Haukur Engilbertsson fæddist á Vatnsenda í Skorradal 10. apríl 1938. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Vesturlands á Akranesi 14. nóvember 2024.
Haukur var sonur hjónanna á Vatnsenda, þeirra Engilberts Runólfssonar, f. 8. nóvember 1899, d.14. júní 1996, og Bjargar Eyjólfsdóttur f. 13. júní 1907, d.1. júlí 1981.
Haukur var elstur í hópi fjögurra barna Engilberts og Bjargar. Systkini Hauks eru Svava, f. 1939, d. 2011, Runólfur, f. 1941, d. 2010, og Eyjólfur, f. 1943. Systkini Hauks sammæðra eru Hulda Hafliðadóttir Bachmann, f. 1924, d. 2019, og Ásgeir Hafliðason, f. 1925, d. 2009.
Árið 1964 giftist Haukur Svanlaugu Rögnu Þórðardóttur, þau skildu. Börn þeirra eru: 1) Birgir, f. 1964, maki Natali Shavlay, börn þeirra Anastasia Sóley, f. 2010, og Aníta Rós, f. 2013, Birgir var áður giftur Maríu Sigurjónsdóttur og eiga þau Sigurjón, f. 1983, hans barn er Frosti Hrafn, f. 2008. 2) Björg, f. 1966, maki Karl Vídalín Grétarsson, börn þeirra Klara Rós, f. 1996, og Svana Fanney, f. 1999. 3) Ágúst Þór, f. 1967, maki Björg Hafsteinsdóttir, börn þeirra Thelma Dís, f. 1998, og Andri Fannar, f. 2004. 4) Þórdís, f. 1972, barn hennar Aron Brynjar. f. 1997, 5) Engilbert, f. 1978, maki Ásta Lilja Ásgeirsdóttir, barn þeirra Ragnheiður Rán, f. 2015, fyrir átti Engilbert með Sunnu Björk Þórarinsdóttur synina Dag Mána, f. 2005, og Hauk Óðin, f. 2012.
Haukur hóf síðar sambúð með Eiríku Steinunni Sigurhannesdóttur en hún lést árið 1988. Síðar giftist Haukur Kristínu Helgu Zalewski, þau skildu. Gekk Haukur yngstu dóttur hennar í föðurstað og ættleiddi: 6) Eybjörg Helga, f. 1982, maki Jón Ellert Þorsteinsson, börn þeirra eru Halldóra Soffía, f. 2007, og Elín Helga, f. 2010.
Haukur var bóndi á Vatnsenda í Skorradal. Þar bjó hann alla sína ævi og sinnti búskap með foreldrum sínum, Engilberti og Björgu. Hann tók síðan alfarið við búskap af þeim um 1980. Haukur var á yngri árum öflugur hlaupari og keppti í langhlaupum, víðavangshlaupum og hindrunarhlaupum.
Hann keppti bæði á Íslandi og erlendis. Vann hann til fjölda verðlauna og setti ýmis met. Árið 2015 á 100 ára afmæli Víðavangshlaups ÍR var hann heiðraður ásamt öllum þálifandi sigurvegurum Víðavangshlaupsins í hófi sem haldið var í Höfða í Reykjavík, en Haukur sigraði í Víðavangshlaupinu í tvígang, árin 1958 og 1959.
Haukur byggði upp öflugan búskap á Vatnsenda og hafði mikinn metnað í sauðfjárrækt og landgræðslu og hlaut hann Landgræðsluverðlaunin árið 2019. Hann hóf skipulagningu og uppbyggingu á sumarhúsabyggð í landi sínu á Vatnsenda á níunda áratugnum og stendur þar nú fögur byggð sumarhúsa.
Útför Hauks fór fram í kyrrþey frá Hvanneyrarkirkju 3. desember 2024.
Elsku pabbi, nú þegar þú ert búinn að kveðja okkur þá viljum við minnast þín og þakka fyrir allt.
