Í Elliðaánum Guðmundur og Rósa Margrét barnabarn hans í Símastrengnum í júlí 2020. Guðmundur veiddi laxinn, sem tók fluguna „Black and Blue“, nr. 16.
Í Elliðaánum Guðmundur og Rósa Margrét barnabarn hans í Símastrengnum í júlí 2020. Guðmundur veiddi laxinn, sem tók fluguna „Black and Blue“, nr. 16.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðmundur Einarsson fæddist 25. desember 1924 og verður því 100 ára á morgun. Hann fæddist í Reykjavík og ólst upp með foreldrum og systkinum á Vesturvallagötu 7 í Vesturbæ Reykjavíkur. Einar faðir hans byggði þar hús sem var heimili fjölskyldunnar og margra ættmenna hans

Guðmundur Einarsson fæddist 25. desember 1924 og verður því 100 ára á morgun.

Hann fæddist í Reykjavík og ólst upp með foreldrum og systkinum á Vesturvallagötu 7 í Vesturbæ Reykjavíkur. Einar faðir hans byggði þar hús sem var heimili fjölskyldunnar og margra ættmenna hans. Foreldrar Guðmundar héldu nánum tengslum við ættfólk sitt í Árnessýslu og var Einar þar við vinnu á sumrum í allmörg ár. Guðmundur var í sveit í Litlu-Sandvík hjá Guðmundi Þorvarðarsyni og Sigríði Lýðsdóttur konu hans frá sjö ára aldri fram á unglingsár: „Þau kenndu mér að þekkja og virða náttúruna og fuglana og ég bý að því enn.“

Guðmundur gekk í Miðbæjarskólann og Ingimarsskólann og stundaði síðan nám í Iðnskólanum í Reykjavík og tók þar sveinspróf í málaraiðn vorið 1946.

Guðmundur vann lengst af sem sjálfstætt starfandi málarameistari í Reykjavík. Hann tók virkan þátt í félagsstarfi málara og málarameistara um árabil.

Sem ungur maður fékk Guðmundur mikinn áhuga á stangveiði og stundaði fluguveiði í ám og vötnum fram á allra síðustu ár sér til mikillar ánægju. Hann var öflugur flugukastari og vann til verðlauna á þeim vettvangi. Uppáhaldsveiðistaðir hans eru í Elliðaánum, þar sem hann veiddi sinn fyrsta lax árið 1954 og það í Eldhúshylnum og stundaði fram á síðustu ár með Árna syni sínum, en einnig Norðurá og Þingvallavatni, þar sem hann hefur átt margar ánægjustundir. Guðmundur er enn félagi í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur.

Í hálfa öld var Guðmundur áhugasamur golfari þar sem hann naut félagsskapar og hreyfingar með góðum vinum, lengst af í Nesklúbbnum, og síðar í Oddi. Og hann náði því takmarki að fara hann holu í höggi.

Þau Hanna tóku virkan þátt í borgarlífinu og sóttu leikhús, tónleika og listsýningar. Þau stunduðu útivist og göngur sér til ánægju og heilsubótar og ferðuðust víða. Guðmundur var aukinheldur iðinn við sund og líkamsrækt af ýmsum toga sem hann iðkar enn. Þá er hann mjög vel lesinn og mikill áhugamaður um bókmenntir. Lestur er enn hans helsta áhugamál.

Foreldrar Guðmundar voru kirkjurækin og vandist hann í æsku á að sækja kirkju. Þau Hanna sóttu áratugum saman kirkju í Dómkirkjunni og tóku virkan þátt í safnaðarstarfi sem Guðmundur gerir enn. Starfið í Dómkirkjunni var þeim dýrmætt og eignuðust þau þar góða vini.

Guðmundur hefur haldið heimili einn frá 2005 og gerir enn.

Fjölskylda

Eiginkona Guðmundar var Hanna Ragnarsdóttir húsfreyja, f. í Reykjavík 26.11. 1929, d. í Reykjavík 28.5. 2008. Hanna og Guðmundur bjuggu allan sinn búskap í Reykjavík, lengst af í Vesturbænum. Þau voru gefin saman í hjónaband heima hjá sr. Bjarna Jónssyni 10.4. 1948. „Hún var fyrsta og eina ástin mín og við áttum hamingjuríkt líf saman í meira en hálfa öld.“

Foreldrar Hönnu voru Stefanía Árnadóttir húsfreyja, f. 12.7. 1906, d. 28.10. 1992, og Ragnar Erlingsson málarameistari, f. 26.12. 1903, d. 7.9. 1993. Hanna ólst upp hjá móðurforeldrum sínum, Kristínu Ólafsdóttur og Árna Árnasyni, á Bakkastíg 7 í Reykjavík.

Börn Guðmundar og Hönnu eru: 1) Kristín, f. 15.8. 1948, kennari, búsett í Kópavogi. Maki: Vignir Einar Thoroddsen, aðstoðarforstjóri Hafrannsóknastofnunar, f. 18.7. 1948, d. 20.10. 2021; 2) Ásdís, f. 11.8. 1955, kennslustjóri, búsett í Reykjavík. Maki: Þórarinn V. Þórarinsson lögmaður, f. 25.6. 1954; 3) Árni, f. 9.4. 1970, tæknimaður, búsettur í Reykjavík. Maki: Hrönn Stefánsdóttir kennari, f. 29.12. 1971.

Barnabörn Guðmundar og Hönnu eru Hanna Kristín Thoroddsen, f. 1980, Arndís Þórarinsdóttir, f. 1982, Hildur Þórarinsdóttir, f. 1985, og Rósa Margrét Árnadóttir, f. 2011. Barnabarnabörnin eru fimm.

Systkini Guðmundar voru Jón Þorbjörn Einarsson, f. 30.8. 1926, d. 24.2. 2016, málarameistari í Reykjavík; Haraldur Einarsson, f. 8.8. 1927, d. 13.6. 2007, kaupmaður í Reykjavík, og Sigríður Einarsdóttir, f. 28.5. 1932, d. 19.10. 2016, húsfreyja í Reykjavík.

Foreldrar Guðmundar voru Einar Guðmann Guðmundsson, f. 12.11. 1893, d. 9.10. 1984, verkamaður, og Guðbjörg Jónsdóttir, f. 22.8. 1891, d. 18.1. 1982. Þau voru í hjónabandi í 58 ár og bjuggu næstum allan sinn búskap á Vesturvallagötu 7 í Reykjavík, en það hús byggðu þau.