Kristján Jónsson
kris@mbl.is
Svigrúm til strandveiða verður aukið til muna samkvæmt stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. Þar segir að 48 dagar verði tryggðir á næsta ári og í 12 daga í hverjum mánuði eða í maí, júní, júlí og ágúst.
Örn Pálsson, hjá Landssambandi smábátaeigenda, sagðist í samtali við 200 mílur líta svo á að fyrirkomulagið verði væntanlega til framtíðar. Hanna Katrín Friðriksson er nýtekin við embætti atvinnuvegaráðherra og segist telja mögulegt að breytingar á fyrirkomulagi strandveiða geti tekið gildi fyrir næsta sumar. „Það liggur alveg ljóst fyrir samkvæmt stjórnarsáttmálanum að eitt af forgangsverkefnum í mínu ráðuneyti er að fara ofan í þetta og finna leiðir. Vinna þarf hratt og vel því ætlunin er að þetta taki gildi fyrir sumarið. Í ljósi þess hversu skýrt þetta er orðað, og hversu mikill vilji er hjá flokkunum þremur, þá verður þetta eitt þeirra verkefna sem fara í forgang,“ segir Hanna Katrín.
Spurð um útfærsluna segir hún of snemmt að fullyrða um hvaða leið verði farin til að auka veiðarnar en tilfærsla á aflaheimildum verði skoðuð. „Ég hef hug á að skoða tilfærslu heimilda en áður þarf ég að kynna mér gögn í ráðuneytinu og ræða við ýmsa aðila. Ég verð að gefa mér það svigrúm á þessum tímapunkti,“ segir Hanna Katrín en Örn segir að með lengra tímabili megi tryggja jafnræði milli landshluta. Fiskistofa stöðvaði strandveiðar 12. júlí en þá sé stóri þorskurinn rétt að ganga inn á grunnslóð á Norður- og Austurlandi. „Það er eitt af því sem skiptir máli og undanfarin ár hefur svæðaskipulagið verið skoðað með það fyrir augum að finna lausnir. Fyrir ákveðna landshluta hefur skipulagið verið ósanngjarnt. Einnig hefur verið vilji fyrir því að stöðva að menn fari út í hvaða veðri sem er enda er það bókstaflega hættulegt,“ segir Hanna Katrín.