Guðrún Karls Helgudóttir
Í byrjun desember ár hvert breytist allt. Þá hefst aðventan, dimmasti tími ársins. Jólaskreytingar og kertaljós eru því mörgum kærkominn léttir í þyngslum skammdegisins. Á þessum árstíma hellist yfir sum okkar annars konar myrkur því að í nútímasamfélagi fylgja jólunum ýmsar kvaðir. Tómir stólar við jólaborðið þar sem ástvinir sátu áður eru viðkvæm áminning um missi og söknuð auk þess sem útgjöld eru erfið fyrir mörg okkar. Börnin þurfa að fá dagatal og jólagjafir og maturinn kostar sitt. Það þarf að þrífa heimilið, sjá til þess að skórnir fari út í glugga og að jólasveinarnir eigi fyrir gjöfunum í þá. Þá þarf að kaupa í matinn, skreyta jólatréð, pakka inn gjöfum og mögulega fara upp í kirkjugarð áður en jólin ganga í garð.
Þetta er ekki auðvelt fyrir neitt okkar en ef verkefnin verða þér óyfirstíganleg, ef myrkrið er dimmara en áður og lífið erfiðara en það ætti að vera eru prestar og djáknar í öllum kirkjum landsins til staðar fyrir þig.
Jólin eru tími tilfinninga. Á þessum tíma verður fátæktin aðeins sárari en venjulega og sorgin svolítið dýpri. Minningar um gömlu jólin sækja að hvort sem þær eru gleðilegar eða erfiðar. Ef við erum undir álagi fyrir þá magnast það upp á þessum árstíma. Það sama á við um sorgina, já og ástina. Allt verður aðeins dýpra, meira og stærra um jólin.
Jólin eru tími tilfinninga. Þau fjalla um lítið barn sem fæðist í útihúsi, um nýbakaða foreldra, fólk á hrakhólum, sögu sem endar vel því einn gistihúseigandi sagði já. Við þekkjum öll söguna um það hvernig Guð kom inn í heiminn í mynd lítils ósjálfbjarga barns við óöruggar aðstæður. Hið guðlega birtist okkur þannig í auðmýktinni en ekki með hroka og yfirgangi.
Um jólin fögnum við fæðingu frelsarans og þann viðburð höldum við hátíðlegan. Við fögnum því að sólin hækki á lofti og að bjartara sé í dag en í gær. Við fögnum nýju kirkjuári og nýju upphafi. Við fögnum hátíð ljóss og friðar og þá er mikilvægt að við virðum það að jólin eru haldin af ólíkum ástæðum með ólíkum hefðum og ólíkum sögum á heimilum landsins.
Tími undirbúnings
Aðventan er tími sem sum okkar nota til að þrífa og skreyta. Mörg okkar nota tækifærið og lýsa skammdegið með seríum og aðventuljósum. Jólin eiga það til að verða mælistika fyrir hin ýmsu verkefni ársins. „Ertu búin að öllu?“ „Ég þarf að klára þetta fyrir jól.“ Ys og þys einkenna mánuðinn hjá flestum en eitt breytist aldrei: Jólin koma.
Jólin koma nefnilega alltaf og þrátt fyrir að fólk njóti aðventunnar á mismunandi hátt er þetta hátíð okkar allra.
Ég bið að óska þess að öll getum við haldið þau hátíðleg. Ég bið að óska þess að ekkert okkar beri sorgir sínar og erfiðleika óstutt um jólin. Ég bið þess að öll þau sem syrgja, þau sem kvíða, þau sem eru einmana, þau sem finna fyrir þunglyndi, glíma við fíkn eða vanlíðan, finni um þessi jól að þau eru ekki ein.
Um þessi jól bið ég að óska þess að þau sem eru sátt við lífið, þau sem elska og eru elskuð, þau sem deila jólunum með börnum sínum, fjölskyldu eða vinum, njóti vel og skapi minningar sem munu lifa um alla ókomna tíð.
Um þessi jól vona ég að fleiri muni eftir því hvað eitt já frá gistihúsaeiganda gerði eitt sinn fyrir verðandi foreldra í Betlehem og að fleiri finni þetta sama já í sér og skapi með því pláss handa fleirum.
Um jólin fyllast kirkjur landsins af fólki sem sem trúir og fólki sem efast. Á jólum komum við saman og syngjum sálmana sem kalla fram minningar um jól barnæskunnar og við sköpum framtíðarminningar með börnunum okkar. Um jólin verður hið heilaga áþreifanlegra er himinn og jörð mætast. Þegar jólin ganga í garð setjumst við niður klukkan sex, hvort sem það er í kirkju eða heima við matarborðið. Mörg okkar hækka í þögninni í útvarpinu áður en klukkurnar hringja inn jólin.
Hvernig sem þín aðventa er, þá eru jólin sá tími er við þökkum fyrir það sem sameinar okkur í stað að einblína á það sem greinir okkur að. Um leið og jólin færa okkur frið er gott að nýta þennan tíma til þess að sjá náungann og kanna hvort hann þurfi á okkar jái að halda.
Guð gefi þér gleðileg jól!
Höfundur er biskup Íslands.