Andrés Magnússon
Inga Þóra Pálsdóttir
Afar óljóst er hvaða sparnaði má ná fram með hagræðingu í stjórnarráðinu, þar á meðal með því að fækka ráðuneytum um eitt. Forystumenn ríkisstjórnarinnar hafa nefnt 400 milljónir króna á ári í því samhengi, en svar við fyrirspurn Morgunblaðsins til menningar- og viðskiptaráðuneytisins bendir til þess að það sé mikið ofmat.
Samkvæmt svörum ráðuneytisins mun sparnaðurinn á næsta ári nema liðlega 68 m.kr., tæplega 194 m.kr. árið eftir og 230 m.kr. árið 2027, sem eru samtals 490 m.kr. Það leiðir af því að lögð séu niður störf níu starfsmanna af skrifstofu ráðuneytisstjóra og skrifstofu fjármála og gæðamála, auk tveggja aðstoðarmanna, og lækkun á kostnaði við ráðherraakstur, öryggisgæslu, ferðalög o.fl., en laun ráðherra eru ekki meðtalin.
Þá er hins vegar ekki tekið með í reikninginn að einhverjir af þessum starfsmönnum flytjist til og sinni svipuðum störfum á ekki verri kjörum en áður, möguleg biðlaun og þess háttar.
Hvernig sem því er háttað skeikar ljóslega miklu á 1,2 milljörðum á þremur árum eða 490 milljónum króna.
Óljósar heimildir og svör
Nýju ráðherrarnir voru spurðir út í þetta að loknum ríkisstjórnarfundi í gær, en svörin voru óljós.
„Þetta eru upplýsingar sem okkur hafa borist innan úr stjórnkerfinu. Þetta er auðvitað eitthvað sem þarf að leggjast yfir núna. Það er auðvitað heilmikill kostnaður sem sparast í yfirbyggingu. Einhver samlegð mun nást inn á milli,“ sagði Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra í samtali við Morgunblaðið.
Hún gat ekki svarað því hvaðan upplýsingarnar hefðu komið, en Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ekki hafi verið leitað eftir gögnum eða upplýsingum í menningar- og viðskiptaráðuneytinu.
Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra var ekki skýrari í svörum.
„Það liggja einhver minnisblöð þarna til grundvallar og síðan hverju þetta á eftir að skila þarf auðvitað bara að koma í ljós. Það tekur nokkurn tíma og eins og fram hefur komið þá mun þetta ekki eiga sér stað fyrr en einhvern tíma síðar á árinu.“
Þið teljið að það verði 400 milljónir á ári?
„Það liggja til grundvallar minnisblöð sem styðja einhverja sambærilega tölu við þetta.“
Þetta eru minnisblöð frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu?
„Þetta eru minnisblöð úr stjórnkerfinu sem var aflað í undirbúningi stjórnarsáttmálans.“
Leituðuð þið upplýsinga til ráðuneytisins?
„Það var leitað upplýsinga um rekstrarkostnað og mögulega hagræðingu.“
Til ráðuneytisins?
„Það var leitað upplýsinga úr stjórnarráðinu.“
En ekki beint til ráðuneytisins?
„Ég þori ekki að fullyrða á þessum tímapunkti hvaðan þau minnisblöð voru. Ég er búinn að lesa of mörg minnisblöð á undanförnum vikum.“