Guðmundur Sv. Hermannsson
gummi@mbl.is
Áform eru um að reisa nýtt hús við Skógasafn undir Eyjafjöllum, Þórðarstofu, þar sem minningu Þórðar Tómassonar, stofnanda og fyrsta safnvarðar Byggðasafnsins á Skógum, verður haldið á loft. Einnig er áformað reisa nýja skemmu við Skógasafn sem gæti nýst bæði til sýninga í tengslum við samgöngusafn og sem geymsla fyrir safnmuni.
„Þórður ólst upp í Vallnatúni undir Eyjafjöllum, ekki langt frá Skógum, og bjó, eins og margir á þeim tíma, fyrst í torfbæ en á fjórða áratug síðustu aldar var byrjað að byggja þar steinsteypt íbúðarhús eftir staðlaðri ríkisteikningu. Þetta voru einföld steypt hús, rúmlega 55 fermetrar að stærð. Hugmyndin er að byggja þannig hús, bæði til að heiðra ævistarf Þórðar við safnið og einnig til að gera sögunni skil varðandi híbýli þess tíma því þetta eru hús sem taka í raun við af torfbæjum,“ segir Tómas Birgir Magnússon, stjórnarformaður Skógasafns og systursonur Þórðar.
Tóku við skjalasafni Þórðar
Byggðasafnið á Skógum var stofnað árið 1949 að frumkvæði Þórðar Tómassonar og fyrsta sýningin fyrir almenning var í Skógaskóla sem tók til starfa það ár. Safnið hefur stækkað mikið á síðustu áratugum og auk byggðasafnsins er þar nú m.a. rekið samgöngusafn, húsasafn og héraðsskjalasafn, safnverslun og kaffihús.
Samgöngusafnið, sem opnað var formlega árið 2002, hefur stækkað hratt og þarf nú meira rými. Á síðasta ári fékk Skógasafn arf eftir Hinrik Thorarensen, sem var mikill áhugamaður um fornbíla. Hann arfleiddi safnið að öllum fornbílum sínum, bæði uppgerðum og óuppgerðum, varahlutum og geymsluhúsnæði við Esjumela sem nú er í söluferli.
Þórður Tómasson lést árið 2022, á 101. aldursári. Árið 2019 gerði Skógasafn samning við hann um varðveislu á skjölum og bókum sem voru í hans einkasafni og eins að það yrði reist Þórðarstofa í minningu hans þar sem hans ævistarfi væri haldið á lofti og munir tengdust honum.
Þórður hóf þegar um fermingu að safna ýmsum munum og heimildum um mannlíf og sögu á Suðurlandi og skrifaði fjölda bóka um það efni og samkvæmt samkomulaginu verða þessar frumheimildir varðveittar á vegum safnsins og gerðar aðgengilegar.
Gert ráð fyrir rekstrarhagnaði
Skógasafn, sem er í eigu Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu, hefur skilað hagnaði síðustu ár og Tómas Birgir segist telja að þetta sé eina safn landsins sem ekki er rekið að mestu með utanaðkomandi fé. Hins vegar þurfi að leita til velunnara til að afla fjár til sérstakra framkvæmda eins og þeirra sem nú eru á teikniborðinu.
Fram kemur í fjárhagsáætlun Skógasafns fyrir næsta ár, sem kynnt hefur verið sveitarstjórnum, að gert er ráð fyrir um 23 milljóna króna rekstrarafgangi. Þá er miðað við að 48.500 gestir komi í safnið, sem er fjölgun um 278 gesti frá 2023.
Fram kemur í fjárhagsáætluninni að fjöldi gesta dróst saman fyrstu níu mánuði þessa árs um 10,6% frá árinu á undan. Hugsanlega hafi eldgosin á Reykjanesskaga, Evrópukeppnin í fótbolta karla og Ólympíuleikarnir í París haft áhrif á komur ferðamanna til landsins og ferðavenjur þeirra sem hér dvelja.
Sögutengd ferðaþjónusta
Tómas Birgir segir að mikil tækifæri séu í sögutengdri ferðaþjónustu á svæðinu. Þá sé ýmislegt að gerast á Skógum til að bæta aðgengi ferðamanna. M.a. er verið að ljúka við nýtt bílastæði við Skógafoss og greiðfær gönguleið hefur verið lögð að Kvernufossi, skammt austan við Skóga, sem er orðinn mjög fjölsóttur staður.
Þórðarstofa í Skógasafni mun geyma skjalasafn Þórðar Tómassonar
Fyrirmyndin er æskuheimilið í Vallnatúni
Þórður Tómasson fæddist árið 1921 í Vallnatúni undir Eyjafjöllum. Þá var torfbær á jörðinni en steinsteypt íbúðarhús var reist árið 1938 eftir staðlaðri teikningu sem víða var notuð.
Að sögn Tómasar Birgis Magnússonar voru þrjú önnur sams konar hús reist undir Eyjafjöllum á þessum tíma, þar á meðal í Björnskoti og á Sauðhúsvöllum.
Foreldrar Þórðar, þau Tómas Þórðarson og Kristín Magnúsdóttir, bjuggu í Vallnatúni í 40 ár, frá 1919 til 1959, en þá brugðu þau búi og fluttu að Skógum.
Ekki var búið í íbúðarhúsinu frá 1974 og það var í mikilli niðurníðslu þar til Tómas Birgir gerði það upp á árunum 2008-2010. Hann bjó þar um tíma og rekur þar ferðaþjónustu. Nú er hugmyndin að þetta hús verði fyrirmynd að Þórðarstofu sem áformað er að reisa í Skógasafni.
„Þetta er einföld bygging sem segir sína sögu um byggingarform á fyrri hluta síðustu aldar sem er ágætis nálgun og í anda Þórðar. Hann var ekki mikið fyrir veraldleg gæði og vildi helst eyða tímanum í að grúska í þjóðlegum fræðum,“ segir Tómas Birgir Magnússon.