Bakvörður tengir jólahátíðina einhvern veginn óumflýjanlega við íþróttir. Ekki bara það að hægt sé að horfa á enska boltann, NBA-deildina, heimsmeistaramótið í pílu og NHL-deildina í íshokkíi um hátíðarnar

Gunnar Egill

Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Bakvörður tengir jólahátíðina einhvern veginn óumflýjanlega við íþróttir.

Ekki bara það að hægt sé að horfa á enska boltann, NBA-deildina, heimsmeistaramótið í pílu og NHL-deildina í íshokkíi um hátíðarnar.

Þeir sem taka þátt í bumbubolta hvers konar eru nefnilega eflaust flestir sammála um að hann sé sérstaklega skemmtilegur á þessum árstíma. Bráðnauðsynlegur líka.

Það þarf víst að hlaupa allt kjötið og seltuna af sér og þá er ekki verra að gera það í góðra vina hópi, sem flestir eru vafalaust í sama báti.

Kannski erum við Íslendingar sérstaklega háðir íþróttaskemmtiefni og því að hreyfa okkur, að minnsta kosti aðeins, þegar skammdegið reynir sitt besta til að draga okkur niður.

Íþróttagláp, samverustundir, afslöppun, góður matur og drykkur, hreyfing ef við nennum. Það hljómar ekki beint illa í eyrum bakvarðar.

Það viðurkennist að bakvörður er mikið jólabarn enda átti hann afmæli í gær.

Á þessum árstíma finnst bakverði sérstaklega mikilvægt að hafa eitthvað til þess að hlakka til, hvort sem það snýr að hátíðinni sjálfri eða einhverju öðru, til dæmis íþróttatengdu.

Tilhlökkunin fyrir jólunum sjálfum eða afmælinu er ekki eins og á yngri árum, við eftirlátum börnunum það, heldur frekar fyrir ofangreindum notalegheitum.

Gleðileg jól, kæru lesendur, og takk fyrir árið sem er senn á enda. Megi komandi íþróttaár verða okkur öllum sérstaklega gæfuríkt og sigursælt.