Pabbi bjó alla tíð á Vatnsenda í Skorradal sem var honum afar kær. Þar ólst hann upp í faðmi foreldra og systkina. Á Vatnsenda sinnti hann búskap með foreldrum sínum og tók síðan alfarið við búskap af þeim um 1980. Á yngri árum þegar minna var að gera á Vatnsenda yfir vetrarmánuði fór hann suður til Reykjavíkur og starfaði þar. Hann hafði alla tíð gaman af dansi og sótti á þessum tíma gömlu dansana í Breiðfirðingabúð, Þórskaffi og Gúttó. Var mættur þegar opnað var og dansaði fram til loka kvölds eins og aðrir sem þar voru. Á síðustu árum meðan heilsan leyfði fór hann aftur að taka þátt í dansleikjum og naut þess vel.
Á Vatnsenda var stundaður sauðfjár og kúabúskapur. Um miðjan níunda áratuginn var kúabúskap hætt og þá eingöngu stundaður sauðfjárbúskapur eftir það. Pabbi hafði mikinn metnað í sauðfjárrækt og hafði mikinn áhuga á kynbótum í íslensku sauðfé og ræktun gæðahrúta var honum mikið hugðarefni.
Hann vann með bústörfunum öflugt starf í landbótum á Vatnsenda og jók verulega við ræktuð tún og engi ásamt uppgræðslu á gróðursnauðu landi. Hann hóf markvissa uppgræðslu á landi Vatnsenda um 1970 og byrjaði að dreifa heyi og moði á gróðursnauða mela og uppi á Skorradalshálsi. Síðar bætti hann um betur og bar á tilbúinn áburð með góðum árangri. Árið 1995 hóf hann þátttöku í verkefninu Bændur græða landið sem er samvinnuverkefni Landgræðslunnar og landeigenda um uppgræðslu heimalanda. Að auki sinnti hann uppgræðslu á annarri jörð í sinni eigu, Gröf í Lundarreykjadal, sem liggur að Vatnsenda uppi á Skorradalshálsi. Pabbi hlaut Landgræðsluverðlaunin árið 2019.
Pabbi var atorkumikill maður og vissulega glæsilegur á velli á sínum blómatíma. Hann lét sér aldrei verk úr hendi falla. Mátti treysta að því verki væri vel borgið sem hann tók að sér að sinna og hann kom miklu í verk á sinni ævi. Hann var fylginn sér, einstaklega atorkumikill, vinnusamur og metnaðarfullur. Hann var ætíð til staðar fyrir sína nánustu, boðinn og búinn fyrir sína sveitunga. Hann var kjarnyrtur í máli, notaði sterk orð, stundum kaldhæðinn og mjög stríðinn. Stundum hafði hann gaman af því að ganga aðeins fram af fólki. Gat verið skapríkur og lét ekki vaða yfir sig. En hann hljóp einnig undir bagga hjá þeim sem minna máttu sín en lét lítið bera á. Hann hóf skipulagningu á sumarhúsasvæði í landi Vatnsenda á níunda áratugnum og eru þar nú fjölmörg sumarhús og sannkölluð paradís fyrir þau sem þar eiga hús.
Hann stóð fyrir því að stofna vatnsveitu og lét bora eftir köldu vatni í landi sínu og lét leggja um sjö og hálfs kílómetra langa leiðslu til að sjá byggðinni í Vatnsendahlíðinni fyrir köldu vatni og er nú aldrei skortur á köldu vatni á Vatnsenda.
Pabbi hafði gaman af því að ferðast, bæði innanlands og utan. Fór meðal annars í skipulagðar ferðir um Evrópu auk keppnisferðanna á yngri árum. En alltaf var Vatnsendi sá staður sem honum var kærastur og þangað lá leiðin alltaf aftur. Hvíl í friði.
Björg, Þórdís,
Birgir, Engilbert
og fjölskyldur.
Þegar ég hóf nám í sauðfjárháskólanum á Hesti haustið 1971 kynntist ég mörgum Borgfirðingum, sem ég lærði margt af. Einn þessara höfðingja var Haukur á Vatnsenda, sem ég vil minnast með nokkrum orðum. Hann var þarna öllum duglegri að elta fé bæði í úthaga og á túnum. Mér kom þetta ekki alveg á óvart vegna þess að úr blöðum og útvarpi þekkti ég hann sem einn mesta langhlaupara landsins og landsliðsmann í þeim greinum. Einnig var orðræða hans sérstök, áreiðanlega ekki numin hjá sóknarprestinum, orðavalið þannig. Það sem ég mat mest hjá Hauki og átti síðan mest samskipti við hann í áratugi um var mikill áhugi á fallegu sauðfé.
Haukur átti fleira fallegt fé en flestir Borgfirðingar á þeim árum, sem við áttum margar ánægjustundir síðar við að skoða og ég að fræðast um. Margt af þessu fé hafði hann fengið frá Hesti eða úr sæðingum. Sem einn af tveim aðalsauðfjársæðingamönnum búnaðarsambandsins var hann þar á heimavelli vegna þess að þaðan þekkti hann stöðvarhrútana betur en aðrir, jafnvel líka á báðum hinum stöðvunum.
Hann seldi fjölda úrvalshrúta á öll bestu fjárbú í varnarhólfinu og grunar mig að stundum hafi bændurnir treyst honum fyrir valinu. Vissu að hann kunni meira um fé en hinn aðalsæðingamaðurinn, sem boðaði bændum nýja erfðafræði sem fjallaði um að eiginleikar hrútanna réðust mest af lit stráanna, sem geymdu sæðið. Á Hesti var Haukur maður að skapi Halldórs Pálssonar. Haukur átti mikinn fjölda þekktra ættfeðra í sauðfjárræktinni eða seldi, suma á stöðvarnar. Nefni örfáa þeirra þekktustu í aldursröð; Logi, Lassi, Hákur, Sámur, Möttull, Skorri og Álfur. Hann var hluti af ræktunarmafíu sauðfjár utan Hestsbúsins í Borgarfjarðarsýslu ofan Skarðsheiðar ásamt bændum á Gullberastöðum, Múlakoti og Hellum.
Eftir að um hægðist í búskapnum, löngu hættur að tutla kýr, sem hann var held ég áhugalaus um, fór hann að ferðast vítt um land á haustin til að sjá fallegt sauðfé. Þannig hitti ég hann vestur í Mávahlíð á lokaárum búskapar bræðranna þar að morgni dags að kynna sér nánar í návígi það fræga fé. Stundum bætti hann hrútum við sitt eigið bú á þessu flakki.
Sjálfur veiktist ég í nokkur ár en þegar ég reis aftur til lífs frétti ég fljótt að hann sæti enn að búi á Vatnsenda. Heimsótti hann þangað, það voru gleðifundir, hann það þrotinn að kröftum að ekki gat hann sýnt mér féð. Í staðinn rifjuðum við upp marga gamla glæsigripi.
Skömmu síðar kom ég með Bjarna á Hlíð að Hesti í fyrsta sinn sem Bjarni kom þangað frá 1975, þegar hann var fjármaður þar. Hestsmenn höfðu sýnt Hauki það vinarþel að sækja hann. Þar urðu ógleymanlegir endurfundir hans og Bjarna.
Fyrir þessar og ótal fleiri samverustundir í áranna rás vil ég færa Hauki á Vatnsenda að leiðarlokum kærar þakkir með þessum fátæklegu orðum. Allir fjárbændur á Íslandi munu um leið standa í mikilli þakkarskuld við hann fyrir framlag hans til ræktunarstarfsins. Öllum nánustu aðstandendum er vottuð innileg samúð.
Jón Viðar Jónmundsson.