Glódís Perla Viggósdóttir og Orri Steinn Óskarsson eru knattspyrnufólk ársins 2024 samkvæmt niðurstöðu leikmannavals Knattspyrnusambands Íslands. Glódís er knattspyrnukona ársins þriðja árið í röð en hún er fyrirliði Bayern München og íslenska landsliðsins. Orri Steinn er knattspyrnumaður ársins í fyrsta sinn. Orri hefur fest sig í sessi sem lykilmaður í íslenska landsliðinu og átti frábært tímabili með FC Köbenhavn í Danmörku á liðnu tímabili, lék 27 leiki í deildinni og skoraði í þeim 10 mörk og lagði upp sex. Hann var í kjölfarið keyptur til Real Sociedad á Spáni.
Körfuknattleiksdeild Selfoss hefur samið við Bandaríkjamanninn Tony Wroten um að leika með karlaliðinu í 1. deild út tímabilið. Wroten á að baki 151 leik í NBA-deildinni. Hann er 31 árs bakvörður sem lék síðast með Urupan de Pando í efstu deild Úrúgvæ. Wroten var valinn númer 25 í fyrstu umferð í nýliðavali NBA-deildarinnar árið 2012 af Memphis Grizzlies.
Þýski körfuknattleiksmaðurinn Moritz Wagner, leikmaður Orlando Magic í NBA-deildinni, varð fyrir því óláni að slíta krossband í vinstra hné um liðna helgi. Er tímabili hans því lokið. Wagner, sem er 27 ára miðherji, hefur verið einn af lykilmönnum Orlando undanfarin ár ásamt yngri bróður sínum Franz sem einnig er fjarverandi vegna meiðsla um þessar mundir. Krossbandsslit í hné þýða venjulega 9-12 mánaða fjarveru og því gæti EM 2025 verið í hættu hjá Moritz.
Handknattleiksmaðurinn Ísak Logi Einarsson hefur skrifað undir nýjan samning við Stjörnuna. Ísak Logi er 21 árs leikstjórnandi og skytta. Í tilkynningu frá handknattleiksdeild Stjörnunnar kemur ekki fram til hve margra ára nýi samningurinn er. Hann lék með Stjörnunni í yngri flokkum, skipti til Vals á táningsárum og gekk svo aftur til liðs við Garðbæinga sumarið 2023.
Andri Nikolaysson Mateev úr Skylmingafélagi Reykjavíkur er skylmingakarl ársins 2024 og Anna Edda Gunnarsdóttir Smith úr FH er skylmingakona ársins að mati Skylmingasambands Íslands. Andri er skylmingakarl ársins í níunda sinn og Anna skylmingakona ársins í fjórða sinn.
Ástralski tennisleikarinn Max Purcell er kominn í ótímabundið bann frá öllum afskiptum af íþróttinni eftir að hafa viðurkennt lyfjamisferli. Purcell er 26 ára og hefur borið sigur úr býtum á Wimbledon og Opna bandaríska meistaramótinu í tvíliðaleik.
Enski knattspyrnumaðurinn Bukayo Saka kantmaður Arsenal verður frá keppni í margar vikur vegna meiðsla. Saka fór meiddur af velli í 5:1-stórsigri Arsenal á Crystal Palace í ensku úrvalsdeildinni um helgina eftir að hafa rifið vöðva aftan í læri. Enski miðillinn The Times greinir frá því að Saka megi eiga von á því að vera frá í fjórar til sex vikur og snúi því væntanlega ekki aftur á völlinn fyrr en í febrúar á næsta ári.