Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
„Jólin koma, hvar sem maður er staddur. Þá tilfinningu þekki ég vel; þetta verða mín 30. jól á sjónum, en alls er sjómannsferillinn orðinn 46 ár,“ segir Karl Guðmundsson, skipstjóri á ms. Brúarfossi. Stórskipið lagði í haf frá Reykjavík í gærkvöldi, á Þorláksmessu, og stefnan var sett á Nuuk á Grænlandi. Verður komið þangað síðdegis á annan dag jóla, gangi allt upp samkvæmt siglingaáætlun, sem þarf að halda hvað sem líður hátíðum.
Vestlægar átti og veltingur
Veðurspáin var ekki beint spennandi þegar Karl leit yfir kortin í gær, þá að gera sjóklárt fyrir túrinn. „Við vorum að koma frá Árósum í Danmörku og vorum í leiðindaveðri alla leiðina. Fórum norður fyrir Færeyjar og hér með suðurströndinni til að vera í skjóli. Svo dúraði þegar komið var inn á Faxaflóann og í höfn. Nú erum við á leiðinni strax út aftur og gera má ráð fyrir veltingi og vestlægum áttum á leiðinni. Þetta verður eitthvað,“ segir skipstjórinn og brosir.
Brúarfoss, 180 metra langt skip og 26.169 tonn á þyngd, verður farinn að nálgast suðurodda Grænlands þegar helgi jólanna verður hringd inn kl. 18 í kvöld.
Gaman með karlinum
„Kokkurinn verður með eitthvað gott í matinn og svo er kakó á eftir. Svo opna menn jólapakka, meðal annars sendinguna sem við fáum alltaf frá Hrönn, sem er kvenfélag skipstjórnarkvenna. Þær eru okkur afskaplega góðar, gjöfin frá þeim er gjarnan rakspíri, vettlingar eða eitthvað slíkt fallegt. Annars veit ég ekki hvað við getum verið með í borðsalnum núna, ef verður eitthvert rugg og stórsjór eins og nú má búast við. Við sjáum hvað setur; þetta verður annars ekkert mál,“ segir Karl, maður sem er öllu vanur eftir langan feril.
Fimmtán menn eru í áhöfninni á Brúarfossi og strákarnir sem taka jólatúrinn voru að tínast um borð í eftirmiðdaginn í gær. Þeir koma svo aftur til Íslands á gamlársdag, gangi allt upp. „Það er bara gaman að sigla með karlinum,“ segir hásetinn Hafsteinn Úlfar; sonur Karls skipstjóra. Þeir feðgarnir voru saman í brúnni og hlökkuðu til að sigla út í svart myrkrið á skipinu sem er lýst og fallega skreytt eins og hæfir á jólum.