyri er fyrsta hænufetið 12 sekúndur, hið næsta 35 sekúndur og hið þriðja 58 sekúndur. Tölurnar fara ört hækkandi, en mismunatölur þeirra eru jafnar.
Á laugardag var sólarupprás í Reykjavík kl. 11.22 en sólsetur 15.29. Sól var því á lofti í rúmar fjórar klst. Síðan þá hefur daginn lengt en „hænufetin“ eru smá í fyrstu.