Ferðaþjónustan Ferðamannafjöldinn sem sækir Ísland heim hefur haldist svipaður milli ára, en afkoma greinarinnar hefur verið að batna.
Ferðaþjónustan Ferðamannafjöldinn sem sækir Ísland heim hefur haldist svipaður milli ára, en afkoma greinarinnar hefur verið að batna. — Morgunblaðið/Karítas
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að árið í heild hafi gengið ágætlega í ferðaþjónustunni. Vöxtur hafi þó ekki einkennt greinina á árinu. „Árið fór eins og við mátti búast

Magdalena Anna Torfadóttir

magdalena@mbl.is

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar (SAF), segir að árið í heild hafi gengið ágætlega í ferðaþjónustunni. Vöxtur hafi þó ekki einkennt greinina á árinu.

„Árið fór eins og við mátti búast. Við höfum verið að tapa samkeppnishæfni gagnvart áfangastöðum á borð við Noreg vegna stöðu efnahagslífsins bæði hér á landi og í Noregi,“ segir Jóhannes. Ferðamannafjöldinn sem sæki Ísland heim hafi haldist svipaður milli ára en á móti komi að afkoma greinarinnar hafi verið að batna og greinin skapað meiri tekjur fyrir þjóðarbúið.

„Afkoma greinarinnar hefur verið að batna í ár þó svo að staða fyrirtækjanna sé að sjálfsögðu misjöfn,“ segir Jóhannes.

Spurður hvernig vetrarferðamennskan hafi gengið segir Jóhannes að hún hafi gengið ágætlega og Ísland sé greinilega enn ofarlega í huga ferðamanna.

„Við sjáum að ferðatímabilið er að lengjast fram á haustið, sem er virkilega gott fyrir nýtingu innviðanna. Þeir ferðamenn sem hafa ferðast hvað mest hingað til lands yfir vetrartímann eru Bretar og Bandaríkjamenn. Þar á eftir koma Ítalir og Þjóðverjar,“ segir Jóhannes en bætir við að ferðamenn frá Asíu hafi verið mikilvægir gestir yfir vetrartímabilið.

„Við vonumst til að fleiri Kínverjar heimsæki Ísland nú í febrúar þegar kínverska nýárið gengur í garð,“ segir Jóhannes.

Bókunarstaðan verri

Kínverjum sem heimsækja Ísland hefur fjölgað jafnt og þétt og náði fjöldinn hámarki árið 2019 en hefur hins vegar ekki náð sér á strik eftir covid-faraldurinn.

Jóhannes segir að bókunarstaðan á gististöðum næstu mánuði sé heldur verri en á sama tíma í fyrra.

„Það verður áhugavert að sjá hvort sú þróun heldur áfram að gistirýmin fyllist með skömmum fyrirvara,“ segir Jóhannes.

Spurður út í horfurnar í ferðaþjónustunni fyrir næsta ár segir Jóhannes að samtökin geri ekki ráð fyrir vexti í greininni á næsta ári.

„Við gerum ráð fyrir svipuðum fjölda og svipuðum gjaldeyristekjum. Ég tel að næsta ár muni bæði fela í sér tækifæri og áskoranir,“ segir Jóhannes.

Greinin að tapa samkeppnishæfni

Jóhannes segist binda vonir við að ný ríkisstjórn leggi ekki auknar álögur á greinina.

„Ef ný ríkisstjórn hækkar virðisaukaskatt á greinina mun það hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppnisstöðu. En almennt eru horfurnar ágætar, staðan er þó sú að við erum að tapa samkeppnishæfni gagnvart samkeppnislöndum okkar og ef það heldur áfram næstu ár er það alvarleg þróun,“ segir Jóhannes.

Reglulega sprettur upp umræða um mikilvægi þess að laða hingað til landsins betur borgandi ferðamenn.

„Beinni neytendamarkaðssetningu hefur ekki verið haldið úti síðan árið 2022. Samsetning ferðamanna hefur verið svipuð frá því eftir faraldurinn en líkt og þekkt er þá breyttist hún í faraldrinum. Ef við viljum laða hingað til lands verðmætari ferðamenn verðum við að sækja fram í markaðssetningu,“ segir Jóhannes.