Á aðfangadag fer vel á því að byrja á glettinni kveðju frá séra Hjálmari Jónssyni: „Ekki sakar að rifja það upp þegar læknirinn nafni minn, Freysteinsson, var búinn að hlusta á jólalögin um of

Pétur Blöndal

p.blondal@gmail.com

Á aðfangadag fer vel á því að byrja á glettinni kveðju frá séra Hjálmari Jónssyni: „Ekki sakar að rifja það upp þegar læknirinn nafni minn, Freysteinsson, var búinn að hlusta á jólalögin um of. Hann orti bálk sem í var m.a. þessi vísa:

Týnd er flestum trúarvissa,

taumleysið er þjóðarmein.

Allt of margar mömmur kyssa

á munninn einhvern jólasvein.“

Sigrún Haraldsdóttir yrkir á jólum:

Lífs þótt finni klukku klifa,

kulna hjartasól,

finnst mér gott að fá að lifa

fleiri heilög jól.

Alltaf má stóla á Bjarna frá Gröf:

Gleðileg jól og gefi þér frið

Guð og allt hans skyldulið.

Kysstu konuna við og við.

Það veitir ei af um skammdegið.

Bjarna Stefáni Konráðssyni er margt til lista lagt. Þegar hann bjó í Köln árið 1985 orti hann þessa fallegu jólavísu:

Horfi ég einn mót hækkandi sól

horfi á jörðina vakna.

Horfi á gróðurinn halda sín jól

horfi og reyni að gleyma

hve sárt ég núna sakna

sveitarinnar heima.

Rakel Bessadóttir fann aldurinn færast yfir:

Ævirólið enn ei dvín,

æðsta skjólið bíður.

Lífsins sólin sígur mín

senn að jólum líður.

Þá Theodóra Thoroddsen:

Fýkur í skjólin skerpast hret.

Skefur af hól og grundum.

Naumast sólu séð ég get.

Svon' eru jólin stundum.

Gunnar J. Straumland yrkir oddhenda langhendu, sem Sveinbjörn Beinteinsson kallaði flughent:

Föruvindar fjallið synda

fagra tinda hylur kóf.

Freramyndir fannir binda

frýs þá lind við klettagróf.

Að síðustu jólavísa eftir Grím Thomsen:

Af því myrkrið undan snýr

ofar færist sól.

Því eru heilög haldin

hverri skepnu jól.