Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks hjá Reykjavíkurborg, segir regnbogavottun komna til að vera. Þórhildur, sem starfar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, sér um fræðslu vegna…

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þórhildur Elínardóttir Magnúsdóttir, sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks hjá Reykjavíkurborg, segir regnbogavottun komna til að vera.

Þórhildur, sem starfar á mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu Reykjavíkurborgar, sér um fræðslu vegna vottunarinnar en vel á annað hundrað starfsstaðir hjá borginni hafa fengið vottun (sjá graf). En hvað er vottun?

„Regnbogavottun er ferli sem starfsstaðir Reykjavíkurborgar hafa kost á að fara í, með það að markmiði að gera starfsemi þeirra og þjónustu hinseginvænni. Starfsstaðir hafa sjálfir samband við starfsfólk regnbogavottunar og óska eftir að fá að hefja ferlið í átt að regnbogavottun. Fræðsla um málefni hinsegin fólks, staðalmyndir og fordóma er meginuppistaðan í vottuninni og skal allt starfsfólk starfsstaðar sitja fræðsluna. Að fræðslu lokinni vinnur starfsstaðurinn aðgerðaáætlun í málefnum hinsegin fólks með tímasettum skrefum sem þau ætla að stíga til að gera sína starfsemi og þjónustu hinseginvænni,“ segir hún.

Í umsjón sérfræðings

Hvaða starfsmenn borgarinnar hafa sinnt verkefninu?

„Sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks á Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu hefur umsjón með verkefninu og sér um fræðsluna. Aðrir starfsmenn skrifstofunnar hafa aðstoðað við tilfallandi verkefni tengd regnbogavottuninni, til dæmis þegar nýr sérfræðingur í málefnum hinsegin fólks var að hefja störf haustið 2023.

Um tíma árið 2022 var einnig verktaki í vinnu hjá skrifstofunni við það að halda fræðslu fyrir starfsstaði sem hluta af regnbogavottun. Sá verktaki vann samhliða þáverandi sérfræðingi skrifstofunnar í málefnum hinsegin fólks.“

Hvað tekur hver vottun að jafnaði mikinn tíma?

„Það er mismunandi milli starfsstaða hvað hver vottun tekur langan tíma. Fræðslan sem er meginuppistaða vottunarinnar tekur 4,5 klst. Þá útbúa starfsstaðir aðgerðaáætlun fyrir sinn starfsstað í málefnum hinsegin fólks að fræðslu lokinni og vinna svo að innleiðingu hennar. Aðgerðaáætlun skal uppfærð á hverju ári. Innan þriggja ára frá fyrstu fræðslu fá regnbogavottaðir starfsstaðir svo upprifjunarfræðslu, minnst 1,5 klst.

Þetta eru því að jafnaði sex til tólf klukkustundir sem starfsstaðir leggja í vottunina til að byrja með, en getur verið meira á stærri starfsstöðum og eftir umfangi aðgerðaáætlunarinnar. Þá þurfa starfsstaðir að leggja vinnu á hverju ári í að fylgja eftir sinni aðgerðaáætlun, sem og uppfæra hana á árs fresti. Það er mismunandi milli starfsstaða hvað það tekur mikinn tíma.“

Hvenær er áætlað að verkefninu ljúki?

„Regnbogavottunin er áframhaldandi verkefni sem ekki er fyrirséður endir á.

Yfir 400 einstakir starfsstaðir eru hjá borginni og um 120 þeirra hafa lokið vottun. Það er því töluverður fjöldi sem á eftir að fara í vottun, en það er einnig biðlisti til að komast að í vottunina. Tekið er inn af biðlista eftir því hvenær starfsstaðir höfðu samband og óskuðu eftir að fá að fara í vottunarferlið. Ekki er víst hvort og þá hvenær það myndi nást að regnbogavotta alla starfsstaði borgarinnar. Þá þarf einnig að hugsa til þess að jafnvel ef allir starfsstaðir borgarinnar hefðu lokið við vottun væri enn vinna við það að sinna endurnýjun og upprifjun á regnbogavottuðum starfsstöðum.

Regnbogavottun er ekki eitthvað sem starfsstaðir fara einu sinni í og þurfa síðan aldrei að sinna aftur heldur felur hún í sér stöðuga endurskoðun og endurbætur á starfsemi og þjónustu Reykjavíkurborgar,“ segir Þórhildur að lokum.