Sjór gæti orðið þungur og einhver veltingur í siglingu ms. Brúarfoss sem í gærkvöldi lagði í haf frá Reykjavík til Nuuk á Grænlandi. Siglingaáætlanir þarf að halda þótt hátíðir séu. Brúarfoss kom frá Danmörku í gær, að morgni Þorláksmessu, með ýmislegt sem landinn þarf um jól og áramót. Svo var haldið áfram til Grænlands. Þar verður stutt stopp, svo haldið til baka og komið heim á gamlársdag.
„Jólin koma, hvar sem maður er staddur. Þá tilfinningu þekki ég vel; þetta verða mín 30. jól á sjónum, en alls er sjómannsferillinn orðinn 46 ár,“ segir Karl Guðmundsson, skipstjóri á ms. Brúarfossi. 15 menn eru í áhöfn.
„Kokkurinn verður með eitthvað gott í matinn og svo er kakó á eftir. Svo opna menn jólapakka, meðal annars sendinguna sem við fáum alltaf frá Hrönn, sem er kvenfélag skipstjórnarkvenna,“ segir skipstjórinn. »4