Bækur
Einar Falur
Ingólfsson
Norræna samtímafrásögn af systrum sem búa við ömurlegar aðstæður hjá drykkjusjúkum föður, móðurlausar og án nánast nokkurs stuðnings nema hvor af annarri, kæmi ekki á óvart að sjá skrifaða í nöturlegum raunsæisstíl, með þungri ádeilu á kerfið sem bregst brotinni fjölskyldunni. En norski höfundurinn Ingvild Rishøi fer aðra leið – hún skrifar um efnið ljúfa og launfyndna „jólasögu“ en það er undirtitill Stargate. Tónninn í frásögninni er fallegur, þar er gott fólk, dætrunum þykir vænt um pabba sinn, og svo eru að koma jól. En þær systur minnast sín á milli á eina þekktustu jólasöguna, þá um litlu stúlkuna með eldspýturnar eftir H.C. Andersen, þótt persónur minnist ekki sögulokanna þar með sama hætti. Sú saga endaði illa, þótt fagur draumur hafi verið inngangur að þeim endi. Og sama gerist í Stargate, þar sem höfundurinn kallast með fallegum hætti á við forvera sinn Andersen; þetta getur ekki farið vel.
Rishøi er hálffimmtug, starfaði lengi sem blaðamaður og hefur sent frá sér barnabækur og þrjú sagnasögn en Stargate – Jólasaga var fyrsta skáldsaga hennar og fyrsta bók sem þýdd er á íslensku, fallega og af tærleika af Kari Ósk Grétudóttur. Rishøi hefur unnið til nokkurra virtra bókmenntaverðlauna í heimalandinu og einnig hreppt Doblaug-verðlaunin sem Sænska akademían veitir.
Sagan er sögð af Ronju, yngri systurinni, en þær unglingurinn Melissa, sú eldri, eru nánar og samhentar í baráttu sinni við fátæktina, þar sem grípa þarf tækifærin sem gefast um leið og systurnar reyna að skapa sér skjól fyrir áreiti og erfiðleikum, hvort sem það er einelti, grimmd þeirra sem hafa það gott, eða taumlaus drykkja föðurins sem vitaskuld er ástæða fátæktarinnar. Sagan er sögð í stuttum afar vel stíluðum köflum í þátíð, köflum sem drifnir eru áfram af fallega mótuðum samtölum og knappri en áhrifaríkri persónusköpun. Það líður að jólum og að ráði húsvarðarins í grunnskólanum, sem er innflytjandi og fyrir vikið utangátta í skólasamfélaginu eins og Ronja, þá hvetur hún alkóhólistann föður sinn, sem er edrú um þær mundir, til að sækja um starf við að selja jólatré á aðventunni. Pabbinn tollir vægast sagt illa í vinnu en slær til og fær starfið. Sem gleður systurnar mjög, enda sjá þær fram á að líf fjölskyldunnar batni með föstum tekjum hans, og mögulega fái þær jólagjafir. En þeir draumar molna vitaskuld þegar faðirinn fær útborgað því þá fer hann úr vinnugallanum og í leðurjakkann og beint á krána Stargate, þar sem hann heldur sig gjarnan með drykkjugenginu sínu. Þá verða systurnar ráðagóðu að taka til eigin ráða við að afla fjár fyrir jólin, og fá í lið með sér góðhjartaðan starfsmann fyrirtækisins sem selur jólatrén, þar sem pabbi þeirra vann áður. Og það gengur vel um hríð, þar til þær rekast á regluverk samfélagsins í köldum og myrkum desembermánuði. Systurnar kveikja ekki á eldspýtum eins og danska stúlkan, en hvað er til ráða þegar pabbinn er sauðdrukkinn, hvergi liðsinni að fá og barnaverndarnefndin kann að vera á leiðinni?
Stargate er falleg og huglúf saga, og vissulega „jólasaga“, hver sem nákvæma skilgreiningin á því bókmenntaformi kann að vera. Rýnir les iðulega Aðventu Gunnars Gunnarssonar á aðventunni og á þar sína „jólasögu“, sem er hlaðin erfiðleikum sem þarf að leysa og endar vel. Stargate gerist líka í aðdraganda jóla og segir frá jólaundirbúingi og draumum um gleðileg jól, þótt þau þurfi ekki að vera ríkmannleg. Systurnar ungu eru strand á jaðri samfélagsins en búa yfir reisn og ríkulegri sjálfsbjargarhvöt; þá er væntumþykja dætranna fyrir vonlausum og fársjúkum föðurnum sérlega fallega fram sett. Í nágrenninu er líka gott fólk sem veitir stuðning, hann nær því miður bara of skammt. En það er óhætt að mæla með lestri á þessari fallegu, vel skrifuðu og hlýlega mannlegu sögu. Rýnir viðurkennir að heitið pirrar, að hafa heiti krárinnar Stargate, og um leið sjálfs verksins, upp á ensku; annað öldurhús sem pabbinn sækir heitir í þýðingunni einfaldlega Vinir – mátti kannski þýða heitið sem Stjörnuhlið eða eittvað slíkt? En það hlið kann að bíða opið þeim sem ekki hafa annað að fara í grimmum heimi